Systir mín æðruleysinginn

Systir mín æðruleysinginn er veruleikafirrt. Ég heimsótti hana í dag og þarna sat hún í sínu græna og appelsínugula eldhúsi, syngjandi kát, rétt eins og ekkert í veröldinni væri skemmtilegra en að vinna erfiða vaktavinnu 70 stundir á viku fyrir skít og kanel og koma svo heim til að hugsa um 5 óþekktargrísi og dýragarð, auk þess að skúra, skrúbba, bóna og jafnvel mála hús sem er svo illa farið að það hangir nánast saman af gömlum vana.

-Það er ekkert að þessu húsi, segir hún hamingjusöm. Þyrfti kannski smá viðhald en það er allavega ekkert alvarlegt að því.

Jamm.
Þakskeggið er að vísu í henglum, veggirnir sprungnir, glerið ónýtt, gluggakisturnar fúnar, ofnarnir lekir, hurðirnar dottnar af hjörunum, skáparnir við það að liðast í sundur, handlaugin sprungin, blöndunartækin á baðinu ónýt og gólfdúkarnir götóttir. Að öðru leyti er svosem ekkert að þessu húsi. Það er bæði hægt að pissa í klósettið og sturta niður án þess að eiga stórslys á hættu. Að vísu finnst systur minni dálítið fúlt hvað þvottavélin er orðin léleg og kæliskápurinn ónýtur. En allt stendur þetta nú til bóta því einhverntíma í framtíðinni á að negla hér og spartsla þar, þ.e.a.s. þegar hún er búin að eignast hvítt sófasett.

-Hvítt sófasett! Á heimili sem hýsir 3 skæruliða, 2 unglinga, ketti, naggrísi, páfagauka og hænsabú. Ertu ekki að djóka?
Nei, hún var sko aldeilis ekki að djóka og svo langar hana líka óskaplega mikið í hund.

Ojæja. Ég býst við að hænunum verði hvort sem er ekki hleypt inn í stofu nema yfir háveturinn og ef hún fær sér stóran og stæðilegan varðhund og kemur honum fyrir í sófanum, ætti hann allavega að halda köttunum í hæfilegri fjarlægð og kettirnir hænsunum. Börnin geta svo tryggt það að hundurinn víki ekki úr varðstöðunni með því að færa honum súkkulaðiköku inn í sófa.

Ég er svo heppin að vera eina manneskjan í fjölskyldunni sem nálgast það að vera normal. Að vísu vill hvorug systra minna skrifa undir það en það er heldur ekki við því að búast. Meðalmennskudrjóli af mínu tagi hlýtur að koma kynjakvistum á borð við systur mínar, undarlega fyrir sjónir.

Best er að deila með því að afrita slóðina