Ríkisreknar hófsemdarbúðir?

Þetta er alveg ágætt framtak hjá Krónunni en því miður er það nú svo að nánast allar tilraunir til að stjórna neyslu almennings fara út um þúfur. Þeir sem innleiddu „nammidaga“ ætluðust til að fólk sleppti sælgætisáti hina dagana. Í staðinn varð laugardagsnammið að viðbót. Fínt að hafa þessi viðmið en ég efast um að þeir sem hingað til hafa rétt börnum sínum 400 gramma nammipoka með morgunsjónvarpinu séu neitt líklegir til að segja þeim að núna fái litla systir sem er fimm ára bara átta mola en stóri bróðir sem er átta ára fái þrjá til viðbótar.

Ég segi ekki að áróður hafi ekki einhver áhrif. Íslendingar hafa t.d. dregið verulega úr reykingum og sennilega hefur löggjöfin haft töluvert þar að segja. Þótt ég sé á móti því að skerða einstaklingsfrelsið hef ég alltaf stutt bann við reykingum á opinberum stöðum, einmitt vegna þess að frelsi hlýtur að takmarkast við rétt annarra til heilsu og velferðar. Það er öllu erfiðara að rökstyðja stjórnvaldsaðgerðir til að draga úr sykuráti og ég myndi ekki styðja slíkar hugmyndir.

Þótt ég hafi takmarkaða trú á því að gefa út leiðbeiningar um það hvað fólk eigi að borða, hef ég samt gælt við eina hugmynd sem kannski gæti gagnast þeim sem vilja taka tilsögn en eru veikir fyrir gotteríi. Það er nefnilega ekkert undarlegt að þeir sem stjórnast af bragðlaukunum fitni óhóflega á meðan freistingarnar eru allsstaðar fyrir þeim og ég kem aldrei inn í matvörubúð þar sem mögulegt er að komast í gegnum venjuleg heimilisinnkaup án þess að rekast reglulega á sælgæti, kex, snakk, ís, sætabrauð og dísæta drykki. Eina leiðin til að komast hjá því að vera minntur á það daglega hvað þetta er allt saman óskaplega gott, er sú að versla í heilsubúðum sem eru oft dýrar en selja auk þess ekki klósettpappír og ísmolapoka.  Ég velti því þessvegna fyrir mér hvort væri hægt að ná betri árangri varðandi lýðheilsu, með því að setja smá pening í ríkisreknar matvörubúðir sem byðu ekki upp á neitt það fæði sem fólk sem er að reyna að grennast ætti að forðast. Það væri jafnvel hægt að hafa nammibar sem væri bara ekkert opinn nema um helgar.

Ég held að margir myndu kjósa að nota sér svona búð, ekki bara fólk sem er að reyna að forðast of mikinn sykur sjálft, heldur líka fólk sem vill forða börnunum sínum frá þessu endalausa nammiáreiti sem þau verða fyrir í hverri einustu verslunarferð. Vandamálið er auðvitað að verðlag yrði að vera í lægri kantinum þannig að slík búð myndi sennilega ekki skila hagnaði en mætti ekki bara líta á svona búðir sem hluta af heilbrigðiskerfinu?

Share to Facebook

One thought on “Ríkisreknar hófsemdarbúðir?

Lokað er á athugasemdir.