Ógeðseðli

Haffi hringdi í mig hvað eftir annað um helgina. Ekki samt drukkinn, heldur á meðan hann var ennþá í vinnunni. Hafði ekkert að segja, sagðist bara langa að heyra í mér röddina. Ég held að hann hafi smá sektarkennd yfir því að hafa stefnt tveimur konum heim í einu um síðustu helgi. Það var ekki beinlínis þægileg upplifun að vakna með Brjóstfríði á rúmstokknum.

Hann kann ekki samskipti, kann ekki að biðja um það sem hann vantar, svo venjulega hjálpa ég honum og sting upp á því að ég komi til hans. En ekki í þetta sinn. Ég nenni ekki að vera hækja einhverrar örlagabyttu svo ég var bara blátt áfram og almennileg en ekki ástúðleg og beið eftir að hann sliti samtalinu.

Í gær tók hann sér svo tveggja tíma pásu úr vinnunni og bað mig að líta til sín. Hann var miður sín af brennivínsfíkn og það tók hann heilan klukkutíma að manna sig upp í að snerta á mér höndina til að biðja um smávegis blíðu og elskulegheit. Auðvitað tók ég hann í fangið. Það væri ómannúðlegt að neita ofdrykkjusjúklingi á niðurtúr um viðurkenningu á því að hann sem manneskja eigi heimtingu á vinarþeli eins og annað fólk, þrátt fyrir að vera eins og hann er.

-Gerirðu þér grein fyrir því að þetta er í þriðja sinn sem ég sé þig ódrukkinn á þessu ári sem við höfum þekkst? sagði ég.
-Ég ætla ekkert í meðferð, urraði hann. Þegar ég minnka drykkjuna þá geri ég það bara sjálfur, án þess eða eitthvert læknalið eða sálfræðingatrúðar stjórni því fyrir mig. Ég veit alveg að ég er bytta en ég ákvað það sjálfur. Ég vil drekka. Mér finnst það gott. Ég væri ekkert að því ef ég væri orðinn leiður á því.
-Það er náttúrulega rétt hjá þér. Þú átt ekkert að hætta þessu á meðan þú ert fullkomlega sáttur við að hafa ekki tíma til að gera neitt nema vinna og drekka og ráða hvorki við fjármálin þín, sambandið við börnin þín eða það hve margar konur mæta inn í svefnherbergi til þín hverju sinni. Fyrst þú ert sáttur við þetta allt er engin ástæða til að breyta því.
-Þú gerir ekkert nema nöldra í mér. Ég hef þó allavega alltaf staðið mig í vinnu. Þú gætir amk. gefið mér kredit fyrir það.
-Ég geri það elskan og ef það er það eina sem þú þarft til að vera hamingjusamur þá er líka allt í lagi.
-Ég sagði ekkert að ég væri hamingjusamur. Ég vil bara ekki hætta að drekka. Mér líður svo helvíti illa þegar ég er edrú, sagði hann.

-Ég veit ekki til hvers ég er að hitta þig. Ég get ekkert hjálpað þér og þú ert ákveðinn í að halda þessu áfram svo ekki er það aumingjagæskan í mér sem dregur mig hingað og ég fæ ekkert út úr þessu sjálf annað en vitneskjuna um að ég eigi möguleika á bólfélaga þegar þér hentar en ekki sjálfri mér.
-Eins og þú eigir ekki nóg af bólfélögum, tuldraði hann.
-Ég á ekki fleiri bólfélaga en þig. Ekki af því að mér finnist neitt að því, heldur af því að það hentar mér ekki. Ég veit hinsvegar að þú sefur hjá fleiri konum og það er allt í lagi mín vegna en það væri samt lágmarkskurteisi af þér að svara símanum þegar þú veist að þú þarft hvorki að gefa mér skýrslu né ljúga að mér.
-Ég er ekki með öðrum en þér, laug hann og sagði mér langa sögu af því hvernig konan um síðustu helgi hefði lagt hann í einelti af ástsýki sinni og nánast smyglað sér inn á hann. Klikkti út með því að þessi óvænti fundur í svefnherberginu hefði verið hluti af áætlun um að gera henni grein fyrir því að hann væri með annarri og vildi ekkert með hana hafa.

-Æ Haffi minn, hættu nú þessu bulli. Af hverju segirðu ekki hreint út „ég get ekki hitt þig í kvöld því núna er ég með Maríu eða Laufeyju eða Stínu“ í stað þess að svara bara ekki.
-Það er alveg satt, það er engin önnur. Ég drekk of mikið en ég lýg ekki að þér, sagði hann og ég nennti ekki að mótmæla því. Nennti ekki að segja honum að ég kynni að telja og vissi hve margir smokkar væru í einum pakka. Nennti ekki að spyrja til hvers hann noti fjólubláar hárspennur. Nennti ekki yfirheyrslum um hvað símhringingar og sms boð um miðjar nætur merki. Mér er hvort sem er svo nákvæmlega sama. Það eru ekki hvílubrögð hans við aðrar konur sem fara í taugarnar á mér, heldur þessi andskotans lygasýki.

Hann þurfti að mæta í vinnu aftur kl. 6. og við urðum samferða niður tröppurnar. Hann faðmaði mig í anddyrinu og spurði hvort ég væri eitthvað súr.
-Ekki út í þig, sagði ég. En ég er svekkt út í sjálfa mig fyrir að vera að þessu.
-Við skulum hætta að hittast, sagði Haffi og strauk á mér vangann.
-Er það það sem þú vilt?
Hann hristi höfuðið og beit í vörina á sér.
-Ekki ég nei. Það er ekki ég sem vil það. Svo rauk hann niður kjallaratröppurnar og ég hefði átt að hlaupa á eftir honum bara til að sýna honum að einhverjum í alheiminum væri ekki skítsama um það hvernig honum liði, en ég gerði það ekki. Ég reyndi að hringja en hann svaraði ekki og vísast hefur hann drukkið sig í svefn um leið og hann kom heim.

Það mikilvæga er, að ég áttaði mig skyndilega á því hversvegna ég er að þessu. Það rann upp fyrir mér á einu augnabliki þegar ég stóð í anddyrinu og hlustaði á hann hlaupa niður kjallaratröppurnar. Það er nefnilega hvorki mín eigin einsemd né „aumingjagæska“ sem dregur mig til hans. Ég er einfaldlega svo illa innrætt að ég fæ kikk út úr því að sjá að einhverjum líði verr en mér sjálfri.

Líklega var það af sömu lágkúrulegu hvötum sem ég bauð honum Halla mínum ljúfa, litla að flytja inn til mín á sínum tíma, vitandi að við ættum nákvæmlega ekkert sameiginlegt og að ég myndi ekki sakna hans verulega sárt þegar hann færi. Og það er heldur ekki eðilslæg greiðvikni sem hefur fengið mig til að sinna systur minni hinni botnlangalausu undanfarna daga. Bara þessi sami ógeðsþáttur í eðli mínu sem á harla lítið skylt við mannkærleika og samúð.

Best er að deila með því að afrita slóðina