Sveltum hagkerfið

Jæja, mér finnst nú ágætt að þessi hugmynd fái undirtektir hjá einhverjum sem hefur vit á fjármálum.

Sjálf ætla ég að ganga miklu lengra og hvet alla sem vilja losna við þessa ríkisstjórn til að gera það sama.

Ég er hér með hætt að setja meiri peninga inn í hagkerfið en ég neyðist til.
-Ég borga enga reikninga frá ríki eða bönkum (reyndar myndi ég borga af lánum ef ég væri með ábyrgðarmenn á þeim).
-Ég ætla heldur ekki að skila vaskinum, staðgreiðslunni, tryggingagjaldinu stéttarfélagsgjöldum eða lífeyrissjóðnum (sem stendur er enginn í vinnu hjá mér en ég myndi að sjálfsögðu skila þessu fyrir starfsmenn).
-Ég er búin að taka út það litla sem ég gat af peningum og stinga þeim undir koddann.

Ég ætla líka að kaupa eins lítið og ég mögulega kemst upp með. Ég er hætt að nota mjólk í kaffið og ég ætla ekki að kaupa neinar jólagjafir nema mér takist að krýja út loforð um að vaskinum verði ekki skilað fyrr en ríkisstjórnin hefur sagt af sér eða verið steypt af stóli. Þetta er ekki sparnaðarráðstöfun fyrir sjálfa mig, heldur vil ég að eins litlir peningar fari í ríkiskassann og bankana og mögulegt er.

Tveggja mánaða ræðuhöld og skiltaburður hefur ekki orðið til þess að einn einasti maður segði af sér. Við þurfum að tala við þetta fólk á tungumáli sem það skilur. Ef nógu margir hætta að versla og setja peningana sína í umslög ásamt afriti af reikningum og geyma í pappakassa, þar til skipt hefur verið um ríkisstjórn og kynntar aðgerðir sem raunverulega eru til þess fallnar að forða okkur frá eignaupptöku og gjaldþroti, þá neyðast þau til að verða við kröfum okkar. Ef fólkið sem vill bara græða á daginn og grilla á kvöldin, áttar sig allt í einu á því að hvað sem kjaradómi líður, þá eru bara ekki til neinir peningar þá hljóta þau að velta því fyrir sér hvað þurfi að gerast til að fólkið fáist til að borga. Og ef svarið er ‘þið fáið ekki krónu með gati fyrr en þið hundskist heim til ykkar’, þá munu þau verða við því.

Mér er sagt að ég sé biluð. Að það eina sem ég hafi upp úr þessum aðgerðum sé gjaldþrot og að ef margir gerði þetta muni það stuðla að gjaldþroti Íslands. Alveg eins og þeir sem efndu fyrstir til verkfalla heyrðu stöðugt klifað á því að þeir myndu bara missa vinnuna og að verkfall myndi setja fyrirtækið á hausinn. Málið er bara að við höfum engu að tapa. Ef þessi ríkisstjórn með sitt ráðaleysi og þessi Seðlabanki með sitt flotkrónurugl verða hér við völd öllu lengur, þá verð ég gjaldþrota hvort sem er. Þetta er bara spurning um hvort það gerist 6 mánuðum fyrr eða síðar og hvort ég á þá einhvern sjóð til að koma undir mig löppunum aftur eða hvort ég þarf að segja mig til sveitar. Það sama gildir um Ísland og fjárhagslegt sjálfstæði þess. Vísasta leiðin til gjaldþrots er sú að hafa við stjórnvölinn fólk sem heldur að það sé endalaust hægt að græða á daginn og grilla á kvöldin, út á krít.

Við þurfum að knýja fram aðgerðir svo við getum eignast íbúirnar okkar og haldið fyrirtækjum gangandi. Við verðum að grípa til þvingunaraðgerða og það þarf að gerast strax. Ef við stöndum saman þarf ekki að taka nema einn mánuð að fá fram loforð um að fólk haldi húsnæði sínu án þess að þurfa að borga tífalt verð fyrir það, að fólk verði ekki gert gjaldþrota vegna sukkskulda Hannesar Smárasonar og að fyrirtækjum verði tryggður rekstrargrundvöllur.

Share to Facebook

One thought on “Sveltum hagkerfið

  1.  
    ——————————————————

    Ég held þessi leið mundi bara leiða af sér enn meiri hörmungar fyrir land og þjóð svo ekki sé talað um kostnað fyrir þig. Innheimtukerfi ríkisins og annara hefur ekki vankast við yfirstandandi hremmingar og ég er hræddur um að þetta endar bara sem lögfræðikostnaður fyrir þig.

    Posted by: Guðjón Viðar | 4.12.2008 | 10:00:32

    ——————————————————

    Jájá, þú telur það. Alveg alveg eins og kapítalistar og gungur um aldamótin 1900 töldu að verkföll yrðu bara til bölvunar.

    Posted by: Eva | 4.12.2008 | 10:10:22

    ——————————————————

    OK

    Posted by: garda | 4.12.2008 | 11:14:08

    ——————————————————

    Ég ætla einfaldlega bara að flytja úr landi. Eymingjalega eins og það hljómar.

    Posted by: Unnur María | 4.12.2008 | 14:35:24

    ——————————————————

    Mér finnst það ekkert eymingjalegt. Ég er sjálf að hugsa um að fara úr landi, ekki af því að ég haldi að það verði óbærilegt að lifa hér, heldur af því að ég vil ekki borga skuldir glæpamanna sem ekki er hægt að koma lögum yfir, og því vil ég ekki leggja neitt til þessa hagkerfis.

    Ég vil heldur ekki borga 100 milljónir fyrir íbúð sem ég get svo kannski selt á 20 en eins og útlitið er í dag er líklegra að ég þurfi að borga um milljarð þegar upp er staðið.

    Posted by: Eva | 4.12.2008 | 16:29:40

    ——————————————————

    Forsíða Vikunnar hefur aldrei verið glæsilegri. Tekurðu ekki Cosmopolitan næst?

    Posted by: Aðdáandi | 4.12.2008 | 16:43:23

    ——————————————————

    Ég held, án þess að ég viti það, að þetta sé hárrétt aðgerð. Ég trúi ekki að fólk ætli að borga þegjandi og hljóðalaust. Ég held að réttvísin nái fram að ganga, spurning hvernig hún fer að því, kannski ekki í gegnum rotið íslenskt réttarkerfi.

    Posted by: Kristín | 4.12.2008 | 18:18:14

    ——————————————————

    Sæl Kristín.
    Þú heldur, án þess að vita og þú trúir, án þess að trúa.
    Sæl systir. Þetta er staða okkar flestra, venjulegs fólks.
    Ég hræddur um að réttvísin sé ekki endilega okkar megin því hún er ótrúlega teygjanleg. Og teygjan er ekki í okkar höndum þessa stundina.
    Umrædd hugmynd er, samt sem áður, arfa vitlaus. Nema við viljum leggja kerfið endanlega niður og byrja upp á nýtt frá grunni. Það er á vissan hátt heillandi hugmynd, þannig litið. Ný kennitala fyrir landið, nýir samningar, ný …., nýtt… ? Ég er orðinn of gamall til að taka þátt í því en þið, yngra fólkið…. “Vær saa god!”
    kjh

    Posted by: kjh | 5.12.2008 | 21:57:06

    ——————————————————

    Frábær hugmynd !
    Hendum öllu, hættum að borga !
    Rænum Bónus í matinn, Hagkaup ef okkur vantar fatnað.
    Ef við meiðum okkur í látunum, neitum þá að borga á Slysó, ég er viss um að þau sýna þessu hugsjónastarfi skilning. Og flytjum svo úr landi !
    Vei !!!
    Komum svo aftur heim þegar við eldumst og heimtum að sjálfsögðu að samfélagið borgi undir okkur. Það er nú einu sinni samfélagið sem við börðumst fyrir árið 2008 með vel ígrunduðum mótmælum.
    Þau verða örugglega fegin að fá okkur aftur heim á elliheimilin og hjúkrunarstofnanirnar. Það vorum jú við sem mótmæltum !

    Posted by: Siðblindur | 5.12.2008 | 23:04:34

    ——————————————————

    Eins og ég hef klifað á, þá eru þetta sömu rök og rökin gegn verkföllum.

    Með því að lama samfélagið getum við knúið fram þær breytingar sem við viljum. Þetta er stríð og í stríði verður alltaf einhver skaði. Þetta stríð hefur þann kost að enginn meiðist. Sáuð þið Kastljósið í gær? Ég er næsta viss um að ríkisstjórnin og stjórnendur banka og stórfyrirtækja eru á tauginni núna.

    Siðblindur; ef enginn berst fyrir sjálfstæði okkar núna, þá verður ekkert Ísland að koma heim til. Ísland verður nýlenda, og lánardrottnar okkar verða búnir að leggja náttúru landins endanlega í rúst.

    Posted by: Eva | 5.12.2008 | 23:30:40

    ——————————————————

    Eva.
    Þú segir: Davíð burt, ríkistjórnin burt, bankarnir burt, allt kerfið burt.
    Bara til að ég fylgist með, segðu mér:
    Fyrir hverju er barist?
    Hver á að verða niðurstaða baráttunnar?
    Hver er þín framtíðarsýn, t.d. eftir 5 ár?
    Spurning að lokum: Skilgreinir þú þig sjálfa sem stjórnleysingja?
    kjh

    Posted by: kjh | 5.12.2008 | 23:44:29

    ——————————————————

    Nei, þetta er allt annar hlutur en verkföll, ekki reyna að fela þig bak við það.
    Þetta er ekki stríð. Ef þetta væri stríð þá myndi sterkari fylkingin (hernaðarlega) vinna hina og brjóta hana undir sig. Þú ert sú eina sem ert í stríði en það vill svo heppilega til að við erum ekki einu sinni með her þannig að þú færð bæði að a) valsa laus og b) stunda þinn „hernað“ óáreitt. Ef þetta væri stríð það værir þú dauð. punktur .
    Þú ert EKKI að berjast fyrir sjálfstæði Íslands. Ef þú værir að því þá værir þú ekki í bandalagi með úrtölufólkinu og auðnuleysingjunum sem sjá þann kost vænstan og flýja land, hörfa við fyrsta mótlæti og koma helst ekki aftur (nema þegar allt er orðið „gott aftur“). Það er aumingjaskapur.
    Þá værir þú í fyrsta lagi á móti ESB aðild Íslands. Sjálfstæði Íslands snýst í dag fyrst og fremst um það. Ekki hugaróra Steingríms hins steingerða VG um hinar risaeðlurnar.

    Posted by: Siðblindur | 6.12.2008 | 0:18:39

    ——————————————————

    Óvenjulegar utanaðkomandi aðstæður hafa valdið því að forsendur eru brostnar fyrir lánum fólks og því er ekki óeðlilegt að lántakendur beiti óvenjulegum aðferðum til að leiðrétta hlut sinn vegna þessara aðstæðna i.e. Force Majeure.

    Augljóslega ætla lántakendur bara að beita þessum aðferðum til að þvinga stjórnvöld til að laga ástandið annaðhvort með upptöku annars gjaldmiðils eða hámarks þaks á verðtryggingu.

    IKEA sá sig tilneydda til að breyta verði sínu í ársverðskrá vegna þessara óvenjulegu aðstæðna og þykir engum óeðlilegt.

    Þetta er einfalt, annaðhvort verða lánamál löguð eða heimilin loka!

    Posted by: Walter áður Pegasus | 6.12.2008 | 0:38:41

    ——————————————————

    Kjh.

    Ég er anarkisti já. Anarkí merkir stjórnvaldsleysi en ekki það að allt verði í upplausn og engin stjórn á nokkrum hlut. Til að anarkí gangi upp þarf mjög litlar stjórneiningar og virka þátttöku sem flestra þegna samfélagsins.

    Megin baráttumál flestra þeirra sem vilja ríkisstjórnina og bankaráð Seðlabankans burt, eru þau að koma á skynsamlegri hagstjórn, sem byggist á raunsæi en ekki gervigróða og taka fyrir þá spillingu og leynimakk sem hefur viðgengist hér. Það eru hinsvegar uppi mismunandi sjónarmið um það hvernig megi ná því markmiði.

    Mín framtíðarsýn mun ekki ná fram að ganga, vegna þess einfaldlega að Íslendingar eru upp til hópa aumingjar sem aldrei geta gert neitt af viti nema jarma upp í einhverja leiðtoga, leggjast í grenj og voðlæði í hvert sinn sem þeir þurfa að láta eitthvað á móti sér og eru í þokkabót bæði huglausir og latir.

    Það sem ég vildi helst væri að við harðneituðum að borga þessa icesave reikninga, enda hefur enginn leyfi til að gefa veð í tekjunum mínum og afkomenda minna, og ef það merkir að nágrannalöndin gefi skít í okkur, þá bara stöndum við á okkar eigin löppum. Við getum framleitt nógan mat, við eigum nóg húsnæði, rafmagn og hita og nú eru m.a.s. líkur á því að við getum unnið okkar olíu sjálf. Við yrðum fátæk jú, en við erum það hvort sem er og höfum verið lengi. Gróðinn hefur runnið í örfáa vasa en sem þjóð höfum við lifað út á krít og allt bendir til að nú eigi bara að halda því áfram.

    Posted by: Eva | 6.12.2008 | 12:36:24

    ——————————————————

    Siðblindur.

    Ef þú heldur að ég sé ein í þessu stríði þá hefur þú líklega verið í einangrun og ekki heyrt neinar fréttir í 9 vikur.

    Það er ekkert auðnuleysi að vilja ekki borga skuldir annarra og ef ég þarf að fara úr landi til að komast hjá því að greiða sukkskuldir fólks sem hefur logið, blekkt, svikið og stolið, þá geri ég það.

    Hvað í ósköpunum fær þig svo til að halda að ég sé hlynnt aðild að ESB?

    Posted by: Eva | 6.12.2008 | 12:43:26

    ——————————————————

    Eva.
    Þú ert snjöll og oftast sjálfri þér samkvæm. Skemmtilegur extrímisti og trúlega erfið í sambúð. Íslendingar eru þó ekki aumingjar, upp til hópa, þótt þeir séu værukærir og ofaldir.
    kjh

    Posted by: Anonymous | 6.12.2008 | 13:56:04

    Erfið í sambúð!

    Halló, hefurðu talað við einhverja sem hafa búið með mér? Ég er reyndar mjög þægileg í sambúð. Það er hinsvegar ekkert grín að hafa mig á móti sér.

    Posted by: Eva | 6.12.2008 | 14:37:02

    ——————————————————

    Einmitt.
    kjh

    Posted by: kjh | 6.12.2008 | 17:29:36

    ——————————————————

    jahérna.
    hvað er verið að rífast um eiginlega? persónuleika einstaklinga eða stefnu stjórnvalda?

    erum við ekki öll á sama bát??

    Posted by: sigrún | 22.12.2008 | 22:09:46

    ——————————————————

    Tjásur af moggabloggi

    Þetta er það góð hugmynd, Eva, að réttast væri að fara að hrinda henni í framkvæmd. Við stöndum einfaldlega frammi fyrir þeirri óþægilegu staðreynd, að nú verður með illu íllt út að reka.

    Jóhannes Ragnarsson, 3.12.2008 kl. 17:26

    ——————————————————

    Sæl Eva

    Úps þetta er erfið leið sem þú ert að hugleiða. Ég er heldur ekki viss um að hún skili árangri. Ástæðan er einfaldlega sú að sama hversu illa við erum stödd að þá er það í eðli okkar að hugsa fyrst um sjálfa okkur og þá sem eru okkur næstir og síðan um alla hina. Þó að myndaður yrði hópur sem tilbúinn yrði að fara í svona aðgerð að þá eru líkurnar svo miklar að einhver eða einhverjir hlaupi undan merkjum en þykist samt vera í baráttunni. Niðurstaðan gæti því orðið að þeir sem eru tryggastir og héldu sig við það sem hefði verið ákveðið, stæðu einir eftir berskjaldaðir og sviknir af hópnum og yrðu auðveldlega teknir í nefið af yfirvöldum.

    Ég er sammála þér að mótmælin og andófið hefur litlu sem engu skilað, a.m.k. ekki enn. Spurningin er hvort að áherslurnar eru réttar. Hvort að vikulegir fundir á Austurvelli séu ekki bara eins og enn einn fundurinn um áfallahjálp? Ég hef sótt þá marga og er eiginlega orðinn leiður á þeim. Finnst þetta farið að missa kraftinn og ræðurnar flestar keimlíkar. Ég er ekki viss um að þessi leið skili árangri. Það þarf eitthvað nýtt að gerast þarna. Víglínan og „átökin“ eru bara jafnfjarlæg og stríð í öðrum löndum. Við þurfum að færa átökin inn á „heimalöndin“ þeirra. Herja í návígi og á stað sem þeim er mikilvægur.

    Í þessari baráttu að þá held ég að eigi að hugsa: Hvað er það sem við getum gert til að gera „þessu fólki“ erfiðast fyrir? Hvar getum við mætt þeim þannig að þau þurfi að svara? Í mínum huga eigum við að skipuleggja baráttu þar sem ráðist er inn á stofnanir þeirra, stjórnmálaflokkana. Skipuleggja fjöldaskráningu (kostar ekki nema kr. 1.200 á ári) í Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkinguna. Færa víglínuna inn í flokkana og láta þá finna til tevatnsins á vikulegum eða hálfsmánaðar fundum. Ekkert kæmi þeim eins illa ef þeir hefðu bakland sem farið væri að heyrast frá og væri með óþægilegar spurningar sem þau þyrftu að standa skil á. Ef þetta yrði vel skipulagt og öflugt mætti hugsanlega komast á landsfundinn hjá Sjálfstæðisflokknum í janúar og knýja á um breytingar.

    Hagbarður, 3.12.2008 kl. 18:11

    ——————————————————

    Hagbarður, þetta er sniðug hugmynd en þeir sem skrá sig í Sjálfsstæðisflokkinn (reyndar þarf maður ekki að skrá sig sjálfur, þeir sjá um það með bellibrögðum), þeir losna aldrei af þeim lista. Ég hef heyrt af fólki sem hringt var í af meðlimum Heimdallar og því fólki boðið að koma og kjósa stjórn þar sem þau séu nú í sama menntaskóla eða háskóla. Fólkið sem ég þekki sagði jájá, get svo sem komið og kosið. Áður en þau vissu voru þau skráð í Sjálfsstæðisflokkinn, bara vegna þess að þau játuðu beiðni um að hjálpa skólafélögum í stjórnarkosningu. Ekkert hefur svo gengið að skrá sig úr flokknum því alls staðar mæta þau veggi, þau sem sagt fá ekki að skrá sig úr flokknum.

    Björgvin Gunnarsson, 3.12.2008 kl. 19:38

    ——————————————————

    Fyrir þá sem ekki sáu Kastljós í kvöld þá er hér linkurinn. Þar er rætt við mann sem er hættur að borga og allir útreikningar sýndir á skynsemi þess.

    Einnig þýðir það ekki endilega sjálfkrafa gjaldþrot þó sé hætt að borga nú!

    http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4431268

    Walter Ehrat, 3.12.2008 kl. 20:13

    ——————————————————

    Já, því ef ALLIR hætta að borga, þá er það engin áhætta. Það er ekki hægt að bera 70% þjóðarinnar út.

    Eva Hauksdóttir, 3.12.2008 kl. 21:18

    ——————————————————

    Við verðum að losna við þessa vitleysinga sem komu okkur í þessa stöðu og afturkalla þetta lánabetl þegar í stað. Og já, ef þarf að hleypa öllu í bál og brand til þess að vernda sjálfstæði okkar (því það munum við missa með því að setja okkur í meiri skuldir) þá verður bara að hafa það. Þau fara ekki með góðu.

    Eva Hauksdóttir, 4.12.2008 kl. 01:51

    ——————————————————

    Af hverju gerum við bara ekki eins og Tælendingar – stíflum flugstöðina þar til ásættanleg niðurstaða fæst. Ætli 1.000 mans dugi ekki til þess? Þá þarf enginn að fara á hausinn persónulega!

    Þór Jóhannesson, 4.12.2008 kl. 04:14

    ——————————————————

    „Þessir andskotar sem högnuðust í okkar ábyrgð verða vonandi látnir svara til saka á endanum.“ Því miður eru menn of hikandi enn. Sagt er vonandi … Því miður gerast hlutirnir ekki þannig af sjálfu sér. En ég held að smámsaman harðni afstaðan. Menn eru ekki farnir að upplifa kreppuna nema að hluta til.

    Hvers vegna skjálfa flestir í hnjánum við orðið „gjaldþrot“ ef átt er við persónulegt gjaldþrot? Í fyrsta lagi er það bara ljótur merkimiði, svona eins og gyðingastjarna, í þessu tilfelli til að sýna að viðkomandi sé „persona no grata“ í peningamálum og öllum sé leyfilegt að hrækja á hann. Samfélaginu er þó skilt að framfleita viðkomandi áfram og hann getur jafnvel haft það mun betra eftir gjaldþrot. Allir eiga rétt á fæði og húsnæði og einhverju örlitlu þar umfram.

    Málið er að gjaldþrota einstaklingum mun fjölga hratt og þegar þeir verða fleiri en hinir, þá gerist það skrítna. Meirihlutinn fer að horfa á þá sem eru ekki gjaldþrota með tortryggnisaugum: Bíddu við! Tók þessi þátt í svindlinu og lúrir með peninga undir koddanum?!

    Í eitt skipti enn. Einstaklingarnir og þjóðin eru að stefna í allsherjar gjaldþrot með óbreyttri stefnu. Gjaldþrot er þó bara orðaleppur til þess fallinn að halda fólki í skefjum gagnvart yfirvöldum.

    Svo eigum við alltaf eftir það úrræði að flytja burt af landinu og skilja stjórnvöld eftir. Það mætti halda að það sé eina leiðin til þess að losna við þau. Í raun eru stjórnvöld feig og atburðarásin mun verða hröð úr þessu.

    Jóhann G. Frímann, 4.12.2008 kl. 06:27

    ——————————————————

    Björgvin Gunnarsson, það er afskaplega auðvelt að skrá sig úr Sjálfstæðisflokknum. Ég gerði það t.d. þann 10 október sl., fór á skrifstofu flokksins og sagðist vilja segja mig úr flokknum ásamt því að fá það skjalfest. Mér var þá rétt lítið eyðublað (Nafn, kennitala, heimilisfang o.þ.h.) með fyrirsögninni „Úrsögn úr Sjálfstæðisflokknum“, sem ég fyllti út og fékk stimplað og undirritað af starfsmanni á floksskrifstofunni. Þetta tók örfáar mínútur og kostaði mig ekkert nema ferðina niður í Valhöll. Sama dag tók ég svo þátt í mótmælaaðgerðum við Seðlabankann, og skyldi einhver efast um frásögn mína vil ég benda viðkomandi á sjónvarpsviðtal sem tekið var við það tilefni og gerði úrsögn mína að umfjöllunarefni. 😉

    Guðmundur Ásgeirsson, 5.12.2008 kl. 13:48

    ——————————————————

    Bofs, þú ert hetja. Ég hélt að það væri ekki hægt að losna undan bölvuninni – að þetta væri eins og með vampírubitið. En fordæmi þitt er einstakt og gefur týndum sálum nýja von í þessu myrkri sem yfir okkur vomir.

    p.s. hef að vísu heyrt sögur um fólk sem telur sig hafa skráð sig úr stjórnmálaflokkum en þegar fór að draga nær kosningum fór það nú samt að fá pósta frá flokkunum með áletrun eins og „Kæri flokksfélagi“ o.sv.frv. Einnig virðast sumir flokkar taka meðlimi löngu látinna flokka eins og Alþýðubandalagsins sem sjálfkrafa meðlimi í sínum nýju flokkum. Þannig fær tengdapabbi alltaf mikið af pósti frá Samspillingunni  þar sem hann er ávarpaður flokksfélagi – fyrir hverjar kosningar – en hann þolir n.b. ekki krata – samt hefur þessi krataflokkur tekið hann eignarhaldi.

    Þannig að bíddu og sjáðu hversu „frjáls“ þú ert orðinn fram að næstu kosningum.

    Þór Jóhannesson, 5.12.2008 kl. 15:19

    ——————————————————

    Sæl Eva.  Þetta er í fyrsta skiptið sem ég er sammála þér.

    Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá þér að þá sjaldan sem ég hef kommentað á færslur hjá þér þá hef ég ekkert verið sérstaklega orðfagur en ég get ekki annað en hrósað þér fyrir þessa færslu.

    Með bestu kveðju.

    Hin Hliðin, 6.12.2008 kl. 14:04

     

Lokað er á athugasemdir.