Og sómi þinn líka

Vegna þess að í hjarta hvers manns býr lítill eiginhagsmunaseggur og hann er mjög fær í því að ljúga að sjálfum sér. Vegna þess að allt hefur sinn verðmiða. Vegna þess að það getur hent hvern mann að selja sál sína og sannfæringu óafvitandi. Vegna þess að flestir telja sig betri manneskjur en þeir raunverulega eru.

Vegna þess að það gerist yfirleitt ekki þannig að einhver komi til þín og bjóði þér grilljón milljónir fyrir að aðstoða við þjóðarmorð. Hún er lúmskari en svo, helvítis spillingin. Það byrjar með því að þú þegir þegar þig langar að segja eitthvað, af því að það gæti haft óþægilegar afleiðingar að styggja einhvern. Þú nennir ekki að gera úlfalda úr mýflugu ef þú veist að það getur kostað óþolandi dramatískan vinnustaðafund og leiðindamóral næstu þrjár vikurnar. Ári síðar hefurðu ekki efni á því að missa vinnuna, svo þú þegir þegar þú ættir að segja eitthvað. Og einn daginn vaknar þú með feitan starfslokasamning í höndunum. Þú ætlaðir ekki að gera neitt rangt. Og jú, þú hefðir líklega átt að segja eitthvað en það eru tvær hliðar á öllum málum og forstjórinn er vinur þinn. Þið hafið spilað skák og upplifað einhverskonar óskiljanlega nánd. Þið eruð saman í matarklúbbi og börnin ykkar eru á sama leikskóla. Hann gerði mistök, vissulega, en hann er mannlegur. Hann hefur nú lært af reynslunni og mun líka áreiðanlega bæta fyrir brotið.

Ef þú viðurkennir eigin sjálfselsku geturðu leyft þér að velta verðinu fyrir þér. Nennirðu að standa í veseni? Prófaðu að verðleggja það. Hversu há laun hefurðu? Hversu miklu máli skiptir það þig félagslega að halda starfinu? Kostar skoðun þín á einhverju sem skiptir litlu máli 382 þúsund á mánuði og hverfandi líkur á að árshátíðin snúist upp í fjölskylduharmleik? Ef þú heldur kjafti, þá er það verðið. Og það getur verið allt í lagi en það er ekki lengur allt í lagi þegar þú áttar þig á því að þú varst tældur eða kúgaður til að taka þátt í glæp fyrir skitin 382 þúsund og bros frá fólki sem þú fyrirlítur.

Þessvegna er svo hættulegt að trúa því að maður sé hjartahreinn, góð manneskja sem láti ekki spillast. Eina leiðin til að komast hjá því að láta tælast eða kúga sig, er að viðurkenna að allt hefur sinn verðmiða. Jafnvel sannfæring þín hefur sinn verðmiða. Og sómi þinn líka.

Share to Facebook

One thought on “Og sómi þinn líka

  1. ——————————————-

    Góður pistill og alveg örugglega mjög sannur.

    Posted by: hildigunnur | 28.02.2009 | 8:40:36

    ——————————————-

    Mer finnst thad alltaf gott sem bandariski varnarmalaradherran, Robert Mcnamara sagdi eitt sitt um thetta malefni : „If you¨ve got them by the balls, their hearts and minds will follow“

    Posted by: GVV | 28.02.2009 | 9:49:50

Lokað er á athugasemdir.