Pallasmíð

Við keyptum húsið sem Hollendingurinn fljúgandi bjó í áður en hann flutti til mín og nú erum  við að gera það upp.

Unnusti minn athafnamaðurinn er búinn að setja upp vinnupall við húsið. Hann er nógu stór til að halda ættarmót á honum og handriðið er hæfilega hátt til að hægt sé að sitja nakinn í sólbaði án þess að misbjóða blygðunarkennd nágrannanna. Fyrst við neyðumst til að hafa vinnupall þarna á annað borð en engin ástæða til annars en að reyna að hafa sem mest not af honum og við gerum því ráð fyrir að koma þar fyrir jasshljómsveit, danspalli og bar, allavega yfri hásumarið. Athafnamaðurinn ætlar ennfremur að mála vinnupallinn í sömu litum og gluggana og skreyta hann með blómakerjum.

-Heldurðu ekki að sé nein hætta á að einhver misskilji þetta og haldi að þetta séu svalir? sagði ég.

Nei, hann var ekki hræddur um það. Hann ætlaði sko ekki að bjóða nágrönnunum upp á það að hafa forljótt plankahrildur fyrir augunum, svo þeirra vegna ákvað hann að hafa þetta huggulegt. Það er nefnilega svo mikið sem þarf að gera fyrir húsið að það má alveg búast við að pallurinn þurfi að standa nokkuð lengi.

Best er að deila með því að afrita slóðina