Syndaregistur

Því betur sem ég kynnist heiminum, finnst mér trú og trúmenn vera stærra samfélagsvandamál. Á okkar frelsistímum er samt sem áður varla hægt að hreyfa sig án þess að Gvuð reki fokkjúputtann upp í rassgatið á manni. Heimsvaldastefnan byggir á trúhneigð almúgans og hinn langi fingur Gvuðs er ennþá, á Íslandi árið 2007 að pota í kynhegðun okkar.

Fólk sem sjálft hefur sennilega aldrei upplifað vel heppnað hórirí telur sig þess umkomið að dæma allt kynlíf sem það sjálft hefur ekki smekk fyrir sem ógeðfellt og/eða sjúklegt. Og smekkurinn mótast af hverju -TRÚARBRÖGÐUM! Eldgömlum goðsögnum. Syndin er tengd því sem víkur frá uppskrift valdastéttar fortíðar af því hvað teljist gott, rétt og Gvuði þóknanlegt. Hið „eðlilega“ hefur ekkert með eðli okkar að gera, heldur gamlar trúarkreddur um að ekki megi sýna það sem vekur losta eða stunda kynlíf sem gæti raskað samfélagsskipan sem er ekki lengur við lýði.

Á þessari gömlu vitleysu hvílir grunnurinn að allri umfjöllun um klám- og kynlífsvæðingu. Orðið hlutgerving kemur sterkt inn í þessa umræðu. Allir sem hafa gaman af klámi, borga fyrir kynlífsþjónustu eða eiga mök við fólk sem þeir hafa engan áhuga á að eyða lífinu með, hljóta að líta á bólfélaga sína sem viljalaus verkfæri og vitanlega eru þeir gersneyddir sjálfsvirðingu líka. Í þessum pistli líkir einn trúmaðurinn „kynlífi á yfirsnúningi“ (ég veit ekki nákvæmlega hvað hann á við en greinin fjallar um markaðsvæðingu kynlífs) við „…hrærivél sem þeytir öllu deiginu upp úr skálinni. Kakan fer aldrei í ofninn en þú ert heillengi að þrífa eldhúsið.“ M.o.ö. kynlíf á öðrum forsendum en þeim sem hann trúir á er alltaf rosalegt „mess“. Það hlýtur því að vera rökrétt ályktun að þeir sem syngda (eða drýgja hór) séu óttalegar subbur (maðurinn er það sem hann gerir) enda vitnar klerkurinn í Títusarbréf „Allir hlutir eru hreinum hreinir, en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint, heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samviska.“

Ég hef upplifað yndislegt kynlíf, bæði innan hjónabands og utan þess. Ég hef líka upplifað ömurlegt kynlíf, bæði í hjónabandi og utan þess. Ég hef átt langt, innilegt og reyndar mjög erótískt ástarsamband án þess að eiginleg kynmök hafi verið inni í myndinni og ég hef líka átt vel heppnuð skyndikynni þótt sérþarfa minna vegna, henti slíkt mér almennt illa. Ég held að kynlíf sé manninum nauðsynlegt því jafnvel þótt það byggist ekki alltaf á ólgandi ást, upplifir maður með því andartök ástúðar og það dregur, þótt ekki sé nema tímabundið, ofurlítið úr einsemd mannsins í veröldinni. Og nei, það er ekki hægt að komast hjá einsemd mannsins í heiminum með því að trúa á Gvuð, ef sú væri raunin væri mannkynið, með allt sitt trúarrugl, löngu hætt að ríða.

Ég hef elskað og ég hef misst og það er sárara en tárum taki. Ég hef líka drýgt allrahanda hór með mönnum sem ég hafði engan áhuga á frekari sambandi við og það er öllu æskilegra en ástarsorg. Það hefur verið misskemmtilegt en ég hef ekki fundið fyrir þessu meinta virðingarleysi og hlutgervingu. Þeir sem ég hef verið með hafa almennt sýnt mér tillitssemi og blíðu og þótt þeir hafi ekki elskað mig er ég hreint ekki viss um að þeir sem ég hef búið með hafi gert það heldur. Ég hef stundum meðvitað forðast að mynda tilfinningatengsl við samsyndara mína. Kannski er það það sem er átt við með hlutgervingu. Sé það rétt að djúp tilfinningatengsl séu forsenda þess að fólk komi fram við hvert annað af virðingu, má þá ekki alveg eins segja að ég hlutgeri bankagjaldkerann, heimilislækninn og kaffibarþjóninn, með því að þiggja þjónustu af þessu fólki án þess að hafa minnsta áhuga á persónulegu lífi þess?

Það er gott að syndga. Einu sinni lifði ég skírlífi í 9 mánuði. Það geri ég aldrei aftur. Það var vondur tími og ég gleymi aldrei fyrstu syndinni sem ég drýgði eftir þetta ömurlega tímabil ófullnægju og einsemdar. Það hefur verið við svipaðar aðstæður sem orðið „ljúft“ kom inn í tungumálið.

Það er gefandi að syndga. Ég hef syndgað með kynsveltum klæðskiptingi. Aldrei hef ég kynnst þakklátari manni.

Það er fróðlegt að syndga. Eitt sinn saurgaði ég háskólakennara með hýðingablæti. Það var skrýtin reynsla og skemmtileg. Þegar ég var búin með hann tók ég konuna hans líka. Ég mun alltaf hugsa til þeirra með hlýju en ég sakna þeirra ekki neitt. Það er nefnilega hægt að deita án þess að leggjast í dramsýki yfir því.

Það er æsandi að syndga. Á topp tíu listanum yfir vel heppnaðar syndir, trónir bláókunnugur maður sem ég forfærði í kapellu guðfræðideildar Háskólans haustið 2002 ef ég man rétt. Ást og innileiki komu þar lítt við sögu en adrenalínkikkið entist mér fram á kvöld. (Vel að merkja gæskur -ég man ekki hvað þú heitir en ef þú ert að lesa þetta máttu vita að ég væri alveg til í að hitta þig aftur, jafnvel á sama stað. (Þetta hlýtur að vera gott dæmi um hlutgervingu konunnar á karlinum.))

Það getur líka verið vont að syndga. Rétt eins og langtíma ástarsamband er ekki endilega ávísun á gott kynlíf. Það er hvekkjandi að syndga með klaufa sem heldur að koss sé það sama og að reka tunguna ofan í vélindað á manni og trúir hreinlega ekki á sérvisku eins og þá að vilja ekki láta snúa upp á geirvörturnar á sér. Vandamál sem fylgja því að þekkjast ekki vel er oft hægt að leysa með því einfaldlega að opna á sér þverrifuna (í þeim tilgangi að tala, meina ég) en skíthælsháttur verður hvorki læknaður með útskýringum né langtímakynnum.

Ég held að goðsögnin um hlutgervinguna komi til af því að það eru vitanlega meiri líkur á því að kynlíf mislukkist ef fólk þekkist ekki, er undir áhrifum vímuefna, illa á sig komið tilfinningalega og ber enga sérstaka umhyggju fyrir félaga sínum. Ég held að sumir þeirra sem sækja mikið í gróft klám og notfæra sér kynlífsþjónustu séu mjög einmana og illa haldnir af vanlíðan og kannski er það ekkert minna vandamál en sú staðreynd að þrælahald viðgengst í þessum iðnaði eins og öðrum. Hið ljóta og ömurlega er til, vissulega en flestar konur í okkar samfélagi stunda kynlíf af því að þær vilja það sjálfar og flestir karlar í okkar samfélagi a.m.k. líta á flestar konur sem manneskjur, með tilfinningar og sýna þeim þá tillitssemi sem þeir á annað borð eru færir um, allavega rétt á meðan þau eru að athafna sig.

Já. Það er gott að syndga. Oftast. Samt langar mig í maka. Það er þó ekki vegna þess að kynlíf mitt eigi eitthvað skylt við deigslettur á eldhússveggnum og reyndar dreg ég mjög í efa að kynlíf hrærivélarklerksins (sem á áreiðanlega ekkert skylt við synd eða hórdóm) sé nokkuð réttara, fallegra eða göfugra en stóðlífi mitt. Mig langar í maka vegna þess að maki er (vonandi) meira en bólfélagi og aðgengilegur flesta daga ársins. Líka reyndar vegna þess að hugmyndir prestlingsins um það hversu einfalt það sé að syngda í dag, byggja greinilega á einhverju allt öðru en reynslu. Það er nefnilega frekar flókið mál og krefst töluverðrar vinnu að verða sér úti um verulega ánægjulegt hórirí.

Eva | 8:13 | Varanleg slóð |

Tjásur

„When things happen too fast, nobody can be certain about anything, about anything at all, not even about himself.“
Milan Kundera

Posted by: Svavar Alfreð Jónsson | 14.09.2007 | 13:19:06

Ekkert í biblíunni bendir til þess að með hórdómi sé átt við að hlutirnir gerist of hratt. Með hórdómi er átt við kynhegðun sem víkur frá því normi sem valdamenn í samfélaginu setja hverju sinni.

Posted by: Eva | 14.09.2007 | 14:05:42

Minnir mig á það. Vantar að kaupa meiri slökunarbaðolíu hjá þér 🙂

Posted by: Guðjón Viðar | 14.09.2007 | 14:44:22

„Þér hafið heyrt, að sagt var: Þú skalt ekki drýgja hór. En ég segi yður: Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ (Mt. 5, 27 – 28) Samkvæmt þessu er hóriríið á hraða hugsunarinnar.

Posted by: Svavar Alfreð Jónsson | 14.09.2007 | 14:57:02

Fyrsta bréf Sigurjóns til Kólossusmanna: „Hverjum er ekki sama?“

Posted by: Sigurjón | 14.09.2007 | 15:02:04

Ég horfi títt á karla með girndarhug, og líkar það vel, hvort sem ég er hórdrýgandi eða ekki.
Mér er nok sama hvað löngu dauðir karlar hafa sagt fyrir, guð má vita, hvað mörgum árum. Ég geri það sem mér finnst rétt hverju sinni og er ekkert hrædd um að lenda í helvíti. Kem líka sennilega til með að þekkja fleiri þar heldur en á hinum staðnum.

Posted by: Hulla | 14.09.2007 | 16:32:08

Ég trúi ekki á helvíti en ég er löngu búinn að reikna út að ef það sem stendur í Biblíunni er rétt þýði himnaríki slæman félagsskap.

Hver hefur ekki frekar viljað þola erfitt umhverfi í góðum félagsskap en paradís með forpokuðum leiðindapúkum?

Posted by: Kalli | 15.09.2007 | 15:24:40

Gott fólk, er það minn skilningur að þið sem hér eruð lítið á himnaríki sem einhverskonar „aulafílter“ og aðal djammið sí hjá lósgjafanum sjálfum. Ef svo er ekki kominn tími á almenilega að spá í því að það er víst mjög flókið að trúa á ljósberann án þess að trúa á „Gvuð?“ eða hvað? Hvað er samt málið með þetta syndatal, ég þekki eingann sem er ekki perri samkvæmt þreingsta skilnini kirkjunar þannig að ég held að það sé ekki rétt að himnarínki sé nothæf til að hreinsa úr allt leiðinlega fólkið. Nei góða fólk ég held að það sé bara hreinlega einginn í himnaríki við erum öll hér saman í helvíti og það er bara nokuð fínt að lifa.

Posted by: Dreingurinn | 17.09.2007 | 15:04:08

Share to Facebook

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.