Nýr karakter í safnið

Í gærmorgun sat ég uppi í Þjóðarbókhlöðu en varð ekkert úr verki. Mig langaði í kaffi en gat ekki hugsað mér að fara á einhverja kaffistofuna á háskólasvæðinu. Eins og einn karakterinn í KVETCH orðar það; ég dey innan um fólk. Ég fór upp í Perlu en gekk illa að ná sambandi við afgreiðsludömuna sem var að pússa borð og tók ekki eftir mér. Annar kúnni, karlmaður, dálítið eldri en ég og greinilega heimavanur á kaffiteríunni, kallaði á hana með nafni og rétti mér bolla. Ég settist niður með verkefnið mitt og hann settist niður við næsta borð ásamt manni sem var með honum.

Stuttu síðar stóð hann upp, kom til mín og bauðst til að sækja fyrir mig ábót á kaffið. Ég var hálfhrærð yfir þessum almennilegheitum. Ég leit ekki einu sinni vel út, ómáluð í jogginbuxum með málningarslettum, víðu rúllukragapeysunni sem Spúnkhildur eftirlét mér þegar hún flutti, sjúskaðri úlpu af Pysjunni og skóm sem hafa aldrei verið burstaðir. Hann færði mér kaffið og hálftíma síðar kom hann aftur að borðinu og spurði hvort ég gerði ráð fyrir að koma í morgunkaffi í Perluna aftur á svipuðum tíma morgun. Samt hafði ekkert augngotudaður né neitt í þá veruna átt sér stað á milli okkar.
-Já, laug ég, af því að mér finnst það svo heillandi þegar fólk gengur hreint til verks og eftir það kynntum við okkur, ég man ekkert hvað hann heitir.

Ég safna áhugaverðu fólki og sleppi aldrei tækifæri til að kynnast þeim sem vekja forvitni mína við fyrstu kynni. Yfirleitt kynnist ég þessum karakterum ekki nógu vel til að úr því verði langvarandi vinátta en það er samt þess virði. Þetta litla atvik í Perlunni ber vott um ákveðið blygðunarleysi og það vekur áhuga minn. Mér leiðist svo óskaplega mikið að umgangast fólk sem skammast sín fyrir sjálft sig og það er alls ekki algengt að fólk geri bara það sem því dettur í hug, ódrukkið fyrir hádegi á miðvikudegi, þótt eina áhættan sem fylgi því sé kurteisleg höfnun. Maðurinn veit ekkert um mig og sennilega finnst honum ég bara sæt og hefur hugsað sem svo að það gæti verið gaman að tékka á því hvort þessi huggulega kona sé líka viðræðugóð. Flestir hefðu hugsað sem svo að það sé nú á mörkum þess að vera viðeigandi að ónáða bláókunnuga manneskju, bara af því að hún er ekki beinlínis ljót. Flestir hefðu látið möguleikann á því að hún ætti mann, stoppa sig, án þess að velta fyrir sér þeim möguleika að hún gæti hugsanlega verið nógu áhugaverð til að yrði kannski gaman að kynnast henni án þess að bólfarir væru á stefnuskránni.

Ég er sumsé á leiðinni í Perluna til að hitta þennan ókunnuga mann. Kannski fannst honum ég ekkert sérstaklega sæt. Kannski veðjaði hann bara við vin sinn um að hann gæti fengið þessa ógæfulegu kvenmannsnefnu til að mæta í morgunkaffi, þokkalega tilhöfð, greidd, snyrt og huggulega klædd. Ef svo er vinnur hann veðmálið. Ég er ekki alveg búin að gera upp við mig hverju ég ætla að ljúga að honum um sjálfa mig. Læt það ráðast. Ef hann reynist áhugavert rannsóknarefni er morgninum vel varið og þá bið ég hann um símanúmer. Ef ég kveð kurteislega eftir kaffibollann og neita að afhenda símanúmer, hefur hann annaðhvort reynst ómótstæðilegt sjarmaknippi sem á sér þá ósk heitasta að gera mig ríka og hamingjusama og engin leið að ég þori að taka áhættuna á því að hann hætti við þegar hann áttar sig á því hver ég er, eða þá að mér finnst hann leiðinlegur. Ef ég gef honum slóðina á þessa netsíðu, getur hann tekið því sem merki um að ekkert af ofangreindu eigi við.

Og nú verð ég víst að hætta þessu í bili, spartla í hrukkurnar og draga fram einhvern fatnað sem lítur út fyrir að vera keyptur með mig í huga en ekki Sigrúnu eða systur mína.

Best er að deila með því að afrita slóðina