Um órannsakanlegar vegleysur almættisins

god hates

Á ýmsum kristlingavefsíðum sem bera heiti á borð við „god hates america“, „god hates fags“ og annað álíka kærleiksríkt, er þeirri skoðun lýst að flóðbylgjan þann 26. des sé svar Guðs við hnignandi siðferði. Þessar hörmungar eiga þannig að vera svar Guðs við klámiðnaðinum, kynlífsþrælkun, barnavændi og öðrum sora. Allt er þetta svo rökstutt með beinum tilvitnunum í Biblíuna enda margt að finna í henni sem mælir með þeirri skoðun að Guð sé ekki bara haldinn taumlausri árásarhneigð heldur einnig álíka siðblindur og aðstandendur umræddra vefsíðna.
Á síðunni God Hates Sweden er jafnvel beðið fyrir því að 20.000 Svíar láti lífið. Guð hlýtur að heyra þær bænir eins og aðrar, enda eru þær sjálfsagt bornar fram í miklum bænarhita og einlægni.

Já vegir Guðs eru sannarlega órannsakanlegir. Allavega finnst fólki sem hefur tileinkað sér rökhugsun að nokkru marki það fremur mótsagnakennt svar við ástandinu í Tailandi að drepa hundruð smábarna (varla bera þau ábyrgð á sódómskunni) og skapa aðstæður sem auðvelda glæpamönnum að hneppa bæði börn og fullorðna í kynlífsþrælkun og aðra ánauð. Maður veltir því svona fyrir sér hvort þeir sem á hann trúa spyrji sig ekki að því með hverjum hann standi eiginlega. En kannski sá hann það ekki fyrir sér blessaður karlinn að skúrkarnir sem hann ætlaði að refsa myndu snúa svona á hann.

Share to Facebook

One thought on “Um órannsakanlegar vegleysur almættisins

  1. —————————-

    Örvar @ 08/01 22.21

    Þessar síður sem þú vísar til sem ýmissa kristlingavefsíða koma allar frá einum manni og fjölskyldu hans – öll eru þau full af hatri á samkynhneigðum (sjá td. hér).

    —————————-

    Gunný @ 09/01 04.10

    Einmitt. Og eru óttarlega lík þeim rökum sem við höfum leiðindi af á okkar annál…

    —————————-

    Þorkell @ 09/01 09.39

    Það hefur komið fram á BBC og CNN að kirkjur um allan heim hafa safnað miklum peningum fyrir fórnarlömbin og sýnt mikinn samhug. Og í öllum þeim viðtölum við ýmsa fulltrúa trúarbragða hef ég aldrei heyrði þessi viðhorf. Satt best að segja held ég að þetta sé ekki útbreidd skoðun.

    —————————-

    Árni Svanur @ 09/01 09.58

    Hana gæti verið að finna í einhvejrum öfgahópum. Ef fólk vill sjá hvað kristnar kirkjur eru almennt að gera og hvernig þær bregðast við þessu þá gæti verið gagnlegt að skoða vefi stóru kirknanna í kringum okkur og vefi hjálparstarfs þeirra: t.d. þeirrar anglikönsku, bandarísku, sænsku.

    —————————-

    Óli Gneisti @ 09/01 12.21

    En sjáið þið ekki að viðbrögð þessa vitleysings er í miklu meira samræmi við Biblíunnar? Guð Biblíunnar eyddi Sódómu og Gómorru, drap líka alla nema fjölskyldu Nóa af því honum fannst fólkið vont. Það er í fullkomnu samræmi við Biblíuna að álykta að Guð hafi ákveðið þetta sem refsingu.

    —————————-

    Árni Svanur @ 09/01 12.34

    Ummæli þín endurspegla bókstafstrúarnálgun við Biblíuna, hliðstæða þeirri sem er að finna hjá öfgahópunum sem við höfum nefnt og vísað til. Það virðist því ljóst – ef marka má ummælin þín – að þinn Biblíuskilningur og bókstafstrúarmannanna er af svipðum toga. En sú er ekki raunin með okkur og eins og ég vakti athygli á í mínum fyrri ummælum.

    —————————-

    Óli Gneisti @ 09/01 12.51

    Þetta er einfaldlega það sem allir kristnir menn trúðu fram á síðustu öld.

    En hver er þá tilgangur sögunnar um Nóaflóðið í Biblíunni? Hver er tilgangurinn með sögunni um eyðileggingu Sódómu og Gómorru?

    —————————-

    darri @ 09/01 12.56

    Árni, hvað hefurðu fyrir þér í því, annað en trú, að bókstafstrúarnálgun á biblíunni sé eitthvað síðri en grænsápunálgun ykkar þjóðkirkjumanna?

    Hvernig geturðu verið viss um að guðinn þinn sé sáttur við þessa gjaldfellingu, öðruvísi en að trúa því bara eins og öllu hinu?

    —————————-

    Árni Svanur @ 09/01 13.07

    Rifjið nú upp kirkjusöguna ykkar drengir mínir og túlkunarsöguna, bókstafstrúarnálgun af því tagi sem þið aðhyllist er ekki svo gamalt fyrirbæri. Þið gætuð kannski byrjað á að lesa guðspjöllin og kynna ykkur hvernig Jesús túlkaði ritningarstaði úr Gamla testamentinu.

    —————————-

    Árni Svanur @ 09/01 13.11

    Ef þið yfirhöfuð hafið einhvern áhuga á að kynna ykkur málið þá get ég sem best mælt með ritinu A Short Introduction to Hermeneutics eftir Davis Jasper (London: 2004). Jasper er prófessor í bókmenntum og guðfræði við háskólann í Glasgow og bókin er bæði auðlesin og aðgengileg.

    —————————-

    Óli Gneisti @ 09/01 13.16

    Ég spyr aftur hver tilgangur þessarra hryllingssagna í Biblíunni sé.

    —————————-

    Þorkell @ 09/01 13.19

    Óli Gneisti segir:

    “Þetta er einfaldlega það sem allir kristnir menn trúðu fram á síðustu öld”

    Og hvað hefurðu fyrir þér í því? Þvílík eindæmis vitleysa. Kynntu þér nú túlkanir á Biblíunni í gegnum söguna áður en þú sendir svona þvætting frá þér. Það hefur aldrei verið aðeins ein túlkun á Biblíunni í gangi, ekki einu sinni áður en hún var sett saman í eitt rit.

    —————————-

    Óli Gneisti @ 09/01 13.23

    Ég hef aldrei heyrt aðra túlkun Þorkell, komdu með þína túlkun á þessum sögum.

    —————————-

    Karl Jóhann @ 09/01 13.46

    Trú manna fer eftir því hvaða túlkun á biblíunni þeir aðhyllast, finnst mönnum ekkert undarlegt við það?

    —————————-

    Árni Svanur @ 09/01 13.50

    Ég legg til að næst þegar þú átt leið í Þjóðarbókhlöðuna Óli, þá kíkirðu upp á fjórðu hæð og skoðir eitthvert skýringarritanna sem er þar að finna um 1. Mósebók. Þar geturðu fundið dæmi um það hvernig þetta hefur verið túlkað.

    Skýringarrit Claus Westermann við 1. Mósebók er til dæmis ágætt. Í fyrsta bindi þess er fjallað um 1M 1-11 og á bls. 384-458 (í ensku þýðingunni) er hann að fjalla um 1M 6.5-8.22 sem er frásagan af flóðinu. Westermann vísar líka í önnur rit og greinar sem fjalla um þessa frásögn (bls. 384-387).

    Ég man ekki í svipinn hvort CW fjallar um túlkunarsögu þessa kafla eða ekki. Ef ekki þá gæti Keli eða e-r annar kannski bent okkur á rit þar sem slíka umfjöllun er að finna.

    —————————-

    Óli Gneisti @ 09/01 13.53

    Ég spyr enn og aftur, hvernig túlkið þið þessar sögur?

    —————————-

    Þorkell @ 09/01 14.18

    Fjallar kannski sagan af Sódómu og Gómorru um gestrisni? Og ef við viljum fara bókstaflegri leið þá vitum við það svo sem að syndug samfélög hrynja alltaf. Samfélag þrífst ekki þar sem réttur manna er ekki virtur og þar sem almenn lög eru ekki höfð í heiðri. Þetta hefur ekkert með reiði Guðs að gera heldur er þetta bara almennt lögmál.

    —————————-

    Þorkell @ 09/01 14.24

    Vandinn er sá Óli Gneisti að þú virðist halda að:

    1) Trúarrit hafi aðeins eina merkingu
    2) Trúarrit hafi alltaf sömu merkinguna

    Það er ekki ólíklegt að sagan af Sódómu og Gómorru hafi orðið til sem útskýring á náttúruhamförum. Fólk reyndi oft að túlka slíta atburði með vísun til trúarinnar. Það þýðir hins vegar ekki að sagan hafi haft þá merkingu fyrir þeim sem skráði hana eða þeim sem lásu hana öldum síðar.

    Og þá kemur spurningin hvort ég sé að segja að Biblían sé bara verk manna. Svarið er eftirfarandi:

    Sem ritskýrandi nálgast ég textann sem verk manna, annað væri óvísindalegt. Hvort sú vísindalega nálgun hafi eitthvað með sannleikann að gera er síðan allt annað mál. Sögur geta einnig verið sannar þótt þær séu skáldskapur, þ.e. þær hafa boðskap sem talar til fólks á öllum tímum.

    —————————-

    Óli Gneisti @ 09/01 14.32

    Þannig að þessar sögur koma Guði ekkert við? Og bara einfaldlega mannanna verk? Ég er augljóslega sammála þessu. Ég hélt bara að þið hélduð að Biblían væri eitthvað tengd Guði.

    —————————-

    Carlos @ 09/01 14.40

    Óli Gneisti:
    Þú ert að biðja um hraðsoðnigu náms sem í mínu tilfelli tók 10 ár þegar allt er talið. Með því að taka tillit til þess sem Árni Svanur bendir á varðandi lestur bóka, get ég gefið þér innsýn í punkta sem ég samdi f.nokkrum mán. og lagði fram. Þeir eru hinsvegar ekki sjálfstætt verk og ber að virða sem lauslegt uppkast.

    —————————-

    Þorkell @ 09/01 14.41

    Ég svaraði þér sem ritskýrandi Óli. Það sem þið virðist ekki skilja er að guðfræði gengur ekki út frá tilvist Guðs sem vísri, enda væri það ófræðilegur grunnur. Þá getur skáldsaga einnig sagt heilmargt um samband Guðs og manns sem er jafnvel sannara en staðreyndir.

    —————————-

    Hjalti @ 09/01 15.40

    Ein spurning: Trúði Jesús því að flóðið átti sér stað? Sbr Mt24:36?

    —————————-

    Birgir Baldursson @ 09/01 15.41

    Það er ekki ólíklegt að sagan af Sódómu og Gómorru hafi orðið til sem útskýring á náttúruhamförum.

    Tilurð sagnanna um Sódómu og Gómorru eru því til orðnar á sama hátt og hjá God hates Sweden. Hvað er þá rangt við þær fulyrðingar sem Óli Gneisti sett fram í fyrsta pósti sínum?

    10 ár, Carlos? Minni á þessi orð Frelsarans:

    Til að útiloka alla gagnrýni á kristni virðist nú vera skilyrði að menn hafi full grænsápuréttindi til að tjá sig. Vissulega mega leikmenn og lærðir skrifa jákvæða umfjöllun þar sem gamlir leyfðir frasar eru endurteknir í sí og æ á barnalegan hátt. En sömu fræðimenn fá jafnvel kast þegar vegið er að ritningunni. Ásaka viðkomandi gagnrýnanda umsvifalaust um þekkingarleysi á “djúpvitrum” ritningartextanum. Þannig reynir kirkjan í nútímasamfélagi að breiða yfir heimskuna sem fylgir því að byggja alla sína trú á einni gamalli bók.

    —————————-

    Birgir Baldursson @ 09/01 15.45

    Ef litið er í guðfræðinni á Biblíuna sem skáldsögu og tilvist Guðs sem vafasama, af hverju kenna þá sömu guðfræðingar, komnir í prestaskrúða, þetta sem sannleika? Er nauðsynlegt að trúa?

    —————————-

    Birgir Baldursson @ 09/01 15.46

    Carlos, ef það tekur 10 ár að skilja Biblíuna til fullnustu, hvaða erindi á þetta þá við börn?

    —————————-

    Árni Svanur @ 09/01 15.54

    Ykkur er frjálst að halda áfram í bókstafstrúartúlkun og -skilningi ykkar á Biblíunni, ekki ætla ég að skipta mér af því. Við höfum hins vegar bent ykkur á að slík túlkun er ekki iðkuð af þorra kristinna kirkjudeilda; einnig að hún er tiltölulega nýtilkomin í túlkunarsögunni.

    Við höfum jafnframt bent á það hvar þið getið leitað ykkur heimilda um það hvernig þessar sögur hafa verið túlkaðar í gegnum tíðina og um það hvernig góðir ritskýrendur vinna með þær í samtímanum.

    Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt ætla ég að biðja ykkur félagana um að hætta að gera okkur og kristinni kirkju í samtímanum upp þá skoðun að við aðhyllumst bókstafstrúarskilning á Biblíunni. Sú fuglahræða er gagnslítil og hræðir engan og er engum til gagns nema helst ykkur.

    Hvað grænsápuhjalið ykkar varðar þá er það bæði barnalegt og hallærislegt, það dæmir sig líka sjálft.

    —————————-

    Þorkell @ 09/01 16.04

    Birgir spyr:

    “Ef litið er í guðfræðinni á Biblíuna sem skáldsögu og tilvist Guðs sem vafasama, af hverju kenna þá sömu guðfræðingar, komnir í prestaskrúða, þetta sem sannleika?”

    Af því að guðfræði og trú er ekki það sama. Kirkjan gerir þá kröfu að þjónar hennar hafi hlotið fræðilega menntun, sem þeir fá í Háskóla Íslands. Hún gerir einnig kröfu um trú, sem þeir fá ekki upp í Háskóla.

    Ef virkilega svona erfitt fyrir ykkur að skilja muninn á þessu tvennu?

    —————————-

    Birgir Baldursson @ 09/01 16.14

    Mann fara semsagt ég gegnum fræðilegt nám til þess að geta síðan orðið ófræðilegir í vinnunni sinni. Læra að Biblían sé skáldsaga til þess að geta haldið hinu gagnstæða fram úr predikunarstólnum.

    Er ekki guðfræðinám presta bara oþarft?

    Og er það ekki ærið óheiðarlegt að kenna Biblíuna sem sannleika þvert á það sem hið fræðilega nám á að vera búið að skila manni. Mér finnst þetta vera svipað og að menn væru sendir gegnum líffræðina og látnir mastera þróunarfræðin til að geta svo komið og kennt sköpunar„vísindin“

    Á hinn fræðilegi grunnur presta að gera þá trúverðugri í stólnum? En þeir eru augljóslega að ljúga þar öllum stundum.

    —————————-

    Birgir Baldursson @ 09/01 16.16

    Fyrsta setningin brjálaðist, þetta á auðvitað að vera „Menn fara semsagt gegnum fræðilegt…“

    —————————-

    Birgir Baldursson @ 09/01 16.30

    Í sunnudagaskólum Þjóðkirkjunnar er hin bókstafslega útgáfa Biblíunnar kennd (eða var a.m.k. þegar ég var krakki). Þá voru sögurnar um Nóaflóðið og Sódómu afgreiddar eins og enginn efi væri um tilvist Guðs og að sögurnar væru frásagnir af gjörðum hans. Hvað á það að fyrirstilla?

    —————————-

    Óli Gneisti @ 09/01 16.35

    Þarf maður í alvörunni tíu ára nám til að skilja einfaldar Biblíusögur? Þannig að hinn almenni Jói kristni hefur ekki séns á að skilja Biblíuna. Trú hinna útvöldu?

    —————————-

    Óli Gneisti @ 09/01 16.57

    Nú er sagan um Nóaflóðið kennd í grunnskólum, er það ekki kúnstugt að troða sögu sem er svona “flókin” í hausinn á litlum börnum sem geta ekki skilið hana?

    —————————-

    skúli @ 09/01 17.26

    Donanú, frásagnirnar eru sagðar með sömu formerkjum og annað það sem borið er á borð fyrir börn. Þau ber ekki að þreyta með flóknum útlistunum á samtímasögu, trúarbragðasamanburði, lestri frumtexta oþh.

    Guðfræðinámið felst í því að skilja, túlka og miðla þeirri menningu sem kristindómurinn er.

    —————————-

    Óli Gneisti @ 09/01 17.31

    Ég held að það séu engar aðrar svona hryllingssögur sem börnum séu sagðar í skólum, það væri nú gott ef það væri útskýrt fyrir þeim að þær væru nú ekki sannar, viljið þið ekki beina því til kristinfræðukennslubókarhöfundarins að hann bæti því kommenti við í næstu útgáfum?

    —————————-

    Þorkell @ 09/01 17.51

    Birgir segir:

    “Mann fara semsagt ég gegnum fræðilegt nám til þess að geta síðan orðið ófræðilegir í vinnunni sinni. Læra að Biblían sé skáldsaga til þess að geta haldið hinu gagnstæða fram úr predikunarstólnum.”

    Ég sagði aldrei að það væri kennt að Biblían VÆRI skáldsaga. Láttu ekki svona Birgir. Það sem ég sagði var að sem ritskýrandi (sem er bara undirfag í guðfræðinni) nálgast maður textann EINS OG hvern annan forntexta eða skáldsögu.

    Vísindin geta ekki sannað eða afsannað guðlegan innblástur. Það merkir ekki að hann geti ekki verið til staðar.

    Og hættið nú að snúa útúr.

    —————————-

    Torfi @ 09/01 18.21

    Þorkell! Birgir var ekkert að snúa út úr. Þú svaraðir fullyrðingu hans um að menn kenndu annað í prédikunarstóli en þeir lærðu í guðfræðideildinni, með því að játa óbeint að í deildinni væri litið á Biblíuna sem skáldsögu og tilvist Guðs sem vafasama: “Af því að guðfræði og trú er ekki það sama.”
    Ég varð aldrei var við það í guðfræðideildinni að litið væri á Biblíuna sem skáldsögu né að efast væri um tilvist Guðs. Kennslan þar fól í sér mjög mikla innrætingu.
    En það er alls ekki krafa nútíma fræðimennsku að skilja að guðfræði og trú, eða huglægt og hlutlægt mat hvers konar. Positívisminn og trúin á að þetta tvennt verði auðveldlega aðgrein, er löngu orðinn úreldur. Nú reyna menn að sameina þetta tvennt án þess að lenda út í geðþóttafræðum. Það er afleiðing existentialismans og þeirra stefna sem hann fæddi af sér svo sem postmodernismans. Umræðan hér á annall.is sýnir hve báðir aðilar eru staðnaðir. Það er eins og maður sé staddur á miðri síðustu öld!

    —————————-

    eva @ 09/01 23.05

    Mér finnst það afskaplega gleðilegt að meiri hluti kristinna manna sé vaxinn upp úr þeirri kreddu að náttúruhamfarir séu hefnd Guðs fyrir hegðun sem er honum ekki að skapi.

    Lífseigari er þó trúin á inngrip almættisins þegar mannbjörg verður. Ég þekki t.d. nokkur dæmi þess að fólk þakki það snarræði Guðs að enginn skyldi farast í eldgosinu í Vestmannaeyjum hér um árið. Þetta er náttúrulega bara hentistefna. (Nema skýringin á náð Guðs í garð Eyjamanna sé sú að enginn þeirra hafi haft smekk fyrir sódómí og saurlífi?)

    Merkilegt hvað allt gott er rakið til Guðs en náttúrulegar skýringar látnar duga þegar hörmungar dynja yfir. Ógeðspöddurnar sem biðja fyrir meiri dauða og hörmungum eru þó allavega sjálfum sér samkvæmar, ólíkt þeim sem túlka bíblíuna eftir eigin hentugleikum hverju sinni.

    —————————-

    Torfi Stefánsson @ 10/01 00.52

    Ég held nú að menn þakki Guði lífsbjörgina frekar til að sýna auðmýkt, að gefa ekki sjálfum sér dýrðina, en að viðkomandi telji að náð guðs fylgi honum einum en ekki hinum sem farast.
    Trú á æðri mátt sýnir ákveðna afstöðu til lífsins, að maður megi þakka fyrir það að vera til þó að lífið sé oft helvíti skítt, og að maður gerir sér grein fyrir því að vera aðeins örlítið peð í risastórum heimi. Trúin hjálpar manni m.a. að forðast þykjast vera einhver stórlax – og að vera alltof upptekin af sjálfum sér – þ.e.a.s ef trúin birtist á eðlilegan hátt.
    En fyrir mér er trúin fyrst og fremst siðferðilegs eðlis, trú og breytni eru tengd órúfanlegum böndum, og kirkjan siðræn stofnun fyrst og síðast.
    Því skil ég ekki af hverju ekki er hægt að ræða þjóðfélagsmál á þessum annál, aðeins hjátrúar- og hindurvitnanöldur! Meiri pólitík takk!

    —————————-

    Birgir Baldursson @ 10/01 04.11

    Mér þykir reyndar ógeðfelldast þegar fólk sem lent hefur í læknishöndum eftir slys eða bráðasjúkdóma þakkar Guði bata sinn en ekki þeim sem gerðu hann mögulegan með þekkingu sinni og færni.

    Og mikið eru nú prestar og guðfræðingar búnir að koma sér í vonda aðstöðu með því að vera búnir að hafna djöflinum og helvíti. Það hefði nebblega verið svo þægilegt fyrir þá, núna eftir tsunami, að segja bara „djöfullinn gerði það“.

    En þá yrðu þeir náttúrlega að athlægi.

    Ég er handviss um að eftir nokkur ár eða áratugi þyki jafnhjákátlegt að þakka Guði á þann hátt sem mönnum finnst sjálfsagt að gera í dag. Guðfræðingarnir eru sjálfir á fullu að reyta fjaðrirnar af „fræðum“ sínum, búnir að „afhelga“ djöfulinn, illa anda og bókstaflega allt það óhugnanlega í Biblíunni. Bráðum fer sjáfur Guð á þann ruslahaug líka.

    —————————-

    Carlos Ferrer @ 10/01 08.48

    Merkilegt hvað allt gott er rakið til Guðs en náttúrulegar skýringar látnar duga þegar hörmungar dynja yfir.

    Skýringa er m.a. að leita til þekktra sálrænna viðbragða við stóráföllum. Stóráföll s.s. flóðbylgjan eða eldgos, hópslys etc. hrista upp í öryggiskennd okkar, ráðast á tiltrú okkar á að við séum örugg í heimi okkar (sbr. það eru engir guðleysingar í skotgröfunum eða ég týndi trúnni í Víetnamsstríðinu). Þetta eru s.s. sálræn varnarviðbrögð, sem hjálpa fólki til þess að ná jafnvægi.

    P.s. Ég hef ekki hitt manneskju sem ekki þakkar læknum og hjúkrunarfólki fyrir aðhlynningu sem það hefur fengið. Hvort sem það þakkar guði sínum eða ekki.

    —————————-

    Matti Á. @ 10/01 09.37

    sbr. það eru engir guðleysingar í skotgröfunum
    Þessi frasi er náttúrulega ekkert annað en mýta sett fram til að gera lítið úr trúlausum. Óþarfi að endurtaka hann eins og um viðurkennda staðreynd sé að ræða.

    Sjáið bara.

    —————————-

    Carlos @ 10/01 10.29

    Hvaða viðkvæmni er þetta? Hann er jafnmikil goðsögn og frasinn um truleysi i Vietnam. Hann lysir hinsvegar þvi sem gerist og er vel dokumenterað i afallafræðum.

    —————————-

    Carlos Ferrer @ 10/01 11.02

    ég var of fljótur á mér. Ég biðst afsökunar á því hvernig þessi síðasti og næstsíðasti comment kom út.

    1. Ég sagði þetta ekki til minnkunar á neinum. Það er ekki viðhorf mitt að fólk verði alltaf trúað eða trúlaust undir álagi á borð við stríð.

    2. Ég vildi eingöngu benda á það að álag á borð við stóráföll geta, endurtek geta haft áhrif á það hvernig fólk lítur á heiminn, sjálft sig og framtíðina.

    —————————-

    Karl Jóhann @ 10/01 11.19

    Stóráföll geta haft áhrif á hvernig fólk lítur á heiminn vegna þess að það er komið í aðstöðu þar sem það skilur ekki heiminn og leitar að skýringum. Það eru margar leiðir til að skilja heiminn og það má deila um það að trú á æðri mátt sé, a.m.k. í þessu tilfelli, skilningsleysi og hræðsla og ekkert merkilegri en það.

    —————————-

    Matti Á. @ 10/01 12.03

    Þessi frasi er móðgandi og hann byggir ekki á raunveruleikanum.

    “Það eru engir guðleysingjar í skotgröfum” er ósatt eins og vísun mín fyrir ofan sannar.

    Þessi frasi er notaður til að sýna að þrátt fyrir allt tal um guðleysi leiti jafnvel hörðustu trúleysingjar í trúna þegar eitthvað bjátar á. Eflaust eru dæmi um það að við stóráföll og sjokk hafi einhverjir trúleysingjar ákallað almættið, en þau dæmi réttlæta ekki þennan frasa. “það eru engir…” og þau segja okkur heldir ekki að heimsýn þessa fólks hafi breyst.

    Ég vil einfaldlega biðja fólk að hætta að nota þennan frasa, því þetta eru óheiðarleg ósannindi.

    Það hafa margir skitið í buxurnar í skotgröfunum. Það vitnar enginn til þess til að upphefja þá iðju – eða er það nokkuð ?

    “Það eru engar bremsulausar naríur í skotgröfunum”

    —————————-

    Torfi Stefánsson @ 10/01 14.45

    Birgir! Ekki veit ég nú hvort prestar og guðfræðingar hafi alfarið hafnað djöflinum og helvíti. Þetta reyndu menn á dögum upplýsingar en tókst ekki vel upp. Hugtök eins og þessi eru symbólsk, sem tákn um hið illa í heiminum. Upplýsingarguðfræðin leit á manninn sem góðan í eðli sínu og að aukin þekking myndi leysa allan vanda.
    Svo virðist sem þið “trúleysingjar” hafi sömu skoðun, samanborðið orð þín um “að eftir nokkur ár eða áratugi þyki jafnhjákátlegt að þakka Guði á þann hátt sem mönnum finnst sjálfsagt að gera í dag.” Guð verði afhelgaður á sama hátt og djöfullinn. Þetta héldu menn fyrir meira en tveimur öldum en ennþá hefur þetta ekki gerst.
    Að mínu mati er kristnin með hinn rétta mannskilning, að maðurinn hefur tilhneigingu til þess illa, og því hefur siðaboðskapur hennar (t.d. skylduboðin) mjög mikilvægu hlutverki að gegna nú sem fyrr.
    Þá er djöfullinn síður en svo dauður eins og sjá má á framferði Bush í Írak. Þekkingin ein og sér er engin lausn á vandamálum heimsins.

    —————————-

    Birgir Baldursson @ 10/01 17.41

    „Hið illa“ existerar ekki utar og ofar manninum, Torfi. Þessi ranghugmynd trúarbragðanna hefur verið ansi lifsseig en að sama skapifullkomlega röng. Sömuleiðis á „hið góða“ sér ekki tilvist óháð manninum. Þetta eru hvatir sem menn gera heiminum upp í takt við hentugleika hverju sinni.

    Óskandi væri að þessir hámenntuðu guðfræðingar áttuðu sig á þessari ljósu staðreynd og geti þar með hætt að gera veröldinni upp þessi tvö öfl. Heimurinn bara er, og það sem gerist í honum hefur annað hvort slæmar afleiðingar eða góðar fyrir suma eða alla, í takt við breytilegt gildismat.

    Það er fullkomlega frumstætt og í andstöðu við þekkingu okkar á veröldinni að gera náttúrunni upp mannlegar kenndir með þessum hætti. En auðvitað þurfa guðfræðingarnir á þessum ranghugmyndum að halda svo þeir geti viðhaldið hinni stóru bábilju um tilvist Guðs.

    —————————-

    Torfi Stefánsson @ 10/01 18.11

    Póstmodernistinn mættur á staðinn! Ég er bara alls ekki sammála og vil vara við þessum hugunarhætti, þ.e. að maðurinn sé viðmiðun alls. Hið illa er ekki afstætt hugtak og ekki heldur hið góða. Það er til siðferðislegt, algilt gildismat sem er óháð trú manna, hefð eða öðrum samfélagsáhrifum.
    Sem betur fer segi ég því annars verður heimurinn einn óskapnaður, fasisti, nasismi og bushismi mun tröllríða honum og afleiðingin verður ragnarrök.
    Þessi hugsun póstmodernisma er í raun afleiðing liberalisma upplýsingar, að allt sé leyfilegt manninum sem herra veraldarinnar. Erum við ekki búin að líða nóg vegna þessarar dýrkunar á hinum sterka manni sem mótar sjálfur öll siðferðileg gildi?

    —————————-

    Birgir Baldursson @ 10/01 18.26

    Það er til siðferðislegt, algilt gildismat sem er óháð trú manna, hefð eða öðrum samfélagsáhrifum.

    Þú misskilur mig. Ég var að tala um „hið góða“ og „hið illa“ sem sjálfstæð öfl óháð manninum (sbr. Guð og Djöfullinn). Ég er einmitt að benda á að þessi hugtök eru afrakstur gildismats, en ekki öfl með sjálfstæðan vilja.

    —————————-

    Gísli @ 12/01 15.29

    Eldingu laust í belju og brenndi á meðan frummaðurinn horfði á. Einhver þarna uppi hlýtur að vera að refsa mér hugsaði hann með sér, og trúarbrögð urðu til, sem leið til að búa til svör við spurningum sem maðurinn hefur ekki þroska til að svara annars. Afhverju svona vont flóð? Nú Guðsi er fúll, einfaldasta svarið.

Lokað er á athugasemdir.