Skjálfti 2

Eitt kvöldið ræðst Hryllingurinn bakdyramegin inn í líf manns og það eina sem maður getur mögulega gert í málinu er að loka augunum og lifa af til morguns.

Það vill svo til að einmitt þá er Keli staddur í Albaníu og maður veit að ef maður sendi honum skeyti með þessu eina orði „komdu“, þá tæki hann fyrstu vél heim án þess að krefjast skýringa. En það vill einnig svo til að hann er að undirbúa brúðkaupið sitt og þar sem hann getur hvort sem er engu breytt, gerir maður það ekki. Enda á maður Farfugl og maður hringir í hann daginn eftir en hann svarar ekki. Maður reynir allan daginn og um kvöldið knýr maður dyra á Dragaveginum en þar er enginn heima. Maður ekur í hringi um hverfið í von um að hann sé rétt ókominn, reynir aftur, ekur dálítið meira, fer svo heim og heldur áfram að lifa af.

Nokkrum dögum síðar drekkur maður sig út úr á þorrablóti, fellur saman inni á klósetti og býr til einhverjar fáránlegar skýringar handa konunum sem eru af góðmennsku sinni að stumra yfir manni þegar þær ættu að vera að skemmta sér.

-Maður sér ekki alveg fram úr fjármálunum og er gjörsamlega að koksa á því að vera í fullu námi og vinna eins og þræll með skólanum til að ná endum saman.
-Maður átti erfiða æsku.
-Maður er ennþá í sárum eftir skilnaðinn eða einhvern kærasta sem gaf skít í mann án skýringa.
Af því að slíkt er hægt að afgreiða sem fylliríisröfl eftir á, og sannleikann leggur maður ekki á fólk sem maður þekkir ekki því betur.

Svo drekkur maður meira og er að dauða kominn í fatahenginu þegar einhver, af einskærum mannkærleika, druslar manni upp í leigubíl og síðan upp stigann, sama stiga og maður hljóp upp flissandi viku fyrr, algjörlega sjálfbjarga.

Daginn eftir kemur Farfuglinn svo, hnígur í faðm manns og á bágt af því að hann losaði sig við fallegan stelpukjána sem auk þess að vera bæði heimsk og leiðinleg, var beinlínis vond við hann. Maður hefur þarfnast hans svo sárt að manni líður kannski andartak eins og tilfinningalegri ruslatunnu en þegar hann segir:
Takk fyrir að vera til staðar, ég veit að ég hef ekki sérlega mikið að gefa þessa dagana; rennur upp fyrir manni að maður þarfnast hans kannski fyrst og fremst vegna þess hve þurfandi hann er. Hann þarfnast manns svo mikið að það væri beinlínis órökrétt að verða svekktur og í rauninni er maður glaður því hann er lifandi sönnun þess hvað maður sjálfur er sterkur og sjálfbjarga og æðrulaus. Sennilega er maður mun þroskaðri en flest annað fólk af því að áföll eru svo holl og þroskandi og nú hefur maður orðið fyrir enn einu slíku. Maður ætti að vera beinlínis hamingjusamur yfir því að fá tækifæri til að deila vísdómi sínum um æðruleysið með svona týndri og þurfandi sál.

Samt er maður ekki alveg fullkomlega sáttur og setur í gráhúmoríska hálftruntugírinn;
-Þú veist að ég er sálfræðihóra. Ég sel væluskjóðum huggun gegn kynlífi og komdu nú hingað og borgaðu fyrir þig. Og hann brosir auðvitað að kerksninni í manni, þótt honum finnist þetta kannski ekki beinlínis fyndið og öllum þessum árum síðar veit maður að það er þetta sem hann á við, þegar hann segist ekki vita hvar hann hefur mann.

Samt tekur hann mann í fangið og gefur það sem hann á. Það er bara svo lítið. Svo miklu minna en það sem maður þarf. Eða öðruvísi. En það er allt í lagi. Ef maður þarf endilega að drekkja því sem þegar er orðið í kjaftæði, þá er til heil starfstétt hálærðra kjaftaska, sem getur svosem tekið að sér að segja manni það sem maður veit, fyrir fjárhæð sem dugar fyrir bæði fyrir raforkureikningnum og sojakjötskammti mánaðarins. Maður þarfnast þess ekki og í rauninni þarf maður harla lítið á öðru fólki að halda, því lykillinn að lífshamingjunni er sá að vera sjálfum sér nógur. Fólk er hvort sem er sjaldnast til staðar þegar maður þarf á því að halda og þegar allt kemur til alls getur enginn hjálpað manni nema maður sjálfur. Maður getur svosem engu breytt en maður getur lært að loka augunum og lifa það af.

Svo líða ár og áratugur og maður lifir það af. Kemst algjörlega yfir það. Svo rækilega að það virðist ekki raunverulegra en hver önnur martröð og það hefur engin áhrif á eitt eða neitt og maður finnur aldrei hjá sér nokkra þörf til að ræða það. Það líður hjá, svo rækilega að manni bregður ekki einu sinni verulega þegar maður fer til dyranna, eins og maður er klæddur, 10-11 árum síðar og Hryllingurinn stendur á tröppunum í eigin persónu. Maður æðrast ekki, enda ekkert til að æðrast yfir, heldur vísar honum á bug af fullri kurteisi.

Því miður. Nú á ég ekki lengur neitt sem hægt er að taka frá mér, svo hafðu þig á burt því ég hef ekki tíma fyrir þig.
Hann biðst afsökunar og fer og maður hefur unnið mikinn persónulegan sigur. Samt sem áður tekst honum einhvernveginn að ræna mann því eina sem maður mátti alls ekki missa. Hugarrónni.

Svo stendur maður á forstofugólfi gamals félaga sem líklega hefur ekki mikið að gera frekar en fyrri daginn. Maður stendur þar í krampakenndum faðmlögum og skelfur eins og birkihrísla undir einangun úr ull og dúni. Maður segir eitthvað um það, ekki af því að maður hafi þörf fyrir að ræða það, heldur af því að sá sem er góður við mann á rétt á því að vita hvar hann hefur mann. Það er nefnilega þannig að þegar eitthvað óþægilegt hendir mann, þótt það sé ekki neitt alvarlegt, bara minni háttar bögg, þá pústar maður oftast út. Þar með er það afgreitt og enginn reynir að hafa vit fyrir manni.

Ef maður getur ekki pústað út, og ef maður í þokkabót ræður sér sjálfur, þá er svo auðvelt að ljúga því að sjálfum sér að það megi bíða til morguns að fara með bílinn í smurningu, að maður geti tekið sér frí frá vinnu í nokkra daga, að maður geti frestað hverju verkefninu á fætur öðru, slökkt á símanum og sökkt sér niður í ljóðagerð eða eitthvað álíka arðbært. Hann strýkur á manni hárið og maður hættir að skjálfa af því að maður veit að þetta er allt í lagi. Maður veit að hann er til staðar og það er ekki bara eitthvað sem hann segir af því að honum finnst að þannig eigi það að vera, heldur af því að hann þarfnast þess.

Maður þarf ekki að fyrirverða sig fyrir að þarfnast einhvers sem þarfnast þess að maður þarfnist hans. Maður þarf ekki að segja neitt heldur, því í augnablikinu er nóg fyrir hann að vita að maður þarfnast hans. Hann getur hvort sem er ekki gert neitt í málinu. Nema kannski að vera til staðar þegar maður loksins viðurkennir, að það eina sem maður getur gert í málinu, er að opna augun og lifa það af.

Best er að deila með því að afrita slóðina