Spúnkhildur að flytja

Spúnkhildur er að flytja. Var búin að tæma herbergið sitt þegar ég kom heim í dag. Ég er að því leyti glöð að Öryrkinn hefur farið æ meira í taugarnar á mér síðustu vikurnar. Það er mér hulin ráðgáta hvað þessi skemmtilega kona sér við hann.

Ég krafðist þess að þau tækju litlu, gulu hænuna með sér þegar þau færu en sú gula harðneitaði að fara með þeim. Segist hvergi vilja búa nema í hausnum á mér.

Ég mun sakna Spúnkhildar. Eða öllu heldur þess tíma þegar við drukkum morgunkaffið á veröndinni, lökkuðum á okkur neglurnar og sáum ekki Öryrkjann nema um helgar.

Grái kötturinn bætir það að nokkru leyti upp. Situr glottandi á veggnum en ég veit að hann á eftir að skríða upp í til mín. Hann gerir það alltaf.

Best er að deila með því að afrita slóðina