Refsarinn skal sæta refsingu

Fyrir nokkrum árum bjó ég í fjölbýlishúsi og á hæðinni fyrir ofan mig bjó maður sem notaði hávær öskur sem uppeldisaðferð. Varla leið dagur án þess að faðirinn öskraði og barnið gréti og hefði þurft verulega skerta heyrn til að leiða það hjá sér. 

Haukur vildi að ég ‘gerði eitthvað í málinu’ og þegar ég sagði honum að ég hefði ekkert umboð til þess að stjórna á heimilum annarra eða veita tilsögn í barnauppeldi óbeðin, þá stakk hann upp á að við settum þetta í hendur barnaverndarnefndar. Ég sagði honum að það væri fráleitt. Ekkert benti til þess að barnið væri barið eða vanrækt, ekki annað að sjá en að foreldrarnir væru reglufólk, barnið var vel nært og vel klætt, mætti á leikskólann á réttum tíma og var komið í rúmið á skikkanlegum tíma á kvöldin. Það væri afskaplega ólíklegt að barnaverndarnefnd myndi líta á það sem vandamál þótt pabbinn stæði á garginu í hvert sinn sem þyrfti að aga barnið.

Haukur sagði þá við mig:
-Eftir 20 eða 30 ár, kemur þessi stelpa fram í Kastljósinu og lýsir því hvernig hún hafi alist upp í stöðugum ótta og æsingi. Og hún mun líka segja frá því að nágrannarnir hafi alveg vitað hvað var í gangi en enginn hafi skipt sér af því.

Ég verð að játa að hann kom illa við samviskuna í mér en ég gerði samt ekki neitt. Auðvitað hefði ég átt að gera eitthvað. Ég veit ekki alveg hvað en það er ekki réttlætanlegt að láta andlegt ofbeldi viðgangast þótt það sé kannski ekki af grófara taginu og þetta er ekki i eina skiptið sem ég hef brugðist barni.

Þótt ég sé almennt á móti ofbeldi er nauðsynlegt að gera greinarmun á ofbeldi og réttmætri valdbeitingu. Uppeldi er valdbeiting í sjálfu sér og það valdbeiting sem hlýtur að eiga rétt á sér. Foreldrarnir eða aðrir fullorðnir stjórna lífi barnsins oftar en ekki algerlega fyrstu árin og gefa svo barninu lausari taum eftir því sem það öðlast sjálfstæði og ábyrgð til að fara með vald og frelsi. Ég held satt að segja að fátt sé barni óhollara en að ná stjórn á foreldrum sínum og lítil manneskja með mikil völd en enga ábyrgðartilfinningu er ekki æskilegur stjórnandi.

Það er svo aftur umdeilanlegra hvaða valdbeitingaraðferðir séu æskilegar og réttlátar. Má berja börn til hlýðni? Er það árangursríkt? Árangursríkt í þeirri merkingu að barnið gegni, eða árangursríkt í þeirri merkingu að það verði færara um að axla ábyrð? Eða hvorttveggja? Og hversu lagt göngum við í því að skilgreina valdbeitingu sem refsingu? Merkja nýju barnalögin að mér beri að kæra nágranna minn fyrir að öskra á barnið?

Ég dreg ekki í efa rétt og skyldu foreldra til að aga börn sín. Ég er hinsvegar efins um nauðsyn og gildi refsinga. Ég veit ekki um neinar rannsóknir sem ég get vísað til en ef líkamlegar refsingar væru árangursrík uppeldisaðferð þá væri rökrétt að álykta að með því að flengja börn fyrir óþekkt, þá ættu þeir sem því beita að vera búnir að ná nokkuð góðum árangri um það leyti sem barnið byrjar í skóla og að þau börn sem hafa alist upp við flengingar væru almennt hlýðnari og meðfærilegri en hin. Ég sé nú ekki slíkt samhengi og ekki sé ég heldur að börn verði neitt þægari þótt sé öskrað á þau reglulega, frekar að þau hætti að taka mark á hávaða ef eitthvað er. Eins er það nokkuð athyglisvert að í dómskerfinu virðast refsingar skila afskaplega litlum árangri í þá veru að móta hegðun. Allavega eru meira en 70% þeirra sem lenda í fangelsi komnir inn aftur innan 5 ára frá því að afplánun lýkur og þá eru ótaldir þeir sem fremja afbrot og komast upp með það.

Refsing er neikvætt áreiti sem er ætlað að stöðva eða jafnvel uppræta tiltekna hegðun. Ég tel þó vafasamt að refsingar hafi raunverulega þau áhrif að uppræta hegðun hvort heldur er í barnauppeldi eða dómskerfinu. Það er allavega reynsla dómskerfisins því þegar menn skipuleggja afbrot er það ekki þyngd refsingarinnar sem þeir horfa til, heldur líkurnar á því að upp komist. Refsingar virka semsagt ekki, nema þá til að stöðva tiltekið atferli á tilteknu augnabilki heldur eru þær fyrst og fremst tæki til að ná fram hefnd. Hefnd á að mínu mati oft fullan rétt á sér en þó aðeins milli jafningja. Sá sem hefur mikið vald yfir annarri manneskju, einkum foreldri gagnvart barni og yfirvaldið gagnvart einstaklingi, á ekki siðferðilegan rétt til hefnda.

Ég er því í grundvallaratriðum sammála því að refsingar ættu ekki að vera uppeldisaðferð, heldur ætti frekar að notast við jákvæða styrkingu og brottnám umbunar ef þarf að beita þvingunaraðgerðum á annað borð. Þó geta komið upp atvik sem réttlæta ekki aðeins refsingu (í merkingunni óþægilegt áreiti), heldur útheimta beinlínis valdbeitingu sem jafnvel má flokka sem ofbeldi. Þar á ég við atvik þar sem þarf að stöðva tiltekna hegðun strax, t.d. að barnið gangi í skrokk á einhverjum. Ég held því að fyrsta grein nýrra barnalaga ‘börn eiga rétt á vernd og umönnun og skulu ekki þurfa að þola líkamlegar eða andlegar refsingar eða annars konar illa meðferð,’ haldi ekki vatni. Augljóslega er það rétt og gott sjónarmið að börn eigi ekki að þola ‘illa meðferð’ en hinsvegar má deila um hvort allar refsingar séu í öllum tilvikum endilega ill meðferð. Það er að mínu viti ill meðferð að standa á garginu í hvert sinn sem barn er órólegt eða vill ekki bursta tennurnar, því það hlýtur annaðhvort að gera barnið taugaveiklað eða ónæmt. Það er hinsvegar ekkert ill meðferð, þótt foreldri öskri á barn ef það ógnar öðru barni með bitvopni eða sýnir aðra hegðun sem getur engan vegin talist ásættanleg.

Ég er sammála anda þessara laga og hef svosem ekki verulegar áhyggjur af því að þau verði túlkuð á þann veg að börnum sé heimilt að kúga foreldra sína en ég er efins um þá stefnu að leggja refsingar og ofbeldi að jöfnu. Það sem ergir mig þó meira er að menn skuli ekki enn hafa lagt bann við tilteknu ofbeldi gagnvart börnum sem er ennþá nokkuð algengt þótt það þjóni alls ekki uppeldislegum tilgangi. Þar á ég við þann ósóma að reykja inni á heimilum barna.

Í hvert sinn sem ég viðra þá skoðun að reykingar í návist barna og annarra varnarlausra eigi að vera ólöglegar, fæ ég arfahallærisleg komment um að það verði nú nóg að gera hjá löggunni ef hún eigi að hafa eftirlit með reykingum inni á heimilum fólks. Sorrý Stína en ofbeldi er lögum samkvæmt óheimilt, sem og vanræksla á börnum og þeim lögum er ekki fylgt þannig eftir að lögreglan banki upp á í tíma og ótíma. Lög gegna nefnilega að verulegu leyti því hlutverki að móta viðhorf og staðfesta þau. Bara það að barsmíðar séu ólöglegar kemur ekki í veg fyrir þær en þegar sú skoðun er almenn að líkamsmeiðingar séu siðlausar, þá fækkar þeim sem láta hnefa skipta til að fá sínu framgengt. Það er líka stórmerkilegt með lögin að þau hafa áhrif á skoðanir, jafnvel þótt refsingum sé ekki beitt. Þetta sést t.d. glögglega á því hvernig afstaða til reykinga hefur þróast á síðustu 25 árum. Ég veit ekki til að nokkrum manni hafi verið refsað fyrir reykingar en í dag reykir fólk einfaldlega ekki á opinberum stöðum og það þykir hinn argasti dónaskapur að kveikja í sígarettu inni á heimilum annarra nema hafa til þess leyfi húsráðanda.

Barnalögin banna nú þegar ofbeldi. Það eina sem þarf að gera til að draga úr því að varnarlaus börn þurfi að búa við slíkan ófögnuð sem reykingar eru, er að skilgreina þvingaðar [óbeinar] reykingar, sem ‘gróft ofbeldi og tilefnislausa árás gegn lífi og líkama’ sem þær og eru.

Það er nokkuð kaldhæðnislegt að Alþingi sem bannar fólki að beita refsingum í uppeldisskyni, skuli samt sem áður leggja blessun sína yfir það að barni sé lógað í móðurkviði ef líkur eru á að tilvist þess muni trufla framtíðarplön móðurinnar (eða ergja þá aðstandendur hennar sem sjá fyrir sér að þurfa kannski að hlaupa undir bagga) og sætta sig við að eiturefnum sem valda lífshættulegum sjúkdómum sé þröngvað niður í lungu barna á heimilinum þeirra. Samt finnst mér írónían ná hámarki í því að í lögum sem banna refsingar skuli vera refsiákvæði til að tryggja að lögum gegn refsingum sé fylgt eftir. Það ku víst ekki teljast ‘ill meðferð’ þegar ríkið tekur að sér að refsa fólki, enda þótt það sé fullkomlega gagnslaust til annars en þess að ná fram hefnd. Hræsni forræðishyggjunnar á sér engin takmörk.

Share to Facebook

One thought on “Refsarinn skal sæta refsingu

  1. ————————————-
    Ef þú vilt afnema refsingar á vegum ríkisvaldsins, hvað ætlarðu þá að gera við glæpamenn? Láta morðingja leika lausum hala í von um að einhver „jafningi“ þeirra taki að sér að ná fram hefndum?

    Posted by: Himmi | 20.04.2009 | 14:15:02

     ————————————-

    Ég sé ekki að hjá því verði komist að taka hættulegt fólk úr umferð. En pældu samt í því að hugtakið betrunarvist er ekki til í íslenskum lögum eða reglugerðum fangelsismálastofnunar. Refsivist skal það vera þótt ekkert bendi til að refsivist uppræti glæpahneigð.

    Posted by: Eva | 20.04.2009 | 15:20:35

Lokað er á athugasemdir.