Dauðaórar

Sonur minn náttúrudýrkandinn á sér þann draum að deyja í kjafti krókódíls. Honum finnst eitthvað svo göfugt við dauðdaga sem kemur einhverjum, í þessu tilviki krókódílnum, að gagni. Hann er sannfærður um að jafnvel þótt slíkur dauðdagi sé skelfilegur og sársaukafullur, myndi hann ekki taka því persónulega þótt hann yrði étinn því slíkur er gangur náttúrunnar.

Ég skil hvað hann á við þótt ég kæri mig ekki um að lenda í krókódílskjafti sjálf. Mínir dauðaórar snúast um geðveikan elskhuga, eitthvað í líkingu við morðingja kvennanna í Wild Rose Nicks Cave og Ástarsögu Megasar. Þessir gaurar
drepa unnustur sínar af ást, til þess að bjarga þeim frá lífinu og það finnst mér fallega hugsað þótt afleiðingarnar geti vart talist æskilegar. Minn klikkhaus á reyndar hvorki að rota mig né stinga, heldur á hann að kyrkja mig. Það held ég að sé fagur dauðdagi og nánast útilokað að taka því persónulega.

Einu sinni spurði ég Pysjuna hvers konar dauðdagi honum þætti mest heillandi.
-Ég er sáttur við að vera á lífi, svaraði hann og hnussaði. Stundum velti ég því fyrir mér hvort ég hafi skemmt í honum ímyndunaraflið með því að láta það of oft eftir honum að syngja fyrir hann grýlukvæði þegar hann var lítill.

Best er að deila með því að afrita slóðina