Æ þessi laugardagskvöld

Gísli Marteinn í sjónvarpinu. Drottinn minn dýri, að þeim hjá Ríkisútvarpinu skuli detta í hug að bjóða manni upp á þennan smeðjulega, síflissandi karltáning, hvert einasta laugardagskvöld. Og að þjóðin skuli velja þetta „sjónvarpsmann ársins“, hvílík smekkleysa, ég segi ekki meir.

Mér er óglatt af leiðindum. Sigrún orðin veik, einhver anorexíuvinkonan hjá systur minni og þær örugglega á leið út á lífið. Ef ég teldi 0.1% líkur á að þær ætluðu á reyklausan stað (ef hann er þá til hér á landi á) myndi ég kannski sækjast eftir því að druslast með þeim, ef ég nennti þá að mála mig, sem mér þykir annars ólíklegt.

Sonur minn þungarokkarinn er á „hljonstrængu“ örugglega „gegt æsslegri“ og Pysjan að gera mig geðveika (eða kannski geika?) með því að spila „Siggi var úti“ á gítarinn liðlangan daginn, ýmist í Þórsmerkurútgáfunni eða pönkútgáfunni og syngja með af lífs og sálarkröftum. Röddin ýmist einhversstaðar fyrir ofan sópraninn eða neðan við bassa og laglínan sem hann syngur í litlu samræmi við þá sem almennt er notuð við þessa hljómasamsetningu. Helsta leiðin til að bera kennsl á lagið er sú að hlusta eftir textanum. Ojæja, unglingur sem syngur hástöfum allan daginn og skeytir engu um múturnar, getur varla verið mjög óhamingjusamur, svo ég kvarta ekki. Bróðir hans var líka rammfalskur á hans aldrei en heldur lagi í dag.

Best er að deila með því að afrita slóðina