Spákonan sem talar tungumál ástarinnar

Ég hef óendanlega gaman af spákonunni. Hún heldur því fram að ég sé svo forpokuð af siðsemi að gula ljósið nái ekki niður í klofið á mér. Ég sagði henni að í einu af mínum fyrri lífum hefði ég verið indiánakonan Ýlandi Dræsa og að köllun mín í þessu lífi væri sú að bæta fyrir frumbyggjahórlífið með guðsótta og góðum siðum. Hún svaraði því með því að „hjúpa mig með rauðu ljósi“ sem á víst að opna einhverjar orkustöðvar og gera mig móttækilega fyrir ást og ástríðum.

Svo lagði hún spil og sá karlmann, einhvern vel stæðan útlending sem á víst að koma þeysandi á hvíta hrossinu einhverntíma á næstu vikum. Ég lofaði að brosa til allra útlendinga á næstunni endaþótt ég hafi aldrei litið á útlending sem valkost.

-Lágmark að geta gert sig skiljanlegan með öllum fíngerðustu blæbrigðum tungunnar, sagði ég.
-Þú ert ekki að fara að halda ræðu yfir honum góða mín. Þið munuð tala tungumál ástarinnar, sagði spákonan.
-Hnuhh! Ég er nú hrædd um að málfræðin í þeirri tungu vefjist eitthvað fyrir mér, sagði ég.

Fór heim og hlustaði á Alanis Morrisette syngja „And all I need now is intellectual intercourse“ sem er eiginlega ekki raunhæf ósk nema fólk tali sama tungumál.

Best er að deila með því að afrita slóðina