Sveltum þá burt héðan

Fyrir jólin hvatti aðgerðahópurinn ‘sveltum svínið’ almenning til að taka þátt í beinni aðgerð gagnvart Baugsveldinu á Þorláksmessu.Um 250 manns tilkynntu formlega að þeir hyggðust taka þátt í aðgerðinni. Nokkur afföll urðu af þeim hópi, oftast vegna tímaskorts en einnig segja nokkrir að þeir hafi ekki lagt í að fara einir og vekja hugsanlega eftirtekt. Sjálfsagt hafa einhverjir einnig tekið þátt án þess að tilkynna það sérstaklega. Allmargir hafa haft samband við mig og sagt mér að þótt þeir hafi ekki tekið beinan þátt í aðgerðinni, hafi þeir ákveðið að sniðganga verslanir Baugs héðan í frá og auðvitað voru margir byrjaðir á því löngu fyrir jól.

Þeir sem tóku beinan þátt virðast ekki hafa lent í neinum vandræðum. Einn gafst upp á að bíða í röð eftir að hafa fyllt körfu af ís og annarri frystivöru. Annar var svo mikið að flýta sér að hveiti- og sykurpokar rifnuðu þegar hann skellti þeim í körfuna, sem hann gleymdi svo í gangveginum. Einn  lagði sérstaka áherslu á að fylla körfu kryddglösum og öðrum smáhlutum. Margir lögðu kerrum hist og her og fundu þær bara ekki aftur og fóru því tómhentir út. Einn kom kjötvöru haganlega fyrir innan um ræstivörurnar og a.m.k. tveir uppgötvuðu þegar allar vörur voru komnar ofan í poka að veskið hafði gleymst heima.  Nokkrir dunduðu sér við að fjarlægja verðmerkingar og/eða endurraða í hillurnar en okkrir tugir létu sér nægja að ráfa um yfirfullar búðirnar og skoða og hægja þannig á afgreiðslu.

Það góða við aðgerð á borð við ‘sveltum svínið’ er að slíkar aðgerðir má stunda alla daga ársins, á öllum helstu þéttbýlisstöðum landsins og allir geta tekið þátt. Veikleikinn er hinsvegar sá að fólk virðist síður tilbúið til að taka þátt í aðgerð ef það hefur ekki sterkan og áberandi hóp með sér. Það er því tilvalið að fylgja Þorláksmessuaðgerðinni eftir með beinum aðgerðum stórra hópa, á dögum sem búast má við mikilli verslun en einkennast þó ekki af alveg sama annríkinu og Þorláksmessa.

Ég hvet fólk auðvitað til að sniðganga Baug en einnig til að mynda aðgerðahópa sem hafa það að markmiði að koma beinu höggi á Baugsveldið. Þeim sem hafa áhuga á að taka þátt í fjöldaaðgerðum gegn Baugi, t.d. aðgerðum á borð við Þorláksmessuaðgerðina og hópum sem hafa áhuga á samræmdum aðgerðum um allt land, er velkomið að hafa samband við mig ef ég get eitthvað aðstoðað eða veitt upplýsingar og mér þætti einnig gaman að fá að fylgjast með því sem aðrir eru að gera til að losna við Baugsveldið.

mbl.is Leita ráðgjafar vegna Baugs

 

 

Share to Facebook

One thought on “Sveltum þá burt héðan

  1. ——————————————————————-

    Það sem hræðir mig við aðgerðir gegn baugsveldinu er sú skelfilega skuldasúpa sem fellur á landsmenn þegar baugur fer í gjaldþrot.

    Offari, 27.12.2008 kl. 18:54

    ——————————————————————-

    En hefðu þessir menn ekki fengið að leika lausum hala í viðskiptalífinu, þá yrðum við nokkur hundruð milljónum minna skuldug en nú er útlit fyrir. Ég vil stoppa þá, losna við þá.

    Eva Hauksdóttir, 27.12.2008 kl. 19:00

    ——————————————————————-

    Davíð og Jónína vildu stöðva þau fyrr en gátu ekkert gert vegna fjölmiðla.

    Offari, 27.12.2008 kl. 19:08

    ——————————————————————-

    Hef alltaf haft óbeit á viðskiptasiðferði Baugsmanna og mun héðan í frá hvorki versla við Bónus né önnur fyrirtæki sem Baugsmenn eiga.

    palli litlli (IP-tala skráð) 27.12.2008 kl. 19:32

    ——————————————————————-

    Heyr heyr er löngu hætt að verlsa í öllu sem grísamerkð kemur nálægt

    Guðrún Vestfirðingur (IP-tala skráð) 27.12.2008 kl. 20:21

    ——————————————————————-

    hvenar eru næstu mótmæli ?

    ivar (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 00:42

    ——————————————————————-

    Ég er hætt að versla hjá Baugi en það voru margir í Bónus Þorláksmessu. 
    Það sem við höfum sparað með að versla í bónus fáum við að greiða margfalt tilbaka vegna hrunsins.
    Við höfum áður verið vöruð við en ekki hlustað.

    Heidi Strand, 28.12.2008 kl. 01:09

    ——————————————————————-

    Það er greinilegt hversu fljótt fólk er að gleyma eða þá hversu ungir ritendur hérna eru, því ég man enn hvernig það var áður en bónus kom.

    Ég var bara ungur vitleysingur í breiðholtinu sem þekkti aðeins Hagkaup og Kron (ef einhver man eftir þeim) og þvílík búbót það var að fá bónus inn á markaðinn.

    Ég ætla ekki að draga það í efa að girnd er eitthvað sem kannski hefur dregið Jón Ásgeir á asnaeyrunum síðastliðin ár, því kommon hver er á móti því að fá skotsilfur í aðra hönd.

    En eruð þið virkilega farin að spá í það hvað verður um matvörumarkaðinn ef bónus hverfur, ef þið haldið að einhver annar komi til að halda niðri vöruverði þá er eitthvað meira en lítið að hugbúnaðnum í heimastöðvunum.

    Það sem heldur uppi fyrirtæki er hagnaður og ekkert annað, ef þú getur haldið því fram að þú haldir uppi lágvöruverðverslun þegar engin er í samkeppni við þig þá getur þú „virkilega ráðið markaðsverði“ eins og sumir hafa sakað bónus um að gera.

    En mjög margir gera sér grein fyrir því að hér ríkir góð samkeppni þrátt fyrir að einhverjir eigendur hafi ekki gert hreint fyrir sínum dyrum.

    það er okkar neytenda að ákveða hverjir eru bestir, og eða hagstæðastir og hvar við fáum mest fyrir okkar littlu krónur.

    Ef þið viljið versla annar staðar en í bónus þá er ykkur guð velkomið til að gera svo, en að ætla til þess að fólk sem virkilega hugsar um budduna sína gera slíkt hið sama er ekki í lagi.

    Ekki að þetta eigi að hljóma eitthvað illt, en þið eruð farin að hljóma eins og ofsatrúarmaður sem viðurkennir ekkert annað en eigin málróm, það er allt í lagi að stíga skref til baka og hlusta á hvað ámælandinn hefur að segja.

    Eitt til viðbótar sem mig langar til að spyrja, hvað er það sem gerir fólk sem verslar í bónus að verra fólki.

    Og eitt sem mig langar að bæta við í lokin er, hvar væri mæðrastigsnefnd ef ekki væri fyrir bónus, (bónus hefur síðastliðin ár lagt 25 milljónir til styrktar mærðarstyksnefnd fyrir jól)

    En hinsvegar hrópa ég húrra fyrir staðfestu ykkar í mótmælum ykkar, bara ef þið gætuð beint á réttan veg.

    kveðja

    Matti

    Matti hvíti (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 01:15

    ——————————————————————-

    Það sem gerir fólk sem verslar í Bónus að meira vandamáli en þá sem sniðganga Baug er það að viðskipti við skíthæla, viðhalda völdum þeirra.Þið sem verslið í Bónus eruð ógn við það litla lýðræði sem við þó höfum.

    Ég vil ekki tala um þá sem versla við Baug sem slæmt fólk því festir gera sér ekki grein fyrir skaðanum sem þeir eru að valda með því, en þeir eru vissulega vandamál.

    Og jújú, vöruverð hrapaði með tilkomu Bónussbúðanna, það man ég vel, en við fáum líka að gjalda þess tífalt á næstu árum að hafa fengið þetta pakk inn á íslenskan matvörumarkað.

    Eva Hauksdóttir, 28.12.2008 kl. 02:35

    ——————————————————————-

    Mæðrastyrksnefnd hvað? Heldur þú virkilega að það séu einhverjir aðrir en neytendur sem standa straum af styrkjum stórfyrirtækja til hjálparstofnana?

    Eva Hauksdóttir, 28.12.2008 kl. 02:36

    ——————————————————————-

    Styrkir líkt og mæðrastigsnefnd hafa verið að fá eru tekin af hagnaði fyritækisins.

    Að sjálfsögðu geturðu horft á það þannig að neytendur borga fyrir vörur sem mynda hagnað því engin hagnaður getur orðið öðrvísi en með innkomu neytendanna sem versla við fyrirtækið, en halda því fram að eigendur fyrirtækisins komi ekkert nálægt þessum styrkjum er bara ekki rétt, þeir gætu að sjálfsögðu bara stungið öllum hagnaðinum í eigin vasa en kjósa en taka ákveðinn hluta af innkomunni til að nota sem styrk fyrir hin ýmsu málefni.

    Ég hef staðfestar heimildir fyrir því að álagning bónuss á sínar matvörur er minni en hjá nokkru öðru fyrirtæki á íslandi (og ábyggilega minni en hjá flestum sambærilegum fyrirtækjum á öðrum norðurlöndunum), geturðu nefnt mér nokkuð annað fyrirtæki í sambærilegum rekstri sem hefur látið jafn mikið fé renna til styrktarmála eins og bónus.

    Ég heyrði viðtal við Jón Gerald Sullenberger þar sem hann hélt því fram að allir styrkir frá bónus væru tilkomnir vegna sölu á bónus pokum, það er að nokkru leiti rétt því allur hagnaður af pokasölunni rennur óskiptur til barnaspítala hringsins en allir aðrir styrkir eru teknir af öðrum hagnaði fyrirtækisins.

    Er það í raun ekki bara gott mál ef einhver hluti innkomunar frá neytendum renni til góðgerðarmála líkt og mæðrastigsnefnd og annarra, frekar en í vasa eigenda?, en það er þó ákvörðun eigenda að leggja fé til styrktar góðgerðarmála því hvergi kemur það fram þegar þú verslar matvöru að ákveðinn hluti af kaupverði vörunnar fari til annarra en eigenda fyrirtækisins.

    Með bestu kveðju

    Matti

    Matti hvíti (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 18:38

    ——————————————————————-

    Auðvitað er gott mál að líknarfélög njóti góðs af hagnaði stórfyrirtækja en við skulum ekki gleyma því að tilgangurinn er ekki síst sá að bæta ímynd fyrirtækisins og eigendanna, fyrir utan skattaívilnanir og aðra hagsmuni sem slíkt færir þeim.

    Ástæðan fyrir því að álagning er minni hjá Bónus en öðrum verslunum er sú að þeir hafa, vegna markaðsráðandi stöðu sinnar, getað kúgað heildsala til að selja sér vörur á miklu lægra verði en aðrir eiga kost á. Með tímanum geta svo markaðsráðandi fyrirtæki bolað heildsölunum út af markaðnum líka og yfirtekið stóran hluta af öllum innflutningi. Afleiðingin er sú að fáir menn fá mikil völd og lög eru sett sérstaklega til að tryggja völd þeirra.

    Eva Hauksdóttir, 28.12.2008 kl. 19:19

    ——————————————————————-

    Við Eva höfum báðar nokkra þekkingu á rekstri og vitum af eigin reynslu að sanngjörn viðskipti á báða bóga gerir fáa ríka en skaffar þó lifibrauð þegar vel gengur.  Og ekki minnast á pokasjóð; pokasjóður fær bara afganginn af tilkostnaði, sem er – nota bene- stýrt af viðkomandi kaupmanni.

    Hvernig heldur Matti hvíti að sumir geti slegið um sig með stórum „líknargjöfum“?   Auðvitað ræðst stærð gjafanna af skattahagræðingu, þannig að viðkomandi getur barið sér á brjóst fyrir sín prívat framlög sem skattyfirvöld hefðu annars innheimt í okkar sameiginlega ríkissjóð – og afhent samkvæmt fjárlögum til nákvæmlega sömu líknarmála, án lúðraþyts!

    Kolbrún Hilmars, 28.12.2008 kl. 19:23

    ——————————————————————-

    Eva og Kolbrún

    Þar sem þið hafið nú einhverja þekkingu á rekstri þá ættuð þið að vita að heildsalar (þá sérstaklega þeir stærri) eru nú ekki að leggja neina smáaura á þær vörur sem þeir flytja inn.

    Ef að satt reynist eins og þið segjið að bónus sé að kúga heildsalana, þá spyr ég bara hversu slæmur hlutur er það ef kemur hinum almenna neytenda til góðs í formi lægra vöruverðs.

    Ég er ekkert ókunnugur rekstri sjálfur og ég verð bara að segja eins og er að ég vorkenni heildsölunum voða lítið að þurfa að minnka sínar álagnir á vörur þar sem sumir heildsalar hafa verið að setja allt að 300% álaggningu á vörur sem þeir flytja inn.

    Ef það þarf einhverja stóra verslunarkeðju til að berja niður verðlagið hjá heildsala sem í mörgum tilfellum er að smyrja langt fram yfir nauðsinlega álagningu, til þess að geta boðið upp á lægra vöruverð til neytenda þá er ég meira en lítið hlyntur því, og ég bara hreinlega skil ekki hvernig þið getið verið á móti því.

    Þar á móti kemur að í mörgum tilfellum fær bónus oft vörur á lægra vöruverði með því að kaupa inn stærri birgðir í einu og oft án skilaréttar (sem þíðir að ef einhver rýrnun verður þá situr bónus uppi með afföllin en heildsalin eingöngu með gróðan).

    Það að fólk geti slegið um sig með stórum „líknargjöfum“ hlýtur að vera í fínu lagi ef innistæða er fyrir því, hvað er svosem að því að upphefja fólk sem gefur af sér (hvort sem það er gert að einhverjum hluta í hagnaðarskyni) ef aðrir sem þurfa á því að halda græða á því?, ættu eigendur bónus þá frekar að sleppa því og stinga öllum hagnaðinum í vasan?

    Það er greinilegt að við erum ekki að öllu sammála, og er það í fínu lagi, en hinsvegar finnst mér ekki í lagi að skítkasta fólk sem gefur af sér í krafti sinnar stöðu þótt ykkur finnist þau ekki vera ykkur samboðin.

    kveðja

    Matti

    Matti hvíti (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 21:28

    ——————————————————————-

    Loksins sér maður (kona) raddir um að hætta að versla við þetta Baugsveldi. Ég er algjörlega farin að sneiða hjá því. Ég skil bara ekki þegar fólk talar um þessa menn sem góðgerðamenn okkar. Við erum um 60% yfir meðalverði á matvörumarkaði í Evrópu!!! Og hverjir eru ráðandi á honum? Svínið, ekki  satt. Ég skora á fólk að sniðganga það.

    Arndís Hauksdóttir (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 13:58

Lokað er á athugasemdir.