Leónóra

Leónóra er þeirrar einlægu skoðunar að hinn byltingasinnaði frændi hennar sé í hæsta máta varhugaverður, gott ef ekki hið mesta illmenni á köflum. Í dag ásakaði hún hann um að hafa stolið snuðinu sínu. Samt er engu líkara en að hún sé eilítið skotin í honum líka, allavega spurði hún hvað eftir annað um hann um helgina.

Fóstursonur minn að austan var í heimsókn og í fyrstu kallaði hún hann frænda í tortryggnistón, en sættist fljótlega á að þetta væri sennilega einhver annar. Reyndar virðist ljúflingurinn hann sonur minn hafa einstakt lag á því að vekja ýmist óttablandna hrifningu eða aðdáunarblandinn ugg í brjóstum barna. Jafnvel þótt Leónóra feli sig á bak við hinn víðfeðma rass móður sinnar og kvarti um að frændi stríði henni í hvert sinn sem hann kjáir framan í hana, er hún óðar komin til hans aftur, ískrandi af kæti, tilbúin til að endurtaka leikinn.

Leónóra virðir Pysjuna hins vegar hana varla viðlits og ekki er annað að sjá en að hann kæri sig kollóttan um afskiptaleysi hennar. Það er svolítið einkennilegt í ljósi þess hvað Pysjan er hrifinn af vöggubörnum og hefur gott lag á þeim, hvað hann gefur sig lítið að börnum sem eru farin að tala og ganga. Kannski undirmeðvitund hans geymi minningu um það hversu illa honum sjálfum var við elskulegheit gesta þegar hann var á aldur við Leónóru?

Best er að deila með því að afrita slóðina