Sóttvarnaryfirvöld eru ekki hafin yfir gagnrýni

Svo virðist sem Íslendingar hafi náð tökum á útbreiðslu kórónuveirunnar í þeim skilningi að heilbrigðiskerfið ætti ekki að lenda í samskonar hremmingum og reyndin hefur orðið á á Ítalíu og Spáni. Margt hefur verið vel gert á Íslandi. Það var frábær ákvörðun hjá sóttvarnaryfirvöldum að leggja alla áherslu á að greina smit og rekja og daglegir upplýsingafundir hafa áreiðanlega átt sinn þátt í því hversu víðtæk samstaða hefur náðst um að virða samskiptatakmarkanir. Kannski eru bestu fréttir það sem af er árinu þær að Íslensk erfðagreining lagði hönd á plóginn.

En þessi góði árangur merkir ekki að sóttvarnaryfirvöld séu fullkomin. Að sumu leyti höfum við lika verði heppin. Það skiptir miklu máli að veiran hafði ekki náð neinni dreifingu að ráði þegar fyrsta smit greindist. Það gat hinsvegar enginn vitað og samt voru teknar áhættur sem hefðu getað leitt til hörmunga.

Landlæknir talaði með talsverðum hroka um ákvarðanir nágrannaþjóða um harðar varúðaraðgerðir, sagði þær ekki byggja á neinum vísindum heldur væru það stjórnmálamenn sem væru „bara að sýna sig“ sem tækju slíkar ákvarðanir. Hún nefndi Búgaríu sérstaklega, en þar var gripið til harðra aðgerða strax við fyrstu smit. Staðreyndin er sú að mjög mikið hægðist á útbreiðslu veirunnar í þeim löndum þar sem þessir óvísindalegu pólitíkusar tóku í taumana. Í hinu hávísindalega ríki Svía æðir óværan hinsvegar áfram.

Ísland setti ekki skilyrði fyrir komu ferðamanna heldur voru það önnur ríki sem stöðvuðu ferðamannaflauminn. Þar vorum við heppin. Við skulum heldur ekki gleyma því að á Íslandi var veirunni hleypt á milli landshluta án þess að nokkuð lægi fyrir um smithlutfall og yfirvöld slógu því föstu að einkennalausir gætu ekki smitað. Nú eru íslenskir vísindamenn búnir að finna vísbendingar að einkennalausir geti verið smitberar. Þetta kemur í sjálfu sér ekki á óvart þar sem erlendir vísindamenn höfðu komist að þessari niðurstöðu nokkru áður en fyrstu smit greindust á Íslandi. Þær niðurstöður voru að engu hafðar. Við skulum vona að fyrst Ísland-best-í-heimi á vísindamenn sem eru sama sinnis verði aðgerðum framvegis háttað í samræmi við það. Gleymum því heldur ekki að sóttvarnarlæknir talaði um það í fyrstu að nauðsynlegt væri að fá eitthvað smit út í samfélagið til að mynda hjarðónæmi – þótt hann hyrfi fljótt frá hjarðónæmisstefnunni, blessunarlega.

Hversvegna vil ég endilega að fólk muni eftir öllu sem hugsanlega hefði mátt gera betur – frekar en að leggja alla áherslu á hinn frábæra árangur sem náðst hefur? Jú, það er vegna þess að þetta er ekkert búið og á meðan er ennþá hætta á að allt fari úr böndunum er nauðsynlegt að almenningur veiti yfirvöldum aðhald.

Ég hélt að hefði orðið veruleg hugarfarsbreyting hjá sóttvarnarlækni því hann hefur undanfarið talað um að það þurfi að koma í veg fyrir að veiran berist til landsins aftur og að takmarkanir verði í gildi eitthvað lengur. Ég var bara orðin nokkuð róleg og farin að einbeita mér að því að æsa mig út af nýsköpun Tegnells á sviði þjóðarmorða. En svo er heilbrigðisyfirvöldum ekki meiri alvara en svo að það á að leyfa allt að 2000 manna samkomur!  Það er eins gott að verði algerlega búið að uppræta krúnuna áður.

Share to Facebook