Það er hættulegt að eyða í sparnað

piggy-bankÞversagnir geta falið í sér mikinn sannleika. Klifun dagsins “eyddu í sparnað” virðist við fyrstu sýn vera þessháttar þversögn.

Eins og ég hef gaman af þversögnum í skáldskap, hef ég óbeit á auglýsingum sem hvetja fólk til að eyða í sparnað.

Sparnaður er mikið snjallræði. Það er hinsvegar stórhættulegt að gera hugmyndina um að eyða peningum jákvæða. Auk þess er verið að höfða til neysluhyggjunnar með þessum auglýsingum. Það er í raun ekki verið að hvetja okkur til að fara vel með peninga, heldur miðar sparnaðurinn að peningasóun í framtíðinni. Það er svosem enginn glæpur að hvetja fólk til að leggja fyrir fé í þeim tilgangi að fresta neyslubrjálæðinu. Það er líka gott mál að safna fyrir einhverju ákveðnu, mun betra en að lifa út á krít, en söfnun tryggir manni ekki fjármálavit.

Ef við ætlum að ala upp fjárhagslega heilbrigða kynslóð, megum við ekki kenna börnunum okkar að eyða í sparnað eða safna sér fyrir fjórhjóli. Við þurfum að kenna þeim að það sé allt í lagi að geyma peninga án þess að því fylgi eitthvert stórt markmið. Gallinn er sá að ef við gerum það, verða þau sjálfstæðari og láta síður stjórnast af neysluhyggju og gróðafíkn. Þetta vita bankarnir og tryggingafélögin, hlutabréfamarkaðurinn og stórfyrirtækin. Það er þessvegna sem þeir hvetja okkur til að eyða í sparnað. Þetta er ekki sakleysisleg þversögn heldur strategía til að halda okkur í þrældómi neyslunnar.

 

Share to Facebook