Valkostir

Hef legið í djöfullegri hálsbólgu frá mánaðamótum. Verið svo hundveik að ég gat ekki einu sinni skrifað og er þá mikið sagt. Er rétt að jafna mig núna en orðin svo horuð að ég lít út eins og beinagrind í latexgalla. 

Latexgallar eru reyndar nokkuð vinsælir meðal viðskiptavina Kynlegra kvenna en Búllmundi líst samt ekkert á að reyna að telja kúnnunum trú um að þessi latexgalli sé ekta. Ég er semsagt búin að missa vinnuna, að minnsta kosti þar til mér tekst að þyngjast um 5 kg.

Allt stefnir í að Spúnkhildur flytji út í haust. Veit ekki hvernig í veröldinni ég á að fara að því að fjármagna leiguna ein. Hún stakk upp á því að Öryrkinn flytti inn til okkar en mér líst ekkert á að búa með pari. Ég yrði fljótlega eins og leigjandi á heimilinu, ekki af því að neinn ætli sér að hafa það þannig, það er bara þannig að hjón eru meiri fjölskylda en einstæð móðir.

Ég reiknaði svosem með þessu. Sagði Spúnkhildi einmitt, daginn sem við skoðuðum íbúðina, að ég gæfi þessari sambúð okkar fjóra mánuði fyrst hún væri komin með kærasta. Hefði átt að hlusta á magann í því tilviki.

Valið stendur semsagt um að búa með Öryrkjanum (með tilheyrandi gítarglamri) eða finna leið til að borga leigu fyrir allt of stórt húsnæði. Eða flytja – en það er nú ekki eins og markaðurinn sé árennilegur. Líklega neyðist ég til að selja húsið mitt fyrir austan. Leigutekjurnar nægja ekki fyrir leigu á tveggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu og það sem ég get fengið fyrir hana nægir ekki fyrir útborgun.

Ég er reyndar ekki komin í vanskil en þar sem ég hef ekki verið vinnufær í 3 vikur hef ég engar tekjur haft og engin auglýsingastofa eða forlag er með verkefni handa mér alveg á næstunni. Það er náttúrulega rugl að vera að ströggla við að vinna sjálfstætt en mig langar alveg rosalega lítið að fara að vinna við að renna slúðurfréttum í gegnum google translate eða skúra gólf.

En halló! Lausnin blasir auðvitað við. Ég fitna bara þar til ég fylli út í latexgallann.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina