Þeórískt séð

Ég hef samanlagt tólf ára reynslu af því leigja íbúðarhúsnæði á Íslandi. Þar af bjó ég í sama húsinu í rúm 3 ár. Húsið var gott, leigan lág og þar sem húsið var í eigu sveitarfélagsins og fylgdi starfinu mínu, þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af því að leigusalinn tilkynnti mér að hann þyrfti að fá íbúðina sína aftur og ég þyrfti því að flytja. Þetta var góður tími. Áður hafði ég búið í 3 ár á öðrum stað þar sem húsnæði fylgdi starfi. Það var líka ágætt.

Hin 6 árin sem ég bjó í leiguhúsnæði, leigði ég samtals 11 íbúðir. Ástæðurnar fyrir þessum tíðu flutningum voru eftirfarandi: (Hér kemur leiðinleg upptalning sem hægt er að sleppa án þess að missa af neinu úr pistlinum)

1. staður: Ég átti ekki fyrir fyrirframgreiðslu (enda hefði ég þá alveg eins getað keypt) og fékk því aðeins íbúð sem stóð bara til að leigja út í 3 mánuði.

2. staður: Skömmu eftir að ég flutti inn fékk ég tilkynningu um að til stæði að rífa húsið (sem var óíbúðarhæft og það eina sem ég fann sem ég stóð undir fjárhagslega) og fékk ákveðinn frest (ég man ekki hve langan) til að flytja. Fór strax að leita og flutti áður en fresturinn rann út, eftir 8 mánaða búsetu í músétinni brunagildru. Húsið var samt ekki rifið fyrr en nokkrum árum síðar.

3. staður. Ég fékk íbúð en flutti eftir 8 mánuði þegar mér bauðst vinna með húsnæði úti á landi. Þar var ég í 3 ár.

5. staður. Ég ákvað að fara í Háskólann og flutti því í bæinn, fann eftir mikla leit íbúð sem var til leigu í 6 mánuði.

6. staður. Eftir rúmt ár á sama stað skildi dóttir leigusalans við manninn sinn og vantaði húsnæði svo ég var beðin að flytja. Ég hefði getað komist upp með að sitja lengur í íbúðinni en gat ekki hugsað mér að vera þar sem ég væri óvelkomin.

7. staður. Hér var leigan var svo há að ég þurfti að vinna allar helgar og oft á kvöldin í miðri viku til að ná endum saman. Ég hefði getað verið lengur þar en tók því fagnandi þegar mér bauðst ódýrari íbúð.

8. staður: Ég sagði leigunni upp sjálf þegar ég fékk úthlutaðri verkamannaíbúð fyrr en ég átti von á, eftir að amma mín hafði (án samráðs við mig og í fullkominni óþökk minni) heimtað greiða af áhrifamönnum í flokksklíkunni sinni. Enn í dag veit ég ekki hvort mér var troðið fram fyrir öryrkja sem svaf í hjólhýsi eða eitthvað í þá veruna en ég afþakkaði ekki íbúðina heldur lét mér nægja að lesa yfir ömmu minni og réttlætti það að þiggja íbúðina með þeim rökum að yngri sonur minn, fjögurra ára að aldri, myndi þegar eftir 4 heimilum. Svona getur maður nú verið mikill hræsnari. Ég var lengi með samviskubit gagnvart leigusalanum fyrir að fara með stuttum fyrirvara enda þótt ég vissi af reynslunni að eftirspurnin eftir íbúðum af þessari stærð var mun meiri en framboðið. Ég bjó í þessari íbúð í 3 ár en fór þá út á land í öruggt húsnæði sem fylgdi vinnunni.

10. staður
Ég þurfti að brúa nokkurra mánaða bil þar til ég fengi afhenta íbúð sem ég var að kaupa (vegna þess að það var útilokað að fá örugga langtímaleigu) og leigði því húsnæði sem hentaði fjölskyldunni engan veginn. Var þar í 5 mánuði. Bjó svo í eigið húsnæði úti á landi þar til ég flúði í betra menningar og atvinnuumhverfi. Mér tókst að leigja íbúðina út en gat ekki fengið fyrirframgreiðslu

12. staður: Ég átti ekki fyrir fyrirframgreiðslu en fékk íbúð til 5 mánaða.

13. staður: Ég fékk langtímaleigu, jibbý. Var þar í eitt ár en leigusalinn var rambandi á barmi gjaldþrots og íbúðin var seld ofan af mér.

14. staður: Húsið mitt úti á landi seldist og ég keypti íbúð en var í millitíðinni í 3ja mánaða leigu

Oftar en ekki var það leigumarkaðurinn, fremur en mínar eigin ákvarðanir sem voru undirrót flutninganna. Leigumarkaðurinn á Íslandi er, eða hefur allavega lengst af verið, óboðlegur fólki sem vill vita hvar það muni búa næstu jól. Þessvegna reyna flestir að kaupa húsnæði, hvort sem þeir geta það eða ekki. Þegar ég festi fyrst kaup á húsnæði, hafði ég í rauninni ekkert efni á að kaupa. Málið er bara að ég hafði heldur ekki efni á að leigja og flutningar eru ekki bara sálarslítandi, þeir kosta líka helling af peningum. Ég ‘fiffaði greiðslumat’, þóttist t.d. ætla að vera bíllaus og sýndi þar með fram á útgjaldalækkun.

Sannleikurinn er sá að ég ætlaði aldrei að vera bíllaus. Ég keypti uppi í Fellahverfi, var í Háskólanum, með tvö börn í leikskóla uppi í Lækjarbotnum. Námslánin dugðu ekki til að reka heimili og bíl, auk útgjaldanna við húsnæðiskaupin. Að vísu þurfti ekki að borga neitt nema vexti og verðbætur fyrstu tvö árin ef ég man rétt en ég hafði tekið lán fyrir fyrirframgreiðslunni og til að ná endum saman vann ég með skólanum.

Hefði ég getað verið bíllaus? Þeórískt séð já. Að vísu vann ég við að skúra veitingahús á næturnar þær helgar sem drengirnir mínir voru hjá pabba sínum og enginn strætó sem gekk á þeim tíma en mikið rétt, ég hefði líklega komist hjá því ef ég hefði sleppt bílnum.

Þeórískt séð já, en fljótlega eftir að ég flutti í Torfufellið bilaði bílinn. Ég var bíllaus í viku og nei, vitiði það, það stóð einfaldlega þannig á strætóferðum að dæmið gekk bara heldur ekki upp á daginn.

Auðvitað hefði ég getað látið strákana skipta um leikskóla. En ef ég hefði þvælt þeim á milli leikskóla í hvert sinn sem ég flutti á milli hverfa og bæja, þá hefði ég sennilega staðið frammi fyrir öðrum vandamálum og alvarlegri en þeim að þurfa að reka bíl.

Kom ég mér í þessar aðstæður sjálf? Já, það gerði ég sannarlega. Ég hefði getað frestað barneignum, búið í föðurhúsum þar til ég var komin í góða framtíðarstöðu og orðin fær um að kaupa litla íbúð í göngufæri við vinnustað og skóla. Eða það sem hefði verið betra, að leita og leita og finna að lokum litla, langtíma leiguíbúð í eigu sveitarfélags eða fyrirtækis sem myndi örugglega ekki fara á hausinn eða biðja mig að rýma fyrir ættingjum sínum. Jájá, þeórískt séð hefði ég aldrei þurft að standa í húsnæðishrakningum og aldrei þurft að eiga bíl.

Í dag er ég blessunarlega bíllaus og bý í lítilli, öruggri leiguíbúð. Ef þarf að skipta um vatnslagnir kostar það mig ekki krónu aukalega. Ef þarf að rýma íbúðina vegna viðhalds, verður mér útvegað annað húsnæði á meðan, í sama hverfi. Ef ég vil flytja þarf ég að segja upp með 3ja mánaða fyrirvara. Ef leigusalinn vill losna við mig (sem gerist ekki nema vegna langvarandi vanskila eða mjög óeðlilegrar umgengni) þarf hann að gefa mér árs frest. Mér finnst gott að leigja -EN ég bý líka í útlöndum núna.

Þeórískt séð hefði ég alltaf getað haft þetta svona. Ég hefði getað flutt til útlanda 18 ára og ég hefði líka getað komið mér í mjög svipaðar aðstæður á Íslandi.

Þeórískt séð já. En veruleikinn er bara ekkert sérlega þeórískur.

Eva | 17:11 | Varanleg slóð |

 

TJÁSUR

 

Áttirðu nokkrar bækur? 🙁

Posted by: Guðmundur Óafsson hagfræðingur | 2.11.2010 | 17:19:39

 

Já og flutti þær með mér þar til ég horfðist í augu við það árið 2004 að flestar þeirra höfðu aðeins verið lesnar einu sinni. Þá fór ég smám saman að losa mig við þær og í dag á ég aðeins handbækur og til viðbótar kannski svona 20 perlur sem skipta mig máli. Bækur eiga best heima netinu, næst best á bókasöfnum.

Posted by: Anonymous | 2.11.2010 | 18:22:14

Share to Facebook

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.