Hættur farinn?

Ofbauð þér? Er það þessvegna sem þú lést þig hverfa? Fannst þér ég ganga of langt? Well, I never promised you a rose-garden. Nú skal ég segja þér dálítið og þú ættir að lesa þetta tvisvar og taka glósur, ví að lífið er ekki stór, mjúkur bómullarhnoðri og þú gætir orðið fyrir einhverju svipuðu aftur.

Þú ert, minn kæri, einhver yndislegasta mannvera sem ég hef kynnst. Þótt þú sért ekki alúðlegur í framkomu veit ég að þú ert kærleiksríkur og hjartahlýr og það eru sjaldgæfir eiginleikar. Ég veit það vegna þess að þú talar um fjölskyldu þína og vini af óvenjulegri ástúð og virðingu. Ég kann að meta manngæskuna í þér. Svo ertu líka skemmtilegur og það er bónus.

En þú ert hrokafullur, elskan mín. Þú veist að þú ert afburðagreindur og þú heldur að þessvegna sértu yfir annað fólk hafinn. Allavega yfir þá sem taka ákvarðanir sem þér finnast órökréttar, þá sem sýna önnur viðbrögð en þú sjálfur. En það er ekki svo.

Þú ert falleg sál. Þú ert góður strákur. Þú hefur persónutöfra og fólk hrífst af þér, ekki eins mikið og þú heldur en jújú, það hrífst vissulega af þér. Ég hef töluvert álit á þér, meira álit en flestir aðrir, en ég sé líka alveg þennan veikleika þinn. Allir sjá hann og hann er lýti á þér. Ég sé hann, og ég hef samúð með þér vegna þess að ég skil hann. Ég skil hversvegna þú heldur að þú sért merkilegri en annað fólk, svo merkilegur að þú telur þig geta hunsað (sleppi d-inu af ástæðum sem eru þér kunnar) fólk sem kroppar í þessa bómullartilveru þína, fólk eins og mig. Ég skil viðbrögð þín en ég samþykki þau ekki. Þú hunsaðir mig þegar ég talaði til þín í fullri einlægni. Og nú veistu að ég læt ekki hunsa mig.

Þú ert góður strákur og sjálfsagt hefurðu haldið að þú værir að gera mér greiða með því. Kannski hefurðu í manngæsku þinni, hugsað sem svo; „lofum stelpugreyinu að halda andlitinu“. En eins og ég sagði þér þá hef ég ekkert andlit til að missa. Ég þarf ekki að halda höfði gagnvart neinum nema sjálfri mér. Ég hef þykkan skráp og skerta blygðunarkennd, ég sagði það hreint út og ef þú hefur haldið að það væri varnarbragð, hefurðu vanmetið mig.

Þú veist svosem að ég er ekki eins gáfuð og ég lít út fyrir að vera en sá sem opnar sál sína er ekki endilega heimskur og það þarf meira en tilviljanakenndan átroðning til að drepa fjallajurt með blá augu. Þú þurftir ekki að óttast að særa mig, og ef út í það er farið, þá kemstu ekki í gegnum lífið án þess að valda einhverjum vonbrigðum.

-Þú hefðir getað svarað mér með kurteislegu nei-því-miður-og-af-því-að-ég-kann-á-vissan-hátt-vel-við-þig-vertu-þá-svo-væn-að-láta-sem-ekkert-hafi-í-skorist. Ég hefði gert eins og þú baðst.
-Þú hefðir getað lýst hneykslun; Eva-þetta-er-fullkomlega-óviðeigandi-og-láttu-mig-í-svo-í-friði. Ég hefði sagt þér að fleiri en kötturinn fari sínar eigin leiðir, og að því fari fjarri að allir staðir séu mér jafnkærir. Svo hefði ég kvatt kurteislega og látið þar við sitja.
-Þú hefðir líka getað reytt af þér bómullina og ausið mig fúkyrðum. Þá hefði ég svarað þér fullum hálsi og sært þig miklu dýpra sári en þú mig. Svo hefði það jafnað sig.
-Þú hefðir m.a.s. getað gefið mér séns. Þú hefðir getað sagt; segðu-það-sem-þú-þarft-að-segja-en-ekki-koma-nær-því-mér-líst-ekkert-á-þetta-og-ég-vil-ekki-þurfa-að-biðja-þig-að-fara. Ég hefði farið varlega að þér og þér hefði orðið ljóst að það tekur bómullardreng meira en viku að læra að skilja manneskju sem er vaxin upp í hrjóstri.
-Jafnvel þegar það rann upp fyrir þér að ég ætlaði ekki að láta þig komast upp með að hunsa mig, hefðirðu getað skrifað mér eina málsgrein; sorry-ég-átti-ekki-að-horfa-í-gegnum-þig-en-mér-finnst-óþægilegt-að-vera-minntur-á-það,-vertu-svo-væn-að-hætta-að-kvelja-mig.

Ég hefði hætt. Ég hefði afmáð öll ummerki þess að mér sé kunnugt um tilveru þína. Ég hefði sjálfsagt spurt óþægilegra spurninga, því það er mér eðlislægt, en ég hefði aldrei krafið þig svara um eitthvað sem þú vildir ekki ræða. Ég er svo mannúðleg í grimmd minni.

Það eina sem þú hefðir þurft að gera, var að gefa mér staðfestingu á því að þú litir ekki á mig sem skáldsagnapersónu. Þegar skáldsagnapersóna truflar mann, ræður maður sjálfur hvort maður lokar bókinni eða ekki en raunveruleikinn er ekki skáldsaga, hvorki léleg sápuópera né bókmenntalegt stórvirki. Raunveruleikinn er hér og nú og þú kemst ekki upp með að hunsa hann til lengdar. Og það skaltu vita minn kæri að ég er í raun engin sápuópera, heldur raunveruleg, lifandi manneskja og ég læt ekki hunsa mig þegar ég hef ekkert til að skammast mín fyrir.

Nei elskan, ég er ekki reið. Ef ég væri reið hefði ég sagt það. Ég kem til dyranna eins og ég er klædd, meina það sem ég segi og segi það sem ég meina. (Nema auðvitað þegar ég er í ákveðnu hlutverki en þá kynni ég það sérstaklega fyrir áhorfendum.) Heiðarleiki gerir lífið nefnilega betra. Ekki endilega þægilegra en Jesús var enginn vitleysingur og hann hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði „sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa“. Sá sem horfist í augu við sjálfan sig og veruleikann er frjáls. Frjáls frá því að blygðast sín fyrir að vera það sem hann er, einnig þegar honum líkar ekki sérlega vel við sjálfan sig. Til lengdar er það betra.

Er ekki dálítið skrýtið að þér skuli líða svona? Að þú skulir blygðast þín fyrir það sem ég er, þegar ég geri það ekki sjálf? Þú þarft ekki að blygðast þín fyrir áhuga minn á þér. Eða fyrir viðbrögð mín við viðbrögðum þínum. Þú hlýtur að sjá að það er algjörlega út í hött. En þú gerir það samt af því að þér líkar ekki sérlega vel við sjálfan þig þessa stundina. Ég er ekki eins hættuleg og þú heldur. Þú getur ennþá brotið odd af oflæti þínu og skrifað mér. Enginn skilur hrokann í þér betur en ég. Það er ekki þar með sagt að ég samþykki hann en ég skil þig betur en þú heldur. Ef þú hefur samband geri ég það sem þú biður um. Það eina sem þú þarft að gera er að sýna ofurlitla auðmýkt og gefa mér staðfestingu á því að þú hafir lesið þetta og tekið það til þín.

Þú ættir sjálfs þín vegna að hafa samband og biðja mig í fullri vinsemd að sýna þér meiri tillitsemi en þú hefur sýnt mér en mín vegna þarftu ekki að gera nokkurn skapaðan hlut. Ég þarfnast þess ekki lengur. Ég er búin að sýna þér að ég læt ekki hunsa mig og þar er mér nóg. Auðvitað geturðu hafnað mér og ef þú værir ekki svona vel upp alinn gætirðu jafnvel reitt mig til reiði, niðurlægt mig, sært mig, brotið mig niður (ég er nefnilega brothættari en ég lít út fyrir að vera) en ég hef greinilega náð því markmiði að gera þér ljóst að þú kemst ekki upp með að hunsa mig.

Héðan af gleymirðu mér aldrei.

Best er að deila með því að afrita slóðina