Í alvöru

Rakst á gamlan bólfélaga af tilviljun í dag. Hann spurði hvað væri að frétta og ég benti honum á að allt fréttnæmt (og einnig það sem ekki er í frásögur færandi) væri að finna á blogginu. Ég skrifaði slóðina á miða og hann horfði á mig opinmynntur.

-Ert ÞÚ reykvísk sápuópera?
-Já. Þekkirðu hana?
-Já. Ég les allt á þessum vef, líka sögurnar og ljóðin á tenglunum. Er það allt
eftir þig?
-Hvern annan?
-Ég vissi ekki að þú skrifaðir.

Ég horfði á hann agndofa. Sennilega hef ég aldrei skrifað eins mikið og einmitt þennan tíma sem við vorum saman.

-Jæja, hvernig gat það farið fram hjá þér? Ég man varla eftir því að þú hafir nokkurntíma komið til mín án þess að ég væri annaðhvort með pennann á lofti eða við tölvuna.
-Já en mér datt aldrei í hug að það væri neitt í alvöru. Af hverju fékk ég aldrei að lesa neitt eftir þig?
-Þú baðst aldrei um það.
-Víst.
-Nei.
-Í alvöru, bað ég aldrei um það?
-Nei.

Flassbakk frá 1992:
-Hæ, hvað ert´að gera?
-Skrifa sögu.
-Ok. Ert´upptekin?
-Ég á kannski svona klukkutíma eða einn og hálfan eftir. Varstu að hugsa um að kíkja?
-Já, kannski, ég var sko að semja lag.
-Ok, gott hjá þér.
-Heyrðu, ert ekki til í að hringja þegar þú ert búin að læra?
-Ég er reyndar ekki að læra, ég er að ljúka við smásögu.
-Má ég þá ekki bara koma strax?
-Jú, það er í lagi, ég get klárað þetta á morgun. Tekurðu ekki gítarinn með?
-Jú auðvitað.

Ég man ekkert eftir laginu en textinn var, eins og flestir hans textar, um ástarsorg vegna einhverrar konu sem vildi ekkert með hann hafa.

-Í alvöru, bað ég ALDREI um að fá að sjá neitt eftir þig?
-Nei gæskur. Reyndar minnist ég þess ekki að þú hafir nokkurntíma, eitt augnablik, sýnt minnsta áhuga á því sem ég var að gera eða hugsa.
-Í alvöru?
-Lít ég út fyrir að vera að grínast?
-Af hverju sagðirðu aldrei neitt? Þú hefðir átt að kvarta ef ég sýndi þér ekki næga athygli.
-Í alvöru, hefði ég átt að gera það?
-Já auðvitað. Ég hefði orðið mjög hrifinn af skrifunum þínum. Ég ER hrifinn af þeim. Sumt er hreinasta snilld.
-Ææ, ef mér hefði dottið það í hug, hefðirðu sennilega yfirfært hrifingu þína á snilld minni yfir á persónuleika minn. Þá hefðum við gifst og ég hefði sennilega getað afskrifað þessa draumóra um að kynnast manni sem sýnir mér áhuga án þess að ég hendi mér í gólfið og orgi.
-Djöfulsins egóflippari hef ég verið. Varstu ekki sár?
-Nei, nei. Þú varst bara karlmaður. Bara einn enn sem kemur og fer. Óþarfi að svekkja sig á ófullkomleik tegundarinnar.

Við skiptumst á nokkrum orðum til viðbótar en þurftum svo að drífa okkur. Hvorugt okkar nefndi möguleikann á að hittast yfir kaffibolla og það var ekki fyrr en ég var komin heim sem ég áttaði mig á því að ég spurði hann ekki að því hvort hann ætti konu, kærustu eða bólvinkonu. Ég nenni ekki að sofa hjá Haffa lengur og þótt þessi strákur sé tilfinningaleg erkitípa af karlmanni, var samt alveg ágætt að sofa hjá honum.

Reyndar finnst mér yfirleitt alveg ágætt að sofa hjá svo það eru í sjálfu sér engin meðmæli með manninum.

Best er að deila með því að afrita slóðina