Ég og Dalai Lama álítum

Samkvæmt þessu prófi er ég á svipuðu róli í pólitík og Dalai Lama!

Þessi niðurstaða segir nú reyndar meira um áreiðanleik svona prófa en stjórnmálaskoðanir mínar. Enginn sem þekkir mig myndi flokka mig sem friðelskandi hrísgrjónaætu. Þvert á móti er mín trúarjátning, hvort sem er í pólitík eða einkalífinu á þessa leið:

-Ég mun sýna þér fyllstu sanngirni og drengskap en ef þú endilega vilt leiðindi þá geturðu svo sannarlega fengið þau.
-Ef þú stingur mig í bakið þá ríf ég hnífinn af þér og rek hann niður í kokið á þér.
-Ef þú skaðar einhvern sem ég elska, þá sé ég til þess að líf þitt verði einhversstaðar á skalanum leiðgjarnt — óbærilegt, og vona að þú náir hárri elli.
-Eini óvinurinn sem ég hef ástæðu til að óttast er möguleikinn á því að ég komi óheiðarlega fram við sjálfa mig. Allir aðrir óvinir eru í eðli sínu álíka ógnvaldar og rottur, kannski ógeðsleg skaðræðiskvikindi en skjótast í felur um leið og maður stappar niður fætinum.
-Það er ósiðlegt að drepa rottur eða meiða þær. Hins vegar má flæma þær burt með öllum tiltækum ráðum.
-Ef rotturnar eru of margar til að hægt sé að flæma þær burt, má safna þeim saman í einu herbergi og láta þær um að éta hver aðra.
-Það er ekki ósiðlegt að gleðjast í hjarta sínu, þegar rotturnar éta hver aðra.

Segið mér að Dalai Lama myndi skrifa undir þessar skoðanir og þá skal ég flytja til Tíbet.

Best er að deila með því að afrita slóðina