Varðandi hetju ársins

Mikið hefur verið rætt um kosningu Hildar Lilliendahl sem hetju ársins og halda margir því fram að svívirðingum hafi rignt yfir hana.

Þegar frétt fær meira en 4000 ummæli er ekkert undarlegt þótt meðal þeirra sé eitthvert ógeð. Það er verðið sem við greiðum fyrir frjálsan aðgang allra að umræðunni, óháð greind, innræti, geðheilbrigði og stafsetningarkunnáttu. Ég nennti ekki að lesa nema 134 innlegg. Ef er eitthvað að marka það úrtak voru fáir úr hópi hinna 7800 stuðningsmanna Hildar Lilliendahl sem tjáðu sig á kommentakerfinu en stór meirihluti þeirra kommentara sem ég las lýsti óánægju með að Hildur hefði orðið fyrir valinu. Flestir gerðu það án þess að nota fúkyrði.

Af þessum 134 ummælum geta 5 flokkast sem hreint og klárt persónuníð. Slatti til viðbótar voru ómálefnalegar staðhæfingar en ekki þó persónuníð. Í flestum tilfellum var fólk að hneykslast á þeim sem finnst Hildur meiri „hetja“ en þeir sem hafa bjargað mannslífum. Með því að tilnefna Hildi, Jón Gnarr og fleiri sem ekki eru „hetjur“ í Íslendingasagnamerkingu orðsins, var átt við mann ársins fremur en afreksmann og því ekkert út á það að setja þótt Hildur hafi verið kosin. Engu að síður vil ég frekar flokka ummæli af þessu tagi sem fýluleg en ómálefnaleg því það má vel deila um þessa orðanotkun.

Allmargir töldu augljóst að kosningin hefði verið rigguð þar sem aðeins einn tilnefndra fékk um 6000 atkvæði á síðasta hálftímanum sem kerfið var opið. Mjög auðvelt er að komast inn á kerfið og breyta tölum, það er t.d. hægt að komast langt á þessu myndbandi http://www.youtube.com/watch?v=GidtdPo7JvI Það er fullkomlega eðlilegt að menn spyrji hvort átt hafi verið við lokatölur og ekki hægt að flokka það sem skítkast eða ómálefnalega umræðu.

Eina leiðin til að koma í veg fyrir óviðurkvæmileg ummæli er að bjóða ekki upp á óritstýrðar umræður. Það er heldur ekki hægt að krefjast þess að þeir sem tjá sig færi rök fyrir máli sínu. Það er hinsvegar hægt að mælast til þess og það er fullkomlega sanngjarnt að óska sérstaklega eftir rökum frá áhrifamönnum. Þessvegna skora ég á ykkur Kristinn Hrafnsson, Egill Helgason og Thorfinnur Omarsson að svara áramótagrein Sifjar með almennilegum rökum.

Share to Facebook