Ef maður sé ekki heilagur þá sé maður kannski bara galinn?

Drengurinn sem fyllir æðar mínar af Endorfíni var ekki að kveðja mig þegar hann skilaði bréfinu. Kannski les ég of mörg tákn út úr hversdagslegum atvikum. Slíkt ku vera háttur heilagra manna og geðsjúklinga og ég velti því fyrir mér hvorum hópnum ég tilheyri. Ég er náttúrulega galin en það eru flestir heilagir menn (og konur) líka. Hins vegar er ekki endilega víst að allir rugludallar séu heilagir.

Eitt er víst að spádómsgáfa mín er löngu komin fram. Doktorinn var ekki beint flokkanlegur sem töffari dauðans þegar við vorum í BA náminu en ég sagði stelpunum að eftir 10-15 ár yrði hann langhuggulegasti strákurinn úr íslenskunni. Það gekk eftir. Nú eru liðin 10 ár og þeir eru flestir komnir með varadekk, sumir skalla en doktorsnefnan hefur hins vegar fríkkað til muna. Hann er aftur á móti ekkert verulega galinn sem er líka kostur í sjálfu sér. Það þykir nefnilega ekki líklegt til árangurs að setja sér það markmið að komast yfir heilagan mann og eitt af yfirlýstum markmiðum mínum er að giftast doktornum. Einnig að verða þjóðskáld og eignast kastala í skógi vaxinni fjallshlíð.

Spákonan segir að ég ætti að setja mér raunhæfari markmið. svosem eins og að finna mann sem hefur meiri áhuga á konum en Morkinskinnnu, fá eitt ljóð birt í Lesbók Morgunblaðsins og finna nýja leiguíbúð áður en ég lendi á götunni.

Í alvöru -hvurslags eymdarinnar lúðar kæra sig í alvöru um markmið sem allir geta náð án fyrirhafnar. Allavega ekki ég og þ.a.l. hlýt ég að vera heilög.
Eða galin.
Nema hvorttveggja sé.

[custom-related-posts title=“Tengt efni“ order_by=“title“ order=“ASC“ none_text=“None found“]

Best er að deila með því að afrita slóðina