Trúboð

 Einhver maður sem ég veit ekki einu sinni hvað heitir, virðist hafa þá köllun í lífinu að sannfæra mig um að tungumálið sé það sem greini manninn frá dýrunum og geri hann þeim æðri. Sennilega hefur hann tekið einn félagsfræðiáfanga í öldungadeild einhvers framhaldsskóla og skrifað ritgerð um málið, upp á þokkalega einkunn, áður en hann hætti í skólanum af því að kennarahelvítið felldi hann í stærðfræði 102.

Sjálf held ég því fram að ekkert nema tegundahroki mannskepnunnar sjálfrar geti skilgreint hana sem æðri öðrum lífverum. Við höfum tekið okkur meira vald og erum að því leyti æðri að við kúgum aðrar skepnur í eiginhagsmunaskyni og komumst upp með það en það merkir ekki að við séum betri, fullkomnari eða virðingarverðari. Ég veit heldur ekki hversvegna margir eru svona rosalega sannfærðir um að önnur dýr hugsi ekki heimspekilega. Ég hef allavega aldrei heyrt nein góð rök, önnur en þau að dýrin tali ekki. Þ.e.a.s. tali ekki tungumál sem við skiljum. Semsagt; ef ég skil ekki hvað dýrin eru að tala um, þá getur það ekki verið merkilegt. Hvílík sjálflægni. Ég er ekkert sannfærð um það sjálf en ég er alveg opin fyrir þeirri hugmynd að hundar og kettir hafi siðferðishugmyndir og hugleiði tilgang lífsins og álíka hluti. Mér finnst ólíklegt að þau hafi áhyggjur af því hvað verði um þá dauðu, því það kemur ekki róti á hjörðina (kannski á eina og eina kind en ekki alla hjörðina) þótt einstaklingur innan hennar falli frá, en það segir í sjálfu sér ekkert hvað það hvern fjárann þau ræða sín á milli. Við vitum það bara ekki og ég skil ekki hversvegna þessum ókunnuga manni er svona í mun að sannfæra mig. Þetta er nánast eins og trúboð -hann fer þegar ég er farin að sýna nánast dónalegt áhugaleysi en kemur svo aftur nokkrum mánuðum síðar með sama fagnaðarerindið.

Það eina sem við getum verið viss um að raunverulega greini manninn frá öðrum dýrum er það eðli hans að vera aldrei svo ánægður með aðstæður sínar til lengdar að hann geri ekki eitthvað róttækt til að breyta þeim. Maðurinn er tibúinn til að færa fórnir og berjast til að komast lengra, vita meira og fá meira, stundum ekki bara fyrir sjálfan sig heldur fyrir fjölskyldu sína, samfélag eða jafnvel komandi kynslóðir. Það er hvorki gott né slæmt í sjálfu sér, við getum kallað það metnað og útsjónarsemi eða græðgi og grimmd en það er vegna þessa eiginleika sem við búum við tækni sem gerir óbyggilega staði að paradís og getur hrundið af stað ferli til að gereyða þessum sömu stöðum á álíka löngum tíma og það tekur að segja ‘stríð gegn hryðjuverkum’.

Einhversstaðar las ég að það sem greindi manninn frá dýrunum væri það að hann eldaði matinn sinn. Ég get ekki sætt mig við þá greiningu því matseld byggir á tækniþekkingu en ekki eðlishvöt. Það er ekkert víst að maður sem fæðist í samfélagi hráæta myndi reyna að elda en það er alveg víst að hann myndi reyna að breyta einhverjum hlutum eða búa þá til, til að gera sér lífið léttara eða öðlast völd. Það væri allt eins hægt að segja að það sem greindi manninn frá dýrunum væri það að dýrin bloggi ekki.

Ég hef yfirleitt gaman af að ræða við trúboða af því að þeir geta gefið manni innsýn í hugarheim sem er svo gjörsamlega ólíkur mínum. Ég þekki hinsvegar hugarheim mannverudýrkandans of vel til að þykja hann áhugaverður. Sendið til mín Búddista, Gunnar í Krossinum og allt þar á milli og ég mun hlusta með andakt. Bara ekki einhvern sem er heltekinn af mikilfengleika mannsins. Mér bara finnst við ekki það merkileg.

Share to Facebook

One thought on “Trúboð

  1. ——————————–

    Hringdi í Gunnar áðan. Hann mætir upp úr 9.

    Posted by: lindablinda | 18.04.2008 | 18:53:18

     ——————————–

    Það er engin munur á mönnum og dýrum nema að því leiti að getað búið til listaverk og notið þeirra. Mannskepnan er sannarlega grimmasta og hættulegasta dýr allra tíma og hefur ekkert siðferði nema sá gállinn sé á henni. Hún getur sannarlega tileinkað sér slík siðferðiskerfi en undir niðri og til dæmis í stríðsrekstri, þá er engin siðferðiskennd til staðar.

    Posted by: Guðjón Viðar | 20.04.2008 | 9:05:26

    ——————————– 

    ég held að eini munurinn að dýrum og mönnum sé frekar falið í greind og venjum sem maðurin hefur tileinkað sér. það eru til fuglar sem elda mat og búa sér til listaverk í makaleit sem svo aðrir fuglar skemma í ofundsíkis kasti, efað flóðhesta ungi (kálfur) er derpin af krókodíl þá fara flóðhestarnir í skipulagðar þjóðernishreinsanir og fara upp og niður ánna og gjörsamlega drepa alla krókodíla sem þeir finna. þannig að það þarf ekki að leita langt til að finna það sem er (eins) hjá okkur jarðarlífverum… og FUCK hvað ég er á sama máli og þú Eva. maðurin er ekkert sérstakur ekki einusinni í kvöt sinni að eiða heiminum það eru önnur dýr sem gera betur en við .. jafnvel þar ..

    Posted by: Dreingurinn | 24.04.2008 | 19:26:55

Lokað er á athugasemdir.