Verð

Líkamslykt loðir við rúmföt. Undarlegt hvað sængin mín er gegnsýrð af líkamsilmi Húsasmiðsins, þegar allt kom til alls svaf hann áreiðanlega aldrei undir henni. Samt er þetta ekki bara mín lykt heldur lyktin af okkur báðum. Eða er þetta kannski bara mín eigin lykt? Lykta ég þá eins og tvö? Eða lykta ég bara eins og hann? Hefur hörund mitt drukkið í sig lyktina af honum og er mín eigin lykt þá horfin? Hef ég kannski aldrei haft neinn líkamsilm? Getur verið að vanhæfni mín til þess að mynda varnaleg tilfinningatengsl standi í sambandi við það? Er ég kannski eins og aðalgæinn í Ilminum eftir Patric Suskind?

Ég þoli ekki lyktina af sænginni minni. Þ.e.a.s. sorg mín þolir hana ekki. Samt tími ég ekki að þvo sængurverið. Ég setti sængina þessvegna í svartan ruslapoka og batt vel fyrir, henti henni síðan niður í bílskúr. Þar ætla ég að geyma Húsasmiðinn og lyktina af honum þar til ég er tilbúin til að þvo verið.

Það erfiðasta er ekki að sofna ein, heldur að hafa ekki nettengingu. Ég keypti dagbók með mynd af broddgelti og nú sit ég í pabbarúmi og skrifa það sem ég myndi annars setja á bloggið. Kannski ágætt að ég get ekki bloggað því pabbi veit ekki enn að ég er í húsinu. Ég bara get ekki hringt í hann og sagt honum að enn einn maðurinn hafi gefið skít í mig án skýringa.

Langar ekkert að gera og hef ekkert borðað nema ís. Ég er búin að borða næstum allan ísinn sem pabbi átti í frystinum. Eitt er víst, ég verð að gera eitthvað. Bara hvað sem er til að varna því að svartnættið hellist yfir mig, það er enginn maður þess virði að leggjast í þunglyndi hans vegna. Ég verð, ég ætla. ég mun; fara út, hitta fólk, finna íbúð, kannski vinnu. Ekki einmanaleg textaverkefni heldur einhverja negravinnu þar sem maður þarf ekkert að hugsa, bara hamast. Helst með fullt af fólki í kringum mig. Helst skemmtilegu fólki.

Best er að deila með því að afrita slóðina