Nýja Samfó í gömlum nærbuxum

screen-shot-2016-05-16-at-09-24-21-688x451

Samfylkingin er að spá í að bjarga lífi sínu með því að skipta um nafn og merki. Eða a.m.k. eru Magnús Orri Schram og Ágúst Ólafur Ágústsson að spá í það. Ekki bara með því að skipta um nafn og merki reyndar, það þarf líka að bjóða upp á ferskt blóð. Ferska blóðið á víst að sækja til Bjartrar Framsóknar, Viðreisnar og flokka sem fleiri en fimmtíu hræður utan nánasta vinahóps flokksmanna  geta hugsað sér að kjósa. Sniðugt trix.

Því er reyndar ósvarað hvers vegna í ósköpunum flokksmenn VG ættu að hafa áhuga á því að yfirgefa hreyfingu með vaxandi fylgi og ganga til liðs við sökkvandi skip. Ef eru á annað borð einhverjir eldheitir Evrópusinnar í VG, þá væri í það minnsta reynandi að berjast fyrir þeim málstað innan flokksins. Það er ekki eins og hollusta við prinsipp hafi háð VG í stjórnarskrármálinu, stóriðjumálum, náttúruvernd eða kvótamálum svo það er varla fullreynt að troða fleiri hægri málum og hugsanlega ESB inn í stefnuna.

Enn óskiljanlegra er á hverju menn byggja þá hugmynd að Nýja Samfó geti sótt sér atgervisfólk úr röðum Pírata. Ef einhversstaðar býðst tækifæri til að hafa áhrif á stefnu stjórnmálaflokks, þá er það í Píratapartíinu. Þeir píratar sem aðhyllast hægri jafnaðarstefnu eru miklu líklegri til að koma þeim málum áleiðis með því að vinna að þeim innan hreyfingar sem virðist a.m.k. eiga möguleika á að lenda í ríkisstjórn en með því að ganga í hálfdauðan flokk með nýju nafni.

Það hallærislegasta við björgunarplanið er þó sú hugmynd að taka upp hið gamla merki Alþýðuflokksins – rósina. Það breytir engu þótt rósin sé alþjóðlegt merki jafnaðarmanna, því hún er um leið tákn þess margklofna flokks sem ætlaði einmitt að sameina jafnaðarmenn undir nafni og merki Samfylkingarinnar – en mistókst.

Í fréttum af væntanlegri björgun Samfylkingarinnar hefur lítið farið fyrir umfjöllun um það hvað eigi að gera öðruvísi en síðustu árin. Ágúst Ólafur virðist þó í það minnsta þeirrar skoðunar að það væri vert að hugsa upp einhverjar nýjar áherslur eða vinnubrögð því hann segir það enga töfralausn að Samfylkingin skipti um nafn. Það mun rétt vera, sennilega yrði það álíka áhrifaríkt og að fara í hreinar nærbuxur utan yfir þessar með bremsufarinu. Það bara virkar ekki og því síður þegar nýja spjörin er í raun gömul og sjúskuð dula – ekki einusinni þótt hún sé nýþvegin og haganlega bróderuð með rósum.

Share to Facebook