Er þetta sápa eða hvað?

Öryrkinn, maður konunnar minnar kom í bæinn í gærkvöld. Mér skilst að hann ætli að vera hér fram á mánudag. Furðulegt að maðurinn skuli aldrei þurfa að vinna yfirvinnu eins og annað fólk. Hann kemur orðið flestar helgar og svo liggja þau í símanum þess á milli. Ekki svo að skilja að hann sé neitt fyrir mér, þannig. Hann er svosum geðslegasti maður og þótt mér finnist hann nú svosem ekki spennandi liggur það víst í augum uppi hvað hann hefur sem ég hef ekki. Það er bara tilvist hans sem ógnar skipulaginu í lífi mínu og það þótt Spunkhildur hafi margsagt að hún ætli að búa með mér a.m.k. næsta árið.

Annars kom maðurinn sem heitir ekki Guðmundur að máli við Spúnkhildi og bað okkur endilega að læsa húsinu ef við færum út. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að maður nokkur sem kynnir sig sem fíkniefnabarón, hórmangara og handrukkara bankaði upp á hjá honum í fyrradag. Hann telur sig nefnilega lögmætan eiganda hinnar lithásku súludansmeyjar sem leigusalinn okkar nam af landi brott og erindið var að innheimta afnotagjald af dömunni eða berja hann ella.

Mér rann satt að segja kalt vatn milli skinns og hörunds þegar Spúnkhildur sagði mér frá þessu. Það eru nefnilega ekki margir fíkniefnabarónar sem annast sínar handrukkanir sjálfir og þegar hórmangið bætist svo við er þetta farið að hljóma óþægilega líkt einum af kunningjum frænda míns fíkilsins. Sá er siðblindur, geðveikur og ofbeldishneigður allt í senn. Reyndar var hann búinn að komast að þeirri niðurstöðu á þeim tíma að stundum væri hægt að leysa málin án ofbeldis og það er vissulega ákveðinn léttir.
-Það er alls ekki nauðsynlegt að berja þessa aumingja þótt maður ætli ekki að láta vaða ofan í sig, sagði hann og var mikið niðri fyrir. Ég lem engan nema það sé nauðsynlegt en ég læt heldur engan komast upp með neinn kjaft. Oft nægir bara að hrækja á liðið svo það fatti hvað maður meinar. Mamma varð mjög glöð þegar ég fattaði þá aðferð.

-Þú ert þó ekki að segja mér að þú lítir á það sem samskiptaaðferð að hrækja á fólk? spurði ég og ætlaði ekki að trúa mínum eigin eyrum.
-Jú, ef það er nauðsynlegt þá geri ég það sagði hann. Einu sinni t.d. svínaði einhver jeppagaur á mig á Suðurlandsbrautinni. Ég lamdi hann samt ekkert. Ég bara stoppaði bílinn, opnaði hann og hrækti á hann. Og ég get alveg lofað þér því að sá gaur hugsar sig tvisvar um áður en hann svínar næst. Eða gjalkerafílið í Búnaðarbankanum sem ætlaði að stela af mér pening. Hún reynir það ekki aftur.
-Heldurðu að það hafi ekki bara verið mistök? Varla hefur hún ætlað að snuða þig viljandi?
-Jújú, 138 kr. í ÞJÓNUSTUGJALD. Hversu lamað er það? En ég lét hana alveg vita af því að hún kæmist ekki upp með að stela frá mér.
-Ég vissi ekki að það væri þjófnaður. Allavega er ég rukkuð um þjónustugjöld í hverjum mánuði.
-Það er bara af því að þú lætur troða á þér. Það geri ég hins vegar ekki.
-Varla hefurðu hrækt á gjaldkerann?
-Jú auðvitað! Hvað annað átti ég svosem að gera?
-Og hún hefur náttúrlega látið sér segjast?
-Já. Að vísu var löggan sótt og mér bannað að koma inn í Búnaðarbankann aftur en þjónustugjaldið var fellt niður svo ég vann!
-Finnst þér það í alvöru 138 kr. virði að vera hent út úr banka með lögregluvaldi?
-Þetta snýst ekki um 138 kr. ljúfan. Þetta snýst um að láta ekki traðka á sér. Þessi belja mun aldrei aftur mótmæla ef einhver neitar að láta stela af sér.

Það er sennilega rétt. Líkast til mun viðkomandi gjaldkeri greiða þjónustugjaldið úr eigin vasa næst. En sé það þessi gaur sem er að leita að leigusalanum, mun ég ekki bíða eftir að hann hræki á mig, heldur hringja í kunningja mína á Hverfisgötunni um leið og ég sé honum bregða fyrir.

Best er að deila með því að afrita slóðina