Tvöfalt afmæli og klámsýki í framhaldinu

Systkina (af hverju er það ekki stafsett systkyni?) tvíeykið hélt upp á afmælin sín í gær. Fyrst með fjölskylduvænu kaffiboði síðdegis og svo var partý um kvöldið.

Móðir mín alfræðingurinn hélt sinn hefðbundna fyrirlestur um virðingarleysi ríkisvaldsins, almennings og Guðs almáttugs fyrir vinnuaðstæðum tónlistarkennara. Í beinu framhaldi og án þess að nokkur annar fengi tækifæri til að opna á sér þverrifuna í millitíðinni, gaf hún skýrslu (blessunarlega ónákvæma í þetta sinn) um kynni sín af heilbrigðiskerfinu. Þar sem Bóksalinn glaðbeitti, (sem er ekki perri þrátt fyrir að hafa vingast við barnungar systur mínar, þegar hann var sjálfur kominn hátt á fimmtugsaldur) dró hana út í umræður um póitískt hórirí Ingibjargar Sólrúnar, vannst henni ekki tími til að ræða megrunaraðgerðir sínar af nokkurri nákvæmni, bara rétt tæpti á því að hún fyndi nú móta fyrir mitti eftir að hafa gúllað í sig kolvetnasnauðum rjóma, mæjonesi og feitu keti í mánuð. Hún lítur reyndar mjög vel út þrátt fyrir kolvetnaskortinn og setti fram þá kenningu að hún sé e.t.v. haldin ávaxtaóþoli. Einhvernveginn hef ég á tilfinningunni að hún hafi hingað til fengið sín kolvetni úr karamellum fremur en appelsínum en kenningin er bráðskemmtileg. Geri ráð fyrir að hitta bóksalann glaðbeitta í Árnagarði á mánudaginn, vænti þess að ótæpilegt fjármagn verði þá hrunið í vasa mína af himnum ofan.

Þrátt fyrir alræmt djammóþol mitt mætti ég í samkvæmið í kvöldið. Mér fannst ég falleg þegar ég lagði af stað en systkini mín og allir vinir þeirra eru anorexíusjúklingar svo ég var bæði elsta og feitasta manneskjan á staðnum. Það var þó ofgnótt nikótíns og tjöru í andrúmsloftinu, fremur en útþenslustefna míns tigna afturenda sem hrakti mig út eftir hálftíma enda engin von um að sægur kynþokkafullra menningarvita bankaði upp á og byði mér reykfrían félagsskap í eldhúsinu.

Mig sárvantaði félagsskap sterkara kynsins enda hlýt ég að vera veikburða og ósjálfstæð „innst inni“ (svo langt „inni“ að ég hef aldrei komið þangað). Ég þekki bara tvo karlmenn sem eru á lausu og þar sem doktorinn verður bæði blindur og heyrnarlaus þegar ég viðra hugmyndir mínar um sambúð við hann, tel ég ólíklegt að hann hoppaði hæð sína af hamingju ef ég birtist á tröppunum hjá honum um miðja nótt og hefði í frammi lostalæti. Það gerir Haffi hins vegar alltaf og hjá honum endaði ég.

Haffi var ekki að vinna og þ.a.l. fullur. Skammaðist sín fyrir að hafa ekki haft samband svona lengi og hóf upp klisjukennt bull um djúpstæðan ótta sinn við að tengjast mér tilfinningalega; ástarþrugl kynni ekki góðru lukku að stýra í sambandi tveggja svo hórlífra og saurlífra einstaklinga. Ég sagði honum að hann væri bæði bölvuð fyllibytta og foráttuheimskur og ég hefði enga áhuga á honum til annars en kynferðislegra afnota.

Karlmönnum fellur alltaf hálfilla að heyra að konan sé bara að leita að skyndikynnum þótt það sé nákvæmlega það sem þeir sjálfir vilja. Það góða við Haffa er að hann er laus við smokkafælni (ég fíla smokka í druslur) og getur stundað skuldbindingarlaust kynlíf án þess að hegða sér eins og hann sé að leika í klámmynd.

Ekki svo að skilja að ég hafi yfirgripsmikla þekkingu á þeim iðnaði. Ég hef bara einu sinni séð klámmynd í fullri lengd og það var hvorki „Deep Throat 5“ né „Anal Intruder 8“. Það var árið sem varð þrítug. Áttaði mig allt í einu á því að ég var ekki samræðuhæf þegar nemendur mínir í 10. bekk töluðu um kvikmyndir svo ég skundaði inn til Kidda Vídeóflugu og bað um klámmynd. Tók skýrt fram að það væri eingöngu af fræðilegum áhuga svo hann héldi nú ekki að ég væri annaðhvort perri eða örvæntingarfull (hvorugt þykir nefnilega kúlt í fari einhleypra kvenna og eins og allir vita er ég í kúlli kantinum).

Úrvalið sem hann sýndi mér var ekki líklegt til að vekja áhuga hinna skandinavískufyrirlítandi námssveina minna en Kiddi þvertók fyrir að eiga mynd með kvensnipt að nafni Jenna Jameson í aðalhlutverki eða nokkru hlutverki. (Seinna fékk ég staðfestingu á því að það var hin mesta lygi.) Hann sendi mig heim með „Hopsasa paa sengekanten“ og ég hef ekki séð ástæðu til að leggjast í umfangsmeiri rannsókn á töfraheimi klámmyndanna. Ég hef reyndar líka séð klámmyndina „American Pie“ en mér fannst hún sýnu verri og virðist af óskiljanlegri ástæðu ein um að telja hana til klámmynda.

En þetta var nú útúrdúr. Haffi er ágætur til síns brúks þótt hann sé ekki sambúðarhæfur. Ég stakk af þegar hann var sofnaður þótt ég viti hvað honum finnst ömurlegt að vakna einn á sunnudagsmorgnum. Mér finnst svo helvíti vont að sofa í rúminu hans. En hamingjan sanna hvað þessi vesalings drykkjusvoli er fallegur. Og sefur alltaf við hrein rúmföt greyskinnið, prik fyrir það.

Best er að deila með því að afrita slóðina