Lýðræðið er pulsa

Fyrir nokkrum vikum setti listamaður upp á Háskólatorgi verk sem lýsir eðli þess lýðræðis sem við búum við.Þetta er myndband sem sýnir fólk að borða pylsur. Þú mátt velja hvaða meðlæti þú færð með pylsunni þinni af því að þú ert svo rosalega frjáls. Pylsan/pulsan er samt sem áður það eina sem er í boði. Þú horfir á pylsugerð og fólk borða pylsur svo lengi að þú kemst að raun um að hvorugt sé sérlega geðslegt, hvað þá skemmtilegt.

Að lokum kemur stúlka sem hafnar pylsunni. Hún biður ekki einu sinni um neitt annað, hún vill bara EKKI pylsu. Pylsunni er samt sem áður troðið ofan í hana með ofbeldi. Öllu meðlætinu er klínt yfr hana líka. Í lokin er svo karlmanni nauðgað, einmitt með pylsu.

Þetta er lýðræðið okkar. Ef þú kemst að þeirri niðurstöðu að þú viljir bara ekki pylsuna, hvaða meðlæti sem er í boði, þá hefurðu enga möguleika á að hafa áhrif á það hvernig landinu er stjórnað. Jafnvel þótt þú viljir fara í framboð, þá ertu bundinn af kerfinu, þú verður ekkert annað en enn ein sósan á pylsuna.

Sá sem vill ekki stjórnhætti sem einkennast af því að nokkrir tugir manna hreyti daglangt orðunum ‘háttvirtur þingmaður’ og ‘hæstvirtur ráðherra’ hver í annan í viðleitni sinni til að viðhalda valdapýramída þar sem stórfyrirtæki (og kannski lífeyrissjóðir) tróna efst, lögum og dómskerfi sem er sniðið til að viðhalda valdi hinna ríkustu og fjármálakerfi sem gerir ríkum auðveldara að auðgast æ meir á kostnað þeirra sem síst geta borið hönd yfir höfuð sér, getur alveg eins verið án kosningaréttar. Auðir seðlar og ógildir hafa engin áhrif, það er alveg eins hægt að sitja heima. Ef þú kýst skársta kostinn, þá færðu samt sem áður pulsuna sem þú hefur svo mikið ógeð á og ef þú kýst ekki færðu hana líka.

Það er engin lögleg leið fram hjá þessu. Eina rökrétta svarið er því að mótmæla þessu fyrirkomulagi, t.d. með því að neyta atkvæðisréttar síns í bókstaflegri merkingu, þ.e. að éta hann ofan í sig, eins og hverja aðra pylsu. Ég er ekkert viss um að það fari vel með mann að neyta kjörseðla en með hæfilegu magni af remúlaði ætti hann að ganga niður. Hann getur allavega ekki verið tormeltari en þrasið og froðusnakkið sem störf Alþingis einkennast af.

Lýðræðið er pulsa.

mbl.is Margir ætla að skila auðu
Share to Facebook

One thought on “Lýðræðið er pulsa

  1. —————————————————————–

    Lýðræðið er best með steiktum lauk og tómatsósu.

    Bragi Þór Valsson (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 15:35

    —————————————————————–

    Þeir sem ekki vilja pulsu … verða þá að ákveða hvað þeir vilja borða, safnast saman og bjóða hinum að borða með sér nýjan rétt. Ef nógu margir vilja það þá verður breyting á matseðlinum annars ekki. Það er ekki nóg að tuða, berja, öskra og garga. Það þarf líka að gera, gera meira, og meira, þar til það tekst … ef breyting á að eiga sér stað. Og þeir sem vilja breytingar, bera ábyrgð á að koma þeim á. Það er ekki nóg að öskra á þá sem ekki vilja breyta. Þeir eru að gera það sem þeir vilja og hafa til þess völdin sem þeim voru fengin af fólkinu. Ef fólkið vill taka þess völd af þeim þá er hægt að gera það eftir settum leikreglum. það tekur tíma, krafta, blóð, svita og tár og mikla vinnu. Og mikið af fólki sem er sammála um breytingarnar og sammála um að gera það sem þarf að gera til að breyta. Hættið að öskra á vindinn … honum lægir ekki við það. Það er miklu betra að setja undir sig hausinn, húfuna á höfuðið og ganga í gegn um stormin þar til takmarkinu er náð. En það þarf líka að vera kýrskýrt takmark sameiginlegt næginlega stórs hóps til að breytingar eigi sér stað. Það tilbúinn til að gera það sem þarf að gera, aðrir en þeir sem eru í boði.

    gp (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 16:35

    —————————————————————–

    Skil þig. Miðað við þetta kerfi sem við búum við – eigum við samt möguleika á bestu niðurstöðunni þ.e. vinstri stjórn sósíal demókrata og vinstri grænna. Það hlýtur að vera betra en það sem á undan hefur gengið. Held samt að útlitið sé svart framundan. þetta er samt best útkoman miðað við.. Svo megum við ekki hætta… við höfum áhrif

    kulan (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 18:07

    —————————————————————–

    Fólk er ekki að skilja það, að við erum innmaturinn, við erum görnin, sem að heila helvítis klabbið er steypt í. Fögnum þeim degi, er úrgangur okkar verður til framhaldslífs en ekki rotnunar og eilífs dauða.

    Ásgeir Kristinn Lárusson, 22.4.2009 kl. 21:52

    —————————————————————–

    GP, fyrir nokkrum vikum voru þeir alveg nógu margir sem vildu stjórnlagaþing og/eða persónukjör. Flokkarnir sögðu nei en í stað þess að rísa gegn þeim og gera, gera meira og halda áfram þar til það tekst, ætlar almenningur nú að láta þröngva ónýtu kerfi upp á sig eina ferðina enn.

    Sá árangur sem þó hefur náðst, náðist ekki eftir settum leikreglum (sem hver setti, þú kannski? ekki setti ég þær svo mikið er víst) heldur með uppreisn; viku af samfelldu pólitísku lögbroti.

    Það er enginn tilgangur í því að bjóða upp á aðra rétti (eins og t.d. anarkistahreyfingin er að gera) á meðan pulsunni er troðið ofan í hvert einasta mannsbarn. Enn síður á meðan mannsbarnið tekur bara við pylsunni, brosandi og velur illskársta meðlætið af því að það vill fyrir alla muni vera með í partýinu hvað sem það kostar.

    Eva Hauksdóttir, 23.4.2009 kl. 07:47

    —————————————————————–

    Grétar og Pétur, ég skýri hugmyndir mínar um Borgarhreyfinguna hér.

    Pétur, allar mótmælaaðgerðir fá á sig þann stimpli að vera kjánalegar, máttlausar, tilgangslausar, yfirgangssamar, öfgafullar eða jafnvel þetta allt. Hvar værum við ef allir hlypu á eftir þeim skoðunum?

    Kulan, besta niðurstaðan er sú að horfið verði frá fulltrúalýðræðinu og þátttökulýðræði tekið upp í staðinn. Ég veit ekki hvaða ósköp þurfa að ganga á svo fólki átti sig á því. Ekki virðist fullkomið hrun efnahagskerfisins duga til.

    Ásgeir; akkúrat.

    Eva Hauksdóttir, 23.4.2009 kl. 09:25

Lokað er á athugasemdir.