Saga strokuþræls – 1. hluti

Mouhamed Lo fæddist í ánauð einhversstaðar í suðurhluta Máritaníu. Hann telur líklegast að hann sé fæddur um miðjan desember 1988 en þar sem fæðingar þrælabarna eru hvergi skráðar, er útilokað að fá það staðfest. Fæðingarstofan var tjaldið sem foreldrar hans bjuggu í og fæðingalæknirinn ólæs kona sem hafði numið af móður sinni og hafði óljósa hugmynd ef þá nokkra, um nútíma lyf og lækningatól.

Engum sögum fer af því hvort húsbóndinn gladdist yfir sjálfbærni búskaparins en miðað við annan búpening eru þrælar ódýrir í Máritaníu svo við getum verið nokkuð viss um að fæðing úlfaldakálfs hefur þótt fréttnæmariMouhamed ólst upp hjá foreldrum sínum og litlu systur en foreldrum hans varð ekki fleiri barna auðið. Þau bjuggu úti í eyðimörkinni og tilheyrðu samfélagi u.þ.b. 50 þrælafjölskyldna sem héldu saman. Tjöldum var slegið upp með 1-2 km millibili og hver fjölskylda sá um hjarðir síns húsbónda. Fyrstu bernskuminningar Mouhameds snúast um vinnu en hann gekk eins og önnur þrælabörn til verka með foreldrum sínum frá frumbernsku.

Daglegt líf í þrældómi

Líf eyðimerkurþræla er erfitt. Flestir þeirra eru úlfaldahirðar og vinna karlmannanna felst í því að fylgja hjörðunum á beit og brynna þeim. Karlarnir vinna saman 4-5 í hóp ásamt sonum sínum, hver og einn ábyrgur fyrir sinni hjörð en þeir hjálpast að við að elta uppi strokudýr og útvega eldivið og hafa félagsskap hver af öðrum í hjásetunni. Konurnar sinna sauðfé og nautgripum auk matseldar, þvotta og annars heimilshalds. Vinna kvennanna útheimtir ekki síður líkamlegt erfiði en störf karla en úlfaldar eru of hættulegir til að það teljist kvenmannsverk að hirða um úlfalda og venjulega er konum hlíft við því. Ef karlmaður veikist eða deyr, þurfa konurnar þó að ganga í þeirra verk því eigandanum kemur það ekkert við hverjar aðstæður þrælanna eru, þeirra verk er að sinna skepnunum hvernig sem á stendur og vilji þeir komast hjá refsingum verða þeir bara sjálfir að finna leiðir til að komast yfir verkefni sín.

Hjá Mouhamed hófst dagurinn fyrir sólarupprás með bænahaldi og lestri Kóransins. Í birtingu hélt hann svo til vinnu ásamt föður sínum en venjulega tjaldaði fjölskyldan í1-2ja km. fjarlægð frá beitilandinu. Eitt af verkefnum Mouhameds og annarra smástráka var að fara heim um miðjan daginn og sækja mat og drykkjarvatn. Þei komu svo heim ásamt feðrum sínum um sólarlag og höfðu þá sjaldnast orku til annars en að matast áður en þei hnigu út af af þreytu.

Starf úlfaldahirðis felst aðallega í því að brynna úlföldum og hlaupa á eftir þeim þegar þeir ráfa burt frá hjörðinni. Nauðsynlegt er að hafa vakandi auga með dýrunum því ef eitthvert þeirra hverfur þarf að leita það uppi. Í eyðimörkinni eru fá kennileiti og hættulegt fyrir úlfaldahirði að fara lengra en svo að hann hafi hjörðina í augsýn því maður lifir ekki lengi einn vatnslaus í eyðimörk og ef hann villist er lífi hans hætta búin.

Vatnið fyrir úlfaldana og þvotta er sótt í brunna. Eins og gefur að skilja er það erfiðisvinna að draga upp vatnsfötur í 50°C hita en í Máritaníu hafa drengir þann starfa frá 6-7 ára aldri.  Úlfaldar geta verið vantslausir dögum saman en á heitum degi drekkur þyrstur úlfaldi allt að 200 lítrum af vatni. Vinnuálagið var því misjafnt frá degi til dags en meðalþörf hvers dýrs er 36 lítrar á dag. Eigandi Mouhameds átti um 25 úlfalda. Það voru því að jafnaði um 900 lítrar af vatni sem Mouhamed og faðir hans hjálpuðust að við að draga upp daglega. Og það er ekki aðeins erfiðisvinna að brynna úlföldum heldur hættulegt líka. Fyrir kemur að örþreytt börn steypast ofan í brunn og þá er ekkert gefið að hægt sé að bjarga þeim. Mouhamed segist hafa unnið við báðar þær gerðir af brunnum sem sjást á myndunum hér að ofan.

Um sólarlag eru dýrin bundin við staura. Kapall er þræddur í gegnum miðnesið, því þannig er sáralítil hætta á að þessi sterku dýr slíti sig laus. Dýrin eru skiljanlega ekkert hrifin af því að láta festa sig og algengt að úlfaldahirðar fái væn spörk þegar verið er að ganga frá þeim fyrir nóttina enda eru fótleggir Mouhameds örum settir.

Share to Facebook

9 thoughts on “Saga strokuþræls – 1. hluti

  1. Það er sorglegra en tárum taki að faðir hans er læs og gæti kennt honum gagnlega hluti en eyðir kunnáttunni í að læra gagnlausa hluti eins og trúarbækur. Þetta er menningin og ekkert við því að segja en sóun á hæfileikum samt. Það er vonandi að þetta fólk verði ekki fórnarlömb trúboða eins og ég hef sjálfur reynt í afskekktum byggðum Grænlands þar sem mismunandi trúarhópar etja byggðum gegn hver annarri.

  2. Takk fyrir Eva. þetta er venjulegt hjá hjá mörgum þjóðum sem traðka á mannréttindum. Spurningin er: „Hver vill breyta þessu“.
    Eru S.Þ. ekki ennþá orðin þroskuð?
    Veistu það, ég held ekki.

  3. Margir þrælar í Vestur Afríku eru reyndar fórnarlömb trúboða. Þegar fólki sem hefur alist upp við forfeðratrú er rænt og það hneppt í þrældóm í Súdan, er ungum karlmönnum gert að velja um hvort þeir vilji taka islam eða láta skera á hælsinina á sér.

  4. Allavega vill útlendingastofnun ekki leggja sitt af mörkum til mannréttinda með því að veita þessum manni hæli hér.

  5. Og ef út í það er farið þá er afar ólíklegt að faðir Mohammeds hafi nokkurntíma átt þess kost að lesa nokkurt annað rit en Kóraninn á leirtöflum, þannig að hvað átti hann að kenna honum?

  6. “ þannig að hvað átti hann að kenna honum?“

    Eins og ég sagði þá er þetta þeirra „menning“ ef hægt er að kalla. Hann hefur auðvitað ekkert val, veit ekki betur. þetta er það sem trúin gerir fólki.

Lokað er á athugasemdir.