Sonur minn næringarfræðingurinn

Sonur minn Fatfríður hringdi í gær. Kvartaði um ofþreytu af óskiljanlegum ástæðum. Ég sagði honum að það væri eðlilegt að finna til þreytu þegar maður færi í erfiðisvinnu úr margra mánaða kyrrsetu og fengi ekki helgarfrí en honum fannst þetta samt óeðlilegt.

Við spjölluðum aðeins meira; ég spurði hann hvort hann og ástmey hans hefðu komist í Bónus og hvort þau ættu nógan mat. Hann sagði svo vera, þau hefðu fengið pláss í frystikistu og ættu nóg að bíta og brenna.
-Annars þurfum við eiginlega engan mat, við höfum bara borðað ís á kvöldin, sagði hann.

Þau fara semsé matarlaus í vinnuna og andskotast fram að hádegi, éta þá yfir sig í mötuneytinu og halda áfram að vinna til 6 eða 7 á kvöldin, gúlla þá í sig ís og vaka svo fram á nótt. Já, ég skil bara ekkert í því að drengurinn skuli vera þreyttur.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina