Tilfinningagreind er kjaftæði

Tilfinningagreind, hver fjandinn er það? Flestum greindarþáttum má lýsa sem getu til að leysa verkefni en tilfinningagreind er dálítið flóknara fyrirbæri. Að einhverju leyti það að þekkja eigin styrk og veikleika. Vera fær um að bregðast við og vinna úr áföllum. Hæfileikinn til að taka sem mest tillit til annarra án þess að ofbjóða sjálfum sér. Hæfileikinn til meðlíðunar, geta til að leysa ágreiningsefni þannig að sem flestir séu sáttir. Hvort hægt að að mæla þessa eiginleika af nokkurri nákvæmni er svo aftur umdeilanlegt og það kom mér dálítið á óvart þegar ég fann EQ próf sem á að vera ‘vísindalegt’.

Strax á fystu síðu staðfestist grunur minn um véfengjanlegt vísindagildi prófsins. Það er nefnilega tiltölulega auðvelt að sjá hvaða hugarfar og samskiptatækni er líklegast til að koma manni stóráfallalaust í gegnum daginn en þegar á reynir tekur klárt fólk nú samt stundum fáránlega slæmar ákvarðanir. Ég svaraði prófinu fyrst í samræmi við það sem ég taldi ’réttu’ svörin og reyndist náttúrulega afburðagreind á tilfinningasviðinu. Svo tók ég prófið aftur og svaraði út frá reynslu minni af sjálfri mér og viti menn, greindarvísitala mín snarlækkaði.

Það er eitthvað að prófi sem er svona auðvelt að ’svindla’ á en auk þess eru ’réttu’ svörin oft umdeilanleg. T.d. á maður að meta hversu mikla trú maður hafi á hæfileikum sínum. Hverskonar bjánaspurning er það nú eiginlega? Ég hef fullkomna trú á hæfileikum mínum til að þrífa klósett þannig að það standist ýtrustu kröfur heilbrigðisyfirvalda. Ég hef hinsvegar enga trú á hæfileikum mínum til að sigra í keppni eins og ’so you think you can dance.’ Það væri m.a.s. mjög heimskulegt af mér að hafa trú því. Það er ekkert mál að svara þessu þegar maður hefur aðeins einn hæfileika sem skiptir verulegu máli fyrir hamingju manns en stundum er þetta bara flóknara.

Spurt er hversu háður maður sé viðurkenningu annarra og það svar sem gefur flest stig er að hún skipti mann engu máli en ég held satt að segja að maður sem aldrei metur sig með tilliti til álits annarra sé hreinn og klár sósíópati.

Höfundar prófsins virðast ekki gera ráð fyrir því að áföll eða langvarandi erfiðleikar hafi áhrif á sjálfstraust fólks en þótt manneskja sé að upplagi jákvæð og tiltölulega fljót að jafna sig af áföllum, hlýtur að vera eðlilegt að efasemdir um eigin getu og ágæti komi upp þegar hvert áfallið rekur annað. Ef tilfinningaleg greindarvísitala þín lækkar skyndilega þegar þú ert rekinn úr vinnunni, húsið þitt brennur ofan af þér, krabbameinsprófið reynist jákvætt og þú kemst að því að barnið þitt er á kafi í heróíni, lækkar þá ekki alveg eins málgreind þín þegar þú ert að fást við tungumál sem þú kannt aðeins hrafl í?

Samskiptakaflinn er álíka einfeldningslegur. Oftast koma fleiri en eitt svar til greina en ekki er gert ráð fyrir að smá blæbrigðamunur í aðstæðum geti haft áhrif á það hvert besta svarið er eða að það geti verið breytilegt eftir einskaklingum. T.d. er sett fram dæmi þar sem yfirmaður er stöðugt að bæta aukaverkefnum á starfsmann, verkefnum sem eru ekki inni í starfslýsingunni en hann getur samt reiknað með að fá í undantekningartilfellum. Starfsmaðurinn er ósáttur við þetta og spurt er hvernig hann ætti að bregðast við. Mér finnst tvennt koma til greina; hann getur boðist til að bæta þessum verkefnum á sig gegn aukaþóknun eða fríðindum eða hann getur útskýrt fyrir yfirmanninum að hann hafi nóg með sitt og sé ósáttur við að bæta á sig nema mikið liggi við. Gallinn er sá að við fáum ekki upplýsingar um það hvort hann kærir sig eitthvað um þessi verkefni. Er yfirmaðurinn að losa sig við þau af því að þau eru leiðinleg? Hvort skiptir starfsmanninn meira máli að fá hærri laun eða fara sæmilega afslappaður heim úr vinnunni? Á kannski allt fólk að vera eins að því leyti?

Verkefni þar sem maður á að greina tilfinningar eftir svipbrigðum á ljósmyndum eru út af fyrir sig áhugaverð en gallinn er sá að ljósmynd sýnir frosið augnablik og sjaldan reynir á hæfileika manns til að meta hugarástand fólks út frá ljósmynd. Fas er ekki bara svipur, heldur líka hreyfingar, raddblær og jafnvel andardráttur. Ég er viss um að einhverjir þeirra sem standa sig illa á þessum þætti myndu spjara sig prýðilega við eðlilegar aðstæður.

Þess utan þá virðast höfundar prófsins ganga út frá því að öll samskipti snúist um það að komast hjá minniháttar árekstrum. Ekki er gert ráð fyrir að kímnigáfa, listin að daðra og hæfileikinn til að svara fyrir sig fullum hálsi skipti máli fyrir hamingju manns. Ekki er gert ráð fyrir því að fólk geti lent í því að vera tekið fyrir eða að stundum skipti prinsippmál meira máli en tilfinningar hins aðilans. Ekki er prófað hvort fólk gerir sér grein fyrir muninum á því að taka gríni og gefa öðrum færi á að gera lítið úr sér eða því hvernig það bregst við þegar því finnst eitthvað annað skipta meira máli en að halda friðinn. Ekki reynir á hæfileikann til að samlagast nýju menningarumhverfi.

Hér eru nokkrar spurningar sem ég myndi vilja bæta við þetta próf.

Ingþór býr í smábæ. Hann er tíður gestur á vínveitingahúsinu á staðnum. Fátt gerist fréttnæmt í smábæ og drykkjuskapur Ingþórs hefur orðið mörgum uppspretta hneyksilssagna í fásinninu. Laugardagskvöld nokkurt situr Ingþór við borð á kránni með nokkrum vinum sínum og er að gera hosur sínar grænar fyrir stúlku sem er nýflutt á staðinn. Nágrannakona hans sest óboðin hjá þeim, segir honum óbeðin álit sitt á drykkjuskap hans og ráðleggur honum að fara í meðferð. Sama kona hefur angrað hann tvisvar sinnum áður við svipaðar aðstæður. Hvað á Ingþór að gera?

a) Setjast við annað borð.
b) Útskýra fyrir konunni að drykkja hans sé ekki vandamál.
c) Þakka henni fyrir ábendinguna en segja henni að hann muni leita til hennar sjálfur ef hann þurfi á ráðleggingum að halda í framtíðinni.
d) Skvetta vodkanum sínum framan í hana.
e) Halla sér makindalega aftur og segja glaðhlakkalega; ’um hádegi á morgun verður runnið af mér en þú verður ennþá dóni’.
f) Líta beint í augun á sætu stelpunni og segja hátt og skýrt svo allir heyri; ‘ég verð að biðja þig afsökunar, hún Gunnhildur hefur látið svona síðan ég smitaði hana af flatlús í nóvember’.
Starfsstúlka á vinnustaðnum þínum er lögð í einelti. Yfirmaðurinn veit af því en gerir ekkert í málinu. Sigga er öðrum skæðari og ástandið versnar alltaf þegar hún er á vakt. Einn daginn gengur fram af þér þegar hún segir illkvittnislegan brandara sem þolandinn tekur greinilega til sín. Hún segir ekkert en líður greinilega mjög illa og þótt sé ekki hægt að ’hanka’ Siggu vita allir hvað hún á við. Hvað gerir þú?

a) Snýrð talinu að öðru og brosir svo góðlátlega til þolandans til að láta hana vita að einhver standi með henni.
b) Ræðir við Siggu í einrúmi og segir henni að þér finnist framkoma hennar óviðeigandi.
c) Tekur eineltismál upp á fundi þar sem þolandinn er ekki viðstaddur.
d) Ræðir við hitt starfsfólkið um að standa með þér í að stoppa Siggu.
e) Segir Siggu rólega en alvarlega í áheyrn þeirra sem heyrðu brandarann að það viti allir hvað hún eigi við, þér finnist hún ekkert sniðug og þig langi mikið til þess að vinna við betri starfsanda.
f) Ræðir við þolandann eftir á og hvetur hana til að stíga fram og segja sögu sína í DV.
Sigrún er nýbyrjuð á nýjum vinnustað. Hún sér strax að það fólk sem hana langar mest að vingast við heldur hópinn og andrúmslofið meðal þeirra einkennist af svörtum húmor. Þau eru vingjarnleg við hana en skipta sér ekki af henni að ástæðulausu og bjóða henni ekki sérstaklega að setjast hjá sér á kaffistofunni. Á öðrum degi gera vinnufélagarnir at í Sigrúnu. Þeir víxla merkingunum á starfsmannaklósettunum svo hún æðir inn á vinsælasta strákinn þar sem hann stendur við pissuskál með djásnið úti. Tveir aðrir gaurar eru þar fyrir, skítaglottið fer ekki fram hjá henni og Sigrún áttar sig á því að þeir eru að stríða henni. Hvað á Sigrún að gera?

a) Snúast á hæli, skoða merkið á hurðinni og útskýra fyrir grínistunum að svona framkoma særi blygðunarkennd hennar.
b) Biðjast rólega afsökunar og bakka út.
c) Líta beint á þann vinsæla og segja ’úhú, sætur dindill!’
d) Kvarta við yfirmanninn.
e) Setja upp kvenlegan vandæðasvip og segja; ’ó afsakið, átti ég að taka númer?’
f) Grípa fyrir augun og öskra.
Kristjana er í fjárhagsvandræðum. Hún er í vanskilum við símafyrirtækið sitt og röltir inn á skrifstofu í þeim tilgangi að semja um skuldina. Þjónustufulltrúinn sem tekur á móti henni hreytir því í hana að þetta sé fyrirtæki en ekki góðgerðastofnun. Hvað á Kristín að gera?

a) Biðjast afsökunar og útskýra fyrir þjónustufulltrúanum að hún hafi lent í ófyrirsjáanlegum vandræðum en sé komin vegna þess að hún hafi fullan hug á að gera sitt besta.
b) Láta þjónustufulltrúann vita að fyrst þetta sé viðhorf fyrirtækisins, þá ætli hún ekkert að borga skuldina heldur beina viðskiptum sínum annað.
c) Horfa ísköldu augnaráði á þjónustufulltrúann og spyrja rólega; ’hvað heitir þinn yfirmaður?’
d) Ganga út og stofna fb síðu til höfuðs þjónustufulltrúanum.
e) Sýna réttláta reiði sína með því að segja þjónustufulltrúanum nákvæmlega hvað henni finnst um þjónustu fyrirtækisins og starfsfólk þess, hátt og reiðilega og leggja áherslu á orð sín með því að berja í borðið.
f) Fara að gráta í von um að þjónustufulltrúinn skammist sín og bjóði henni góð kjör.
Jóhannes er með vini sínum á pizzustað í hádeginu þegar kona sem þekkir lítið en langar að kynnast betur gengur inn. Vinurinn þekkir hana sæmilega og er með símanúmerið hennar. Hún er ein á ferð, fer á salatbarinn og tekur ekkert eftir félögunum. Hvað á Jóhannes að gera til að vekja áhuga hennar?

a) Ekkert. Ef hún hefði áhuga á honum hefði hún tekið eftir honum.
b) Ganga rakleitt til hennar og segja; hæ sæta, svona fyrst þú ert hvort sem er með kaldan mat, ættum við þá ekki að skreppa inn á klósett og fá okkur hádegissjortara?
c) Ganga til hennar um það leyti sem hún er að ljúka máltíðinni og biðja um símanúmerið hennar.
d) Biðja vin sinn um að bjóða henni að setjast hjá þeim.
e) Senda henni sms með skilaboðum á borð við má bjóða þér sinnepssósu með þessu?
f) Gera sér ferð fram hjá borðinu hennar (t.d á klósettið eða að afgreiðslunni) í von um að hún taki eftir honum. Ef hún heilsar ekki þegar hann gengur hjá í þriðja sinn, snarstoppa þá og segja ’nei, þú hér, ég var bara ekkert búinn að taka eftir þér.’
Þessar spurningar eru auðvitað alveg jafn gallaðar og ’vísindalega’ prófið. Maður þarf t.d. ekki að vera klár til að vita að það er stundum ástæða til að svara fyrir sig en hvort manni dettur eitthvað snjallt í hug á þeirri stundu, það er svo allt annað mál Ég er bara að benda á að prófið mælir ekki nema hluta af þeim þáttum sem tilfinningagreind nær yfir.

Próf af þessu tagi geta verið skemmtileg, það er gaman að velta fyrir sér hvað litlir hlutir geta haft mikil áhrif á það hvernig samskipti þróast en ég ætla rétt að vona að það sé ekki mikið um að þetta sé beinlínis notað til þess að meta fólk. Ég held að próf sem byggja á sjálfsmati geti varla gert meira gagn en að gefa vísbendingu um það hvort viðkomandi er vanhæfur sem manneskja og slíkt fólk þarf nú yfirleitt engin próf til að koma upp um sig. Það er allavega alveg á hreinu að þetta próf segir lítið ef nokkuð um það hvernig fólk funkerar undir miklu álagi og frumleika og útgeislun mælir það alls ekki. Mín niðurstaða er sú að þótt við getum svosem alveg notað orðið ’tilfinningagreind’ um almenna hæfni til að stýra hjá óþarfa krísum, sé afar hæpið að flokka svona próf sem vísindi. Og reyndar efast ég æ meir um að rétt sé að flokka félagsgreinar sem vísindi.

Share to Facebook