„Það var búið að lofa henni ráðherrastól“

Katrín Júlíusdóttir búin með barneignafríið og nú þarf að stokka upp ríkisstjórnina af því að „það var búið að lofa henni ráðherrastól“. Fyrirgefið en hver er þessi „það“ sem lofaði henni ráðherrastól og með hvaða rétti?

Nú sé ég margra halda því fram að hún eigi eins og aðrir launamenn rétt á því að halda starfinu sínu þótt hún fari í barneignafrí. Þeir hinir sömu virðast líta fram hjá tvennu: Halda áfram að lesa

Safaríkt svar frá mannréttindaráðherra

Ég hef töluvert álit á Ögmundi Jónassyni. Allavega tel ég hann öðrum líklegri til að koma góðum hlutum til leiðar sem dómsmálaráðherra og yfirleitt kemur hann mér þannig fyrir sjónir að hann hafi sterka réttlætiskennd, sé sjálfum sér samkvæmur en jafnframt víðsýnn og tilbúinn til að hlusta á almenna borgara þegar þeir deila skoðunum sínum með honum. Ég varð því dálítið hissa í morgun þegar ég opnaði tölvupóstinn minn og las svar við erindi sem ég sendi inn á vefsetur hans, líklega á mánudaginn.

Þetta var örstutt fyrirspurn um það hvort mannréttindaráðuneytið hefði beitt sér eða hyggðist á einhvern hátt bregðast við máli írönsku konunnar Sakineh Ashtiani sem nú situr í fangelsi í Tarbriz og bíður þess að vera grafin niður í holu og grýtt til bana. Ég hef oft skrifað ráðamönnum og opinberum stofnunum vegna mannréttindamála og yfirleitt hef ég fengið svör, misgóð að vísu, oft bara einhverja klisju um að viðkomandi muni ‘fylgjast með þessu máli’ (hvernig sem það á nú að hjálpa) en næstum alltaf benda svörin til að einhver hafi allavega lesið bréfið. Össur Skarphéðinsson, svaraði t.d. sama erindi frá mér í síðustu viku og sagðist hafa mótmælt dómnum í bréfi sem var afhent sendiherra Irans í Noregi. Að vísu má ekki birta það bréf opinberlega og maður hlýtur að velta því fyrir sér hversvegna þurfi leynimakk í kringum álit íslenskra stjórnvalda á mannréttindabrotum, en hann svaraði þó allavega eins og hann hefði lesið tölvupóstinn.

Svarið sem ég fékk við bréfi mínu til Ögmundar var sent frá netfanginu safi@bsrb.is. Hraðleit á google bendir til þess að eigandi þessa netfangs sé upplýsingafulltrúi bsrb og það er svosem gott mál ef bsrb hefur áhuga á mannréttindamálum. Ég veit samt ekki alveg hvort ég á að túlka svarið sem merki um að Ögmundur áframsendi slík erindi til vina sinna hjá BSRB, að Ögmundur sjálfur deili netfangi með Sigurði eða sem merki um að einhver fáviti hafi komist í tölvupóstinn.
Svarið er stutt og laggott og skrifað í hástöfum:

ÞÓTTI VÆNT UM BRÉF ÞITT. KÆRAR ÞAKKIR. KV. ÖGMUNDUR

Þingmenn eru líka fólk

Í Kastljóssþætti gærdagsins tók Jónína Bjartmartz Helga Seljan í nefið fyri óvandaðan fréttaflutning sem virðist ekki eiga við nein rök að styðjast. Helgi reyndi að klóra í bakkann með því að fá hana til að „viðurkenna“ að hún hefði leiðbeint tengdadóttur sinni. Óttalega var það nú vesæl nauðvörn.

Hvað með það þótt Jónína hafi gefið góð ráð? Er það bannað? Er það ósiðlegt? Mér þætti það hverri tengdamóður til vansa að neita að leiðbeina flóttamanni um refilstigu kerfisins og reyndar tel ég það siðferðilega skyldu hvers mannréttindasinna sem hefur til þess tök og þekkingu.

Ég trúi því ekki að nokkur góðgjörn manneskja leggi það að jöfnu við siðspillingu að sýna venslafólki samstöðu. Alþingismenn eiga alveg sama rétt á því og annað fólk að styðja sína nánustu svo framarlega sem þeir misnota ekki aðstöðu sína. Það væri að tala um þetta sem spillingarmál ef Jónína sæti ennþá í allsherjarnefnd en svo er ekki. Það væri líka hægt að flokka þetta sem spillingu ef nefndin hefði veitt stúlkunni ríkisborgararétt af einskærri greiðasemi við Jónínu og þá væru það meðlimir nefndarinnar sem væru sekir um spillingu.

Helgi Seljan kom illa út úr þessu viðtali. Hann átti það skilið.

 

 

Hvaða erindi eiga Íslendingar í öryggisráðið?

ISGÞegar ég segi að það sé skárra að hafa ranga afstöðu en enga, á ég að sjálfsögðu við einstaklinga en ekki ríkisstjórnir eða opinberar stofnanir.

Þegar einstaklingur er hlutlaus í öllum eða flestum pólitískum málum, bendir það til ábyrgðarleysis, leti og hugleysis. Hann nennir ekki að kynna sér það sem er að gerast í kringum hann, þorir ekki að setja fram skoðanir sem hann gæti þurft að rökstyðja og endurskoða og álítur að hann hafi aðeins réttindi en engar skyldur gagnvart öðru fólki, dýraríkinu og jörðinni sem við lifum á. Halda áfram að lesa

Jafnir fyrir lögum?

brekkusöngurÉg er meira en hneyksluð. Ég er sár. Sumarið 2000 vann ég sem fangavörður á Litla-Hrauni í sumarafleysingum. Ég man að einn fanganna fékk dagsleyfi til að fara á fæðingadeildina og taka á móti barninu sínu enda þótt hann hefði ekki setið inni í þetta ár sem er skilyrði þess að menn fái dagsleyfi. Honum var gerð rækileg grein fyrir því að þetta væri alger undanþága og mikil forréttindi. Annar fékk nokkurra klst. leyfi til að vera við jarðarför. Einn fékk ekki einu sinni leyfi til að fara í fylgd fangavarða til að heimsækja gröf eina vinar síns, jarðarför kom ekki til álita þar sem hann frétti ekki af dauða hans fyrr en búið var að jarða hann. Halda áfram að lesa