Lögfest mannréttindabrot

Enda þótt alþjóðlegir mannréttindasáttmálar tryggi rétt flóttamanna til að bjarga lífi sínu með því að villa á sér heimildir á meðan þeir eru að komast í öruggt skjól, skirrast íslensk stjórnvöld aldrei við að þverbrjóta þessi sjálfsögðu mannréttindi. Svo langt gengur viðbjóðurinn að þrátt fyrir að gæsluvarðhaldi megi aðeins beita þegar hætta er á að glæpamaður spilli rannsókn máls eða vegna þess að hann er álitinn hættulegur, er í lögum sérákvæði um útlendinga sem talið er að villi á sér heimlidir. (Sjá útlendingalögin 5. kafla, 29.grein.)

Þessum rökum, semsé maðurinn er fokkans útlendingur, hefur væntanlega verið beitt í þessu tilviki en því miður þá er ekki hægt að flokka þetta atvik sem neitt sérstakt, þetta er VENJULEG vinnubrögð lögreglunnar gagnvart fólki sem er á flótta til að bjarga lífi sínu eða forðast pyntingar, þrældóm og aðra ómannúðlega meðferð í heimalandi sínu.

Þessi grimmdaráð gagnvart fólki sem hvergi á höfði sínu að halla, kallast kaldhæðnislega á við þá meðferð sem fórnarlömb kynferðisbrota gátu reiknað með í Evrópu á miðöldum, þegar þótti við hæfi að refsa konum fyrir skírlífisbrot ef þeim var nauðgað. Lögin viðurkenndu auvitað ekki nauðganir en þar sem hinni svívirtu konu var gert að afsanna sök sína, gat niðurstaðan hæglega orðið sú að henni var refsað.

Það sama á við um flóttamenn í dag. Íslensk lög viðurkenna ekki rétt yfirvalda í öðrum ríkjum til að skerða tjáningarfrelsi ofsækja þá sem gagnrýna þau, fangelsa fólk án dóms, gera börn að hermönnum, halda hlífiskildi yfir þrælahöldurum, misþyrma föngum eða drepa fólk vegna skoðana sinna. Engu að síður heimta íslensk lög að þeir sem leita skjóls til að komast hjá því að sæta slíkri meðferð, færi tafarlausar sönnur á mál sitt. Annars eru þeir hnepptir í gæsluvarðhald, sem er grimmilegri refsing en flestir gera sér grein fyrir, þ.e. fangelsi án þess að sekt sé sönnuð og er gagnvart öllu öðru fólki álitið algert neyðarúrræði.

Íslendingar telja sig siðmenntaða þjóð en réttarkerfið kemur heldur betur upp um þá kynþáttahyggju sem þessi forneskjulegu lög bera vott um. Mannréttindi eru fyrir hina ríku, hvítu og vel tengdu. Þeir fátæku, veiku og ofsóttu skipta ekki máli. Og það kaldhæðnislegasta af öllu er að það rasistapakk sem skrifaði lögin og staðfesti þau, þykist öðru fólki merkilegra fyrir að byggja lög sín og réttarkerfi á kristilegu siðferði.

Share to Facebook