Sýróp með öllum mat?

syropÉg hef ánægju af mat, finnst gaman að elda og borða svo til allan mat og mikið af honum. Enginn á mínu heimili hefur átt við offituvandamál að etja, þrátt fyrir rjómasósur og steiktan fisk og ég hef talið það merki um skynsamlega samsetningu fæðisins, enda vissi ég ekki betur en að við neyttum fæðu úr öllum fæðuflokkum í nokkurnveginn réttum hlutföllum. Ég hef svosem aldrei talið hitaeiningar eða velt hlutföllum fjörefna sérstaklega fyrir mér, enda engin næringarvandamál hrjáð okkur –hélt ég.

Ég hef ekki skrifað undir ofstækisfullan áróður gegn sætindum, hef haldið mig við meginregluna “allt er gott í hófi” en í vor var mér þó farið að ofbjóða sykurátið á einu barnanna og ákvað því að draga verulega úr innkaupum á sykruðu morgunkorni, kókómalti og kexi en bjóða frekar upp á ávexti og smurt brauð. Enginn kvartaði nema fyrstu tvo dagana og ég taldi þetta vel heppnaða uppeldisaðgerð. Sjálfri finnst mér gott að fá kex eða súkkulaði með kaffinu en það var svosem engin sorg að þurfa að sleppa því og þegar ég grenntist lítillega taldi ég það bara merki um heilbrigðari lifnaðarhætti enda líður varla sá dagur að maður heyri ekki eða lesi eitthvað um geigvænlega óhollustu sykurs.

Þegar leið fram á sumar fór að bera á lasleika hjá mér en hingað til hef ég verið hraust. Um mánaðamótin júní-júlí varð ég mjög veik og fékk hverja sýkinguna ofan í aðra, engu líkara en að ónæmiskerfið væri gjörsamlega hrunið. Ég léttist mikið og þótt flestum konum þyki eftirsóknarvert að grennast er satt að segja ekkert fallegt, hvað þá heilsusamlegt að missa mörg kíló á örfáum vikum vegna sveltis. Vöðvar rýrna og fitan hangir í slöppum keppum utan á lærunum, brjóstin hverfa og viðbein og mjaðmir skaga út í loftið. Auk þess fylgir slappleiki og jafnvel depurð svona skyndilegum næringarskorti.

Þegar ég fór að hressast var ég samt sem áður lystarlaus áfram. Ég hef ekkert úthald, mig klígjar við mat og líður almennt illa. Í fyrradag rann upp fyrir mér að undanfarna daga hef ég innbyrt innan við 1000 hitaeiningar á dag og varla við því að búast að ég jafni mig eftir veikindin með því áframhaldi. Ég ákvað að setja mér næringarleg markmið og skoðaði netsíðu manneldisráðs í þeim tilgangi.

Ég hef sjaldan orðið eins undrandi. Eftir gaumgæfilega útreikninga varð mér ljóst að síðan ég hætti að kaupa kex og kókópuffs, hef ég neytt innan við 50% af æskilegu kolvetnamagni í fæðu en hlutfall fitu hefur verið allt of hátt. Ég sem borða nánast allt! Ég er ekki sérlega mikið fyrir ávexti en borða þeim mun meira grænmeti og hef alltaf staðið í þeirri trú að rótarávextir innihéldu mikil kolvetni. Reyndar eru ávextir og rótarávextir góð kolvetnauppspretta en 2 kartöflur og 1 gulrót með feitu súpuketi er ekki rétt samsett fæða. Ég borða brauð en ein sneið á dag er bara alls ekki nóg. 1/2 epli vegur ekki á móti feitum osti og pasta er ekki lengur góð kolvetnauppspretta þegar er búið að hella yfir það seðjandi og fituríkri sósu. Í rauninni hef ég, án þess að gera mér nokkra grein fyrir því, verið á einhverju afbrigði af Atkinskúrnum mánuðum saman og ég er að velta því fyrir mér hvort kolvetnaskorturinn hafi kannski veikt ónæmiskerfi mitt.

Ég ákvað auðvitað að snúa við blaðinu, bæta kolvetnum við fæðuna en draga úr fitu. Það er hins vegar enganveginn eins einfalt og það hljómar. Vissulega er til yfirdrifið nóg af kolvetnaríkum mat en hann inniheldur oftast líka mikla fitu. Slík fæða (svosem vínarbrauð, pizzur, sósur og súkkulaði) er hins vegar oftast próteinsnauð og inniheldur lítið af vítamínum. Próteinrík fæða er oft feit en sjaldan kolvetnarík. Auðvitað er til nóg fæða sem er kolvetnarík og fitusnauð en á Íslandi er sterk hefð fyrir því að kæfa slíkan mat í fitu. Við notum smjör á brauðið, feitar sósur með hrísgrjóna og pastaréttum, bakaðar kartöflur og maísstönglar æpa á smjör og þeyttur rjómi er nánast ómissandi hluti af mörgum ábætisréttum. Það krefst því mun meiri vandvirkni en ég hélt að setja saman matseðil með næringarefnum í réttum hlutföllum.

Satt að segja finnst mér ekki spennandi tilhugsun að gúlla í mig ávöxtum í ótæpilegu magni, ásamt viðbitslausu brauði og þurrum hrísgrjónum en það er þó geðslegra en að taka upp kjörorðin “sýróp með öllum mat”. Hingað til hef ég talið að fæða á borð við hamborgara, sætt morgunkorn, kex og tómatsósu væri í skársta falli skaðlaus í hófi en ég mun taka þær hugmyndir til rækilegrar endurskoðunar. Kókópuffs er aftur komið á innkaupalistann og hér eftir mun ég láta linnulausan áróður gegn kolvetnum sem vind um eyrun þjóta. Það er nefnilega fitan sem er að drepa okkur en ekki sykurinn.

Share to Facebook