Nillinn er ekki að fara að hringja í þig

Hvernig er símaskrá ritstýrt? Snýst það um að ákveða leturstærð eða það hvort skyndihjálparsíðurnar eru fremst eða aftast í skránni? Eru ennþá skyndihjálparsíður í símaskránni? Ég veit það ekki enda þarf ég ekki að safna pappírsbunkum á tímum internetsins.

Nú finnst mér bara gott mál að fólk mótmæli hverju því sem fer í taugarnar á því en í umræðunni um nauðsyn þess að koma þessu símaskrárskoffini á atvinnuleysisbætur, er öll áherslan á það að hann hafi skrifað eitthvert ógeð um feminista. Það er eins og málið snúist um hefnd, frekar en gagnrýni á þá ömurlegu yfirborðsmennsku sem einkennir þennan menningarkima sem hann tilheyrir. Menningu þar sem allt virðist ganga út á að safna vöðvum og „banga chicks“. Menningu þar sem umhyggja fyrir lítilmagnanum er ekki á dagskrá. Þar sem fólk er metið eftir útlitinu og einhverjum settum töffarastandard. Þar sem lífið snýst um tískuna og djammið. Er ástæða til að bregðast við því? Fokk já! Við þurfum fólk sem hefur áhuga á fleiru en útliti og djammi. En er það að skrá sig úr símaskránni líklegt til að vekja þennan hóp til vitundar um mikilvæga hluti?

Ég er ekkert að biðja fólk að mótmæla ekki sóðaskrifum um feminista en í alvöru talað, haldið þið að það nái eyrum hnakkanna þótt fólk af allt öðrum heimi taki nafn sitt úr símaskránni? Haldið þið kannski að Nilli sé að hugsa um að hringja í ykkur á milli þess sem hann bangar chicks?

Nei þið haldið það ekki og í alvöru talað, það er ekki þessi últrahallærislega bangachicks-menning sem ofbýður fólki, heldur það að sprelligosakóngurinn „sjálfur Gillz“ hefur móðgað feminista.

Share to Facebook

One thought on “Nillinn er ekki að fara að hringja í þig

  1. Bakvísun: En ég mun samt ekki ræða Erp á feminiskum forsendum | Pistlar Evu

Lokað er á athugasemdir.