Um tjáningarfrelsi og dónaskap

Mér sýnist á umræðunni í netheimum að nokkurs misskilnings gæti um það hvað orðið tjáningarfrelsi merkir.

Tjáningarfrelsi merkir semsagt að menn eiga að geta látið skoðanir sínar á samfélagsmálum og öðru sem varðar almenning í ljós opinberlega án þess að þurfa að óttast um öryggi sitt eða annarra.

Það merkir líka að við höfum frelsi til listsköpunar. Tjáningarfrelsi merkir hinsvegar ekki að maður geti leyft sér að segja hvað sem er við hvern sem er án tillits til aðstæðna. Tjáningarfrelsi merkir t.d. ekki að þú megir segja barni að pabbi þess sé drullusokkur, jafnvel þótt það sé satt. Þú mátt hinsvegar skrifa blaðagrein þar sem þú gagnrýnir störf pabbans eða framgöngu hans á opinberum vettvangi. Þú mátt heldur ekki mála stóra mynd af kindabjúga á bílskúrshurð nágranna þíns án samráðs við hann, enda þótt það sé afar listrænt bjúga og fari vel á þeim stað. Þú mátt mála bjúga en staður, stund og tilgangur skiptir máli.

Stundum kýs fólk að fara á svig við kurteisisreglur og það fellur í misgóðan jarðveg. Ég kýs t.d. að kalla Vilhjálm Egilsson bjánakepp þegar ég fjalla um bjánalega orðræðu hans. Þegar ég rökstyð þá skoðun mína að málflutningur Vilhjálms beri vott um dómgreindarleysi, er ég að nýta málfrelsi mitt. Þegar ég kalla hann bjánakepp er ég hinsvegar að sýna honum verðskuldaðan dónaskap. Sennilega gæti hann lögsótt mig fyrir það og enda þótt ég geti sannarlega rökstutt þá fullyrðingu að maðurinn sé í allri hreinskilni bjánakeppur, eru samt góðar líkur á að þau sannyrði yrðu dæmd dauð og ómerk.

Listamenn kjósta líka stundum að fara á svig við reglurnar. Í búsáhaldabyltingunni fóru t.d. einhverjir á stjá að næturlagi og máluðu myndir af nokkrum hrunvöldum á sorptunnur. Aðstandendur þeirrar aðgerðar máttu ekkert nota listsköpun sína á þennan hátt án samráðs við borgaryfirvöld en þeir ákváðu samt að teygja tjáningarfrelsi sitt út fyrir mörk laganna. Gott hjá þeim, lögin eru ekki heilög.

Sumsé; sá sem ætlar að nýta sér tjáningarfrelsi sitt þarf að gera sér grein fyrir því hvenær hann er kominn yfir mörk málfrelsisins. Ef hann kýs að sýna dónaskap eða fara með listsköpun sína út fyrir ramma laganna þarf hann að vera tilbúinn til að standa eða falla með þeim orðum sínum eða gjörðum. Það getur stundum verið ástæða til þess og því ágætt að til sé fólk sem þorir að ögra lögunum, yfirvaldinu og ríkjandi viðhorfum.

Þegar poppari kallar helming hátíðagesta hórur er hann ekki að nýta málfrelsi sitt, hann er að sýna dónaskap. Ólíkt öskutunnuaðgerðinni féll þetta frávik frá reglunum ekki í góðan jarðveg hjá almenningi. Hugsanlegt er að sá dónaskapur hefði átt að þjóna tilgangi en þá hefði maðurinn væntanlega útskýrt þann tilgang. Það hefur hann ekki gert. Hann hefur hinsvegar beðist afsökunar og viðurkennt að hafa orðið það á að haga sér óviðurkvæmilega. Gott hjá honum og þeir sem reyna að réttlæta þessa uppákomu ættu bara að hlusta á hann í stað þess að hamra á málfrelsi.

Vanhugsaður dónaskapur er sjaldan vel lukkaður. Það er óþarfi að bera í bætifláka fyrir slíkt. Betra að viðukenna að allir gera mistök en að reyna að krafsa yfir klúðrið með illa ígrunduðum hugmyndum um tjáningarfrelsi.

Share to Facebook