Pacifismi/Passivismi

Ég hélt alltaf að væri töluverður munur á pacifista og passivista. Ég hélt að pacifistar gætu verið aktivistar en passivistar ekki.

Ég hef einhvernveginn komið mér upp þeirri hugmynd að pacifistar hafni öllum líkamlegum átökum, jafnvel sjálfsvörn en séu samt til í að taka þátt í beinum aðgerðum. Samkvæmt því væri Gandhi t.d. bæði pacifisti og aktivisti. Hann tók þátt í og skipulagði friðsamlegar EN ólöglegar aðgerðir og var þar með aktivisti. Hann veitti hinsvegar enga mótspyrnu þótt hann væri beittur ofbeldi, sem gerði hann að pacifista samkvæmt mínum skilningi á orðinu.

Passivisti var hinsvegar í mínum huga sá sem ekki tekur þátt í ólöglegum aðgerðum, þrátt fyrir mjög ákveðnar skoðanir. Ég hélt að passivisti gæti verið þeoristi, hann gæti t.d. fjallað um mál í fjölmiðlum og rölt Laugaveginn með mótmælaskilti, en ekki aktivisti þar sem hann vildi ekki rísa beint gegn valdhöfum. Samkvæmt því væri t.d. Ómar Ragnarsson passivisti.

Í gær lenti ég í umræðum þar sem kom fram að viðmælendur mínir álítu pacifista og passivista vera það sama. Ég hélt fyrst að um misskilning væri að ræða þar sem orðin hljóma mjög líkt en eftir að hafa skannað nokkrar netsíður komst ég að því að ég virðist ein um þessa aðgreiningu. Pacifisti og passivisti er semsé eitt og sama fyrirbærið. Nú veit ég hreinlega ekki hvort ég hef bara flanað að ályktunum út frá orðstofnunum einum saman eða hvort hugmynd mín um muninn á pacifista og passivista á sér gáfulegri rætur. Mér finnst alveg fáránlegt að kalla mann eins og Gandhi passivista þar sem orðið passívur merkir aðgerðalaus en það skiptir svosem ekki máli, aðalmálið er að fólk sé örugglega að tala sama tungumálið. Það angrar mig mun meira að kunna ekki almennilegt orð sem lýsir því sem ég hef flokkað sem passivista hingað til. Þeoristi gengur ekki þar sem þeoristar geta vel verið aktívir og líklega eru flestir aktivistar einnig þeoristar. Orðið hlýtur að vera til, það getur ekki annað verið en annaðhvort er ég með meinloku eða þá að það er ekkert mikið notað.

Ég lýsi því hér með eftir nothæfu, viðurkenndu orði yfir þá sem trúa því að það skili árangri að halda pólitískri baráttu innan ramma laganna.

Share to Facebook