Píslarhetjan Saddam

saddam_husseinMér er öll þessi samúð með harðstjóranum, stríðsglæpamanninum og morðingjanum Saddam Hussein, gjörsamlega óskiljanleg. Og af hverju ættu múslímar að syrgja þennan viðbjóð? Nú heyrast raddir sem vilja hefja karlinn upp til skýjanna sem einhverja hetju fyrir yfirvegaða framkomu þegar hann var leiddur að gálganum. Ég hef engan heyrt dást að yfirvegun hans þegar hann lét kúga, pína og myrða saklaust fólk.

Það er auðvitað skandall að hann skuli hafa verið tekinn af lífi. Ég get ekki séð neitt sem réttlætir dauðarefsingar enda þjóna þær engum tilgangi öðrum en pólitískum og þegar aftaka er greinilega liður í viðleitni stórveldis til að leggja undir sig meira af heimsbyggðinni, drottna, kúga og arðræna, er rökrétt að reiðast.

En að gera ógeðið að píslarvætti út á það, það finnst mér flippað.

Á hverju ári er fólk tekið af lífi fyrir miklu minni sakir en viðbjóðurinn Saddam Hussein. Samkvæmt Amnesty International, voru 2148 manns líflátnir samkvæmt dómi í 22 ríkjum árið 2005. Þótt fáir Íslendingar lýsi opinberlega yfir hrifningu á dauðarefsingum fer heldur ekki mikið fyrir mótmælum eða einu sinni verulegu svekkelsi af okkar hálfu yfir öllum þessum löglegu morðum. En nú þegar þessi karlfauskur, sem hefði átt miklu verra skilið en að deyja, er líflátinn, stendur íslenskur almúgi á öndinni af hneykslun og stjórnmálamenn, biskupinn og bloggarar keppast við að fordæma aftökuna. Flest fólk sem lætur sig engu varða þótt aðrir morðingjar eða meintir morðingjar séu sviptir lífi.

Ég sé ekki að mál Saddams sé neitt sorglegra eða meira sjokkerandi en hvert annað morð sem framið er í skjóli valdsins. Ef Íslendingar væru í alvöru hneykslaðir á dauðarefsingum myndu þeir slíta öllu samstarfi við þau ríki sem leyfa þær en ekki bara fussa heima í eldhúsi.

Share to Facebook