Lagði smábörn í veg vinnuvéla

Samarendra Das heimsótti mig í morgun. Við spjölluðum lengi saman og hann sýndi mér heimildamynd sem hann gerði um ástandið í Orissa.

Samarendra er sjálfur frá Orissa og það er frábært að fá upplýsingar frá fyrstu hendi. Í myndinni er t.d. sýnt hvernig fólk sem hefur misst beitilönd fyrir búfénað og ræktarlönd, dregur fram lífið með því að ferðast hátt upp í fjöll og höggva sundur harðan jarðveg til þess að grafa upp rætur.  Við sjáum eitraða rauðleðjupytta þar sem áður þreifst líf í tjörnum og svifrykið sem sest yfir það litla ræktarland sem eftir er og spillir neysluvatni. Eitt myndskeiðið sýnir fólk í mótmælasetu á landi sem á að taka frá því til þess að dótturfyrirtæki Alcan geti orðið enn ríkara, voldugra og ógeðslegra en það er í dag. Þegar fólkið færir sig ekki, kemur löggan og lemur það með löngum bambusprikum. Ég vissi ekki fyrr að það væru til myndir af því.

Viðtöl við heimamenn eru sláandi. Eitt þeirra er við ungan mann sem segir að það sé vonlaust að frá fram svör um það hversu mikið báxít eigi að taka og hvort framkvæmdir muni standa í 5 ár, 9 ár eða 25 ár. Það er bara ekki vandamál Alcan hversu margar kynslóðir þurfa að svelta þeirra vegna. Eitt viðtalið stakk mig sérstaklega en þar er það gamall maður sem segir frá. Hann er hágrátandi og sýnir líkama sinn þakinn marblettum eftir barsmíðar lögreglunnar sem óð inn á heimili hans til að láta hann vita hvaða afleiðingar það geti haft að mótmæla því að fólk sé rekið burt af heimilum sínum. Annað viðtal sem vert er að nefna er við konu sem í örvæntingu sinni lagði smábörn í veg fyrir vinnuvélar og tókst þannig a.m.k. að fresta framkvæmdum. Hún skýrir tiltækið á þann veg að ef hún hefði bara lagst fyrir þær sjálf hefðu þeir líklega drepið sig en verði landið tekið þá bíði fjölskyldunnar ekkert nema hungurdauði hvort sem er.

En þetta kemur okkur nú ekki við eða hvað? Starfsmenn Alcan á Íslandi fá nefnilega alltaf svo ágæta jólagjöf frá fyrirtækinu. Og svo verðum við líka að átta okkur á því að ef við bjóðum ekki fyrirtæki sem pína og svelta einhverja vesalinga á Indlandi velkomin, þá þurfum við öll að flytja í torfkofa og leggjast á fjallagrasabeit úti í móa, alveg eins og við gerðum árið 1966 þegar ekkert álver var á Íslandi.

 

Share to Facebook

One thought on “Lagði smábörn í veg vinnuvéla

  1. ——————————–

    Takk fyrir þessa færslu. Það er nauðsynlegt að sjá heiminn í samhengi og finna til sameiginlegrar ábyrgðar gagnvart honum. Það er svo merkilegt við þessa álumræðu alla að fæstir vilja horfast í augu við að við fáum báxítið einhversstaðar frá. Það er eins og fólk haldi að álið sé unnið beint úr álfjöllum og fari svo beint í að búa til bjórdósir fyrir Egils malt og appelsín.

    Skilaðu kveðju til Samarendra frá mér ef þú heyrir í honum áður en hann fer. Ég veit ekki hvort að við náum að hittast. Hann lumar á gagnlegum upplýsingum um ál- báxíð ástandið í Tíbet sem fæstir vita um.

    Birgitta Jónsdóttir, 27.7.2008 kl. 14:27

    ——————————–

    Eva; Tilvitnun úr pistli þínum: „Annað viðtal sem vert er að nefna er við konu sem í örvæntingu sinni lagði smábörn í veg fyrir vinnuvélar og tókst þannig a.m.k. að fresta framkvæmdum. Hún skýrir tiltækið á þann veg að ef hún hefði bara lagst fyrir þær sjálf hefðu þeir líklega drepið sig en verði landið tekið þá bíði fjölskyldunnar ekkert nema hungurdauði hvort sem er.“

    Hver er munurinn á „að drepa börn“ eða „leggja börn fyrir vinnuvélar […….] þá bíði fjölskyldunnar ekkart nema dauðinn hvort sem er.“

    Má ég skilja sem svo að þú, Eva, sért að réttlæta þessa gjörð konunnar að leggja börn fyrir vinnuvlelar sem voru á ferð?  Ef svo er, má ég minna þig á pistilinn þinn góða frá því í gær (26.7.2008).  Er þú þá ekki mikið á öndverðum meiði við sjálfa þig?

    Er þetta ekki vísvitandi að gera börn að byssufóðri?

    Kær kveðja, Björn bóndi   LMN=

    Sigurbjörn Friðriksson, 27.7.2008 kl. 14:46

    ——————————–

    Björn bóndi: Hvað myndir þú gera ef þú hefðir val um að horfa upp á börnin þín deyja úr hungri eða að reyna að forða þeim frá hungurdauða með því að taka áhættuna á því að vinnuvél valtaði yfir alla fjölskylduna?

    Eva Hauksdóttir, 27.7.2008 kl. 17:36

    ——————————–

    Ég myndi ekki fleygja kornabarninu mínu fyrir valtandi vinnuvél í þeirri von að stjórnandi vinnuvélarinnar hefði stærra hjarta og meiri hlýhug til barnsins en ég sjálfur!

    Útburður á kornabörnum var viðhafður í heiðni en lagður af við siðaskiptin.  Dæmi í Evrópu, Asíu, Afríku og víðar um mæður kornabarna á síðustu öld og þessari öld, sem hafa skilið þau eftir nýfædd í ruslagámum (e.t.v., til að forða þeim frá hungurdauða seinna meir?!?) hefur verið fordæmd án undantekninga. Undantekning; E.t.v., núna af þér.

    Foreldri, móðir eða faðir gerir allt annað en að fórna lífi kornabarnsins síns fyrir eigin hagsmuni, svo sem fyrir mat.  Ég meina vel, Eva, ef ég ráðlegg þér að leita læknisfræðilegrar aðstoðar varðandi þennan hugsunargang.

    Kær kveðja, Björn bóndi   LMN=

    Sigurbjörn Friðriksson, 27.7.2008 kl. 18:10

    ——————————–

    Eva takk fyrir að sýna mér í eitt skipti fyrir öll hvað þessi samtök eru vitlaus.

    Skattborgari, 27.7.2008 kl. 19:05

    Ég vona þín vegna að þú eigir engin börn, ef þetta væri sú ást sem þú bærir til þeirra. Ef þú átt börn vona ég þín vegna að þau séu ekki læs. Ef einhver sómatilfinning leynist í brengluðum kolli þínum þá ættir þú að fjarlægja þessa færslu.

    Axel Jóhann Hallgrímsson, 27.7.2008 kl. 19:05

    ——————————–

    Látiði ekki svona félagar, Eva er ekkert að mæla með því að fólk leggi börn sín fyrir vinnuvélar heldur er hún að reyna að lýsa ákveðnum veruleika í ákveðnu umhverfi. Til að geta skilið það þurfum við að reyna að setja okkur í spor þessa örvæntingarfulla fólks sem að sjálfsögðu er erfitt þar sem við sitjum í paradís á jörðu hérna á klakanum. Svo var sagt áður fyrr að andinn kæmi frekar yfir hungruð skáld en þau sem lifðu í vellystingum og að sjálfsögðu sáu menn á launum um að hanna veraldarsöguna í þágu hagsmuna launagreiðendanna. Sama er að segja um ruslveitur nútímans (sem aðeins ritstjórar þeirra kalla lengur því hátíðlega nafni fjölmiðla). En mýturnar hrynja á endanum enda samkvæmt skilgreiningu allsendis ómögulegt að sanna ósanna hluti.

    Það er annars fremur langsótt hugmynd að kona leggi barn sitt fyrir vinnuvél og lyktar dálítið af einhvers konar tilfinningaáróðri. Málstaðurinn getur hins vegar verið allra gjalda góður þrátt fyrir það. Kannski er þetta próvókasjón einmitt ætluð til að vekja athygli á málstaðnum. Ég bara veit það ekki. Hins vegar veit ég að Bechtel og Alcoa hafa langa og ógeðslega sögu að baki og studdu Bush dyggilega til valda og vinátta Bush og Dabba er alkunn og Impregilo er ógeðslegur hryllingur frá Ítalíu sem er nátengdur Berlusconi og það laðast ávallt saman sem deilir sameiginlegum gildum og hugmyndafræði og siðferði og Dabbi át úr lófanum á þessum Berlusconi og orkuverðið var ríkisleyndarmál enda hlægilegur brandari í bullandi seljendamarkaði á orku og byrjandi á fyrsta degi í lögregluskólanum ætti að geta séð hvernig þessi vinamafía stórfyrirtækja og pólitískra eigna þeirra virkar.

    Baldur Fjölnisson, 27.7.2008 kl. 20:39

    ——————————–

    Þið sem dæmið þessa konu (og mig fyrir að líta ekki á hana sem djöful):

    -Mynduð þið horfa upp á einhvern taka frá ykkur eina möguleikann sem þið hefðuð á því að halda lífinu í börnunum ykkar?

    -Ef þið ættuð þá einu kosti í stöðunni að stofna þeim í hættu í von um að bjarga þeim, mynduð þið þá frekar velja þeim hungurdauða?

    -Af hverju svarið þið ekki spurningunni í stað þess að predika? Er það kannski ekkert svona augljóst hvað þið mynduð gera?

    Fólk setur börnin sín í vísvitnandi lífshættu á hverjum einasta degi, í von um að bjarga þeim. Venjulega tengjum við það læknismeðferð og höfum fullan skilning á því. Ef barn er með sjúkdóm sem miklar líkur eru á að dragi það til dauða, velur fólk að láta barnið gangast undir aðgerð sem eru 50% möguleikar á að verði því að aldurstila. Þetta skilja allir. Þegar hinsvegar fólk sem við sjáum ekki, heyrum ekki í og fréttum nánast aldrei af, gerir það sama gagnvart barni sem mun annars svelta (ólíkt sjúkdómum þá dregur svelti fólk alltaf til dauða) þá geta Íslendingar, sem hafa aldrei þurft að vera svangir lengur en tvo tíma í senn (og þá getað valið um 7 rétti og meðlæti) leyft sér að vera með vandlætingar.

    Skammist ykkar barasta.

    Eva Hauksdóttir, 27.7.2008 kl. 22:37

    ——————————–

    Þú ert semsagt að segja að það sé sambærilegt að fleygja barni fyrir jarðýtu, eins og að gefa því insúlín væri það sykursjúkt?

    Ef valið væri á milli þess að henda sjálfri mér fyrir jarðýtu, eða að fleygja barninu mínu þangað, í von um að bjarga því. Myndi ég hispurlaust fleygja sjálfri mér þangað. Það er alveg sama hvað stríð er verið að heyja og hvaða baráttum fólk á í, börn eiga ekki sinn stað þar. Þau þjást jú e.t.v. líkt og hinir, en þýðir það að það sé réttlætanlegt að fleygja því í aðkomandi umferð?

    Svo segir þú að íslendingar þurfi aldrei að líða hungur eða svelti, en það er bara rangt. Kannski ættir þú að fylgjast aðeins með hlutunum hérna heima og gera þitt til að breyta þeim til batnaðar, því fólk sveltur hér líka útaf græðgi annarra. En ég sé engan fleygja kornabörnum útí djúpulaugina, í von um að kenna þeim að synda.

    Ef ég ætti þess kost að bjarga barni mínu frá hungurdauða, með því að fleygja því fyrir jarðýtu og krossa fingur fyrir því að bílstjórinn hataði það aðeins minna en sjálfa mig myndi ég ekki gera það. Og ef þú sérð ekki þessa rökvillu sem reynt hefur verið að benda þér á, er eitthvað mikið að..

    Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 27.7.2008 kl. 23:48

    ——————————–

    Segjum sem svo að ég væri alvarlega ruglaður einstaklingur með alltof mikil völd og hefði sérstakan áhuga á atferlisfræði  og félagsvísindum. Þá myndi ég sjálfsagt  prófa að setja fólk í vatnsþéttan tank, bæði börn og fullorðna og síðan dæla vatni í tankinn og þetta myndi ávallt fara á sama veg; fólkið myndi berjast við að halda börnunum upp úr vatnsborðinu eins lengi og hægt væri en stæði á endanum steindautt í tankinum – á börnunum. Mér þykir rosalega leitt að geta ekki verið meira pólitískt korrekt hvað þetta varðar.

    Baldur Fjölnisson, 28.7.2008 kl. 00:03

    ——————————–

    Eva Hauksdóttir: Nei Ingibjörg, ég hef ekki sagt að það sé sambærilegt að fleygja barni í veg fyrir vinnuvél og að gefa því insúlín. Það er ekki mikil áhætta fólgin í því að gefa sykursjúku barni insúlín en það getur hinsvegar verið mikil áhætta fólgin í hjarta- eða heilaaðgerð. Aldrei hef ég þó heyrt nokkurn mann dæma foreldra fyrir að taka slíka áhættu, fremur en að láta barnið veslast upp.

    Konan settist sjálf fyrir framan vinnuvélina en lagði börnin sín þar líka. (Fleygði þeim ekki í aðkomandi umferð). Hún treysti því ekki að það væri nóg að hún færi í veg fyrir vélina ein.

    Það er vissulega fólk á Íslandi sem á erfitt en hafi fólk farist úr hungurdauða þá hafa þær fréttir ekki farið hátt. Og ekki hef ég trú á að þeir sem leyfa sér að hrauna yfir öreiga sem grípa til slíkra örþrifaráða, hafi minnsta skilning á hungri.

    „Ef ég ætti þess kost að bjarga barni mínu frá hungurdauða, með því að fleygja því fyrir jarðýtu og krossa fingur fyrir því að bílstjórinn hataði það aðeins minna en sjálfa mig myndi ég ekki gera það.“

    -Þú átt semsagt við að þú myndir frekar kjósa barni þínu hungurdauða en að treysta á mennsku ýtustjórans? Og ég sem hélt að ég hefði litla trú á manngæskunni.

    -Hér er engin rökvilla á ferð. Þótt örvænting leiði oft af sér órökréttar ákvarðanir, þá er ekki svo í þessu tilviki. Rökleiðslan gengur þvert á móti fullkomlega upp, eða getur einhver bent mér á hvar villan liggur?

    1. Hvað á að gera? Forsendur:

    -Barn sem fær ekki mat mun örugglega deyja úr hungri.

    -Barn sem missir móður sína mun ekki fá mat og þessvegna deyja úr hungri.

    -Móðir sem hefur enga afkomumöguleika mun ekki útvega barni sínu mat, það mun því deyja úr hungri.

    -Eina leiðin til að hindra að barnið deyi er að móðurinni takist að verja afkomumöguleika sína.

    Niðurstaða: Samkvæmt þessu hlýtur að teljast rökrétt að verja afkomumöguleika fjölskyldunnar, með öllum ráðum.

    2. Hvernig á að gera það? Forsendur.

    -Engin mótmæli eða þrábeiðni hefur skilað árangri.

    -Engin vopn eru tiltæk og engar hindranir aðrar en líkamar fjölskyldunnar.

    -Fullorðnir sem hafa gengið í veg fyrir vinnuvélar hafa í nokkrum tilvikum verið drepnir.

    -Ekki er vitað til að stjórnendur vinnuvéla hafi valtað yfir börn.

    Niðurstaða: Möguleikarnir á að halda lífi aukast ef börnin eru sett í veg fyrir vélina.

    Eva Hauksdóttir, 28.7.2008 kl. 00:57

    ——————————–

    Rökin eru semsagt þessi:  Þessi aðgerð konunnar var í lagi af því að börnin hefðu sennilega (hugsanlega) dáið hvort sem er.  Og þér finnst ekkert að þessu?

    Eva, það er eitthvað að þér.

    Hin Hliðin, 28.7.2008 kl. 08:18

    ——————————–

    Ég hef alltaf álitið að fólkið í Saving Iceland sé ruglað þetta sannar það í eitt skptii fyrir öll.

    Skattborgari, 28.7.2008 kl. 08:53

    ——————————–

    Rökin eru þau að þegar fólk stendur frammi fyrir afarkostum þá er ekki sanngjarnt að dæma það fyrir að velja þann sem felur í sér einhverja von. Og það er ekkert sennilegt eða hugsanlegt við að barn sem fær ekki mat deyi, það er einfaldlega öruggt.

    Hvað myndir þú gera í þessari aðstöðu? Af hverju eiga þeir sem þykjast hafa efni á því að vera með þessa vandlætingu svona erfitt með að svara þeirri spurningu?

    Eva Hauksdóttir, 28.7.2008 kl. 09:16

    ——————————–

    Og jújú, mér finnst heilmikið að þessu. Mér finnst mjög mikið að því að fyrirtæki komist upp með það í krafti auðs og valda að setja fólk í þá aðstöðu að horfa á börnin sín svelta til bana.

    Mér finnst líka mjög mikið að því að ríkt pakk á Íslandi skuli hafa svo lítinn skilning á fátækt, heimilisleysi og mannlegri niðurlægingu að það telji sig þess umkomið að dæma fólk fyrir að reyna að bjarga lífi sínu og barna sinna. Og mér finnst mjög mikið að því að á sama tíma skuli þessi sauðslega þenkjandi almúgi, hvetja þetta sama glæpafyrirtæki til frekara báxítráns, með því að bjóða það velkomið til Íslands og reisa ennþá fleiri stíflur til að mylja undir það. Af því að annars er svo mikil hætta á að feitabolluvandamálið á Íslandi réni.

    Eva Hauksdóttir, 28.7.2008 kl. 09:30

    ——————————–

    Farðu þá þangað sem þessi mannréttindabrot eiga sér stað og mótmæltu þar.  Þar skiptir það máli og þar gæti það hugsanlega gert eitthvað gagn.  Það sjá það allir sem vilja að mótmæli á íslandi breyta engu varðandi mannréttindabrot annarsstaðar í heiminum.

    Ef þú vilt virkilega breyta einhverju og hafa áhrif, í stað þess að vera með læti og leiðindi hérna, þá þarftu að gera það á þeim vettvangi þar sem það gæti haft áhrif.  Mótmælin sem þið standið fyrir hérna á íslandi hafa þau einu áhrif að það tekur örlítið lengri tíma að byggja virkjanir og álver, fólkið sem er að vinna við það missir úr vinnudögum og missir væntanlega við það laun, flestir (langflestir) eru pirraðir út í aðgerðir og röksemdarfærslur ykkar og á endanum verður þessum útlendingum sem standa í þessu (vonandi) vísað úr landi.

    Hin Hliðin, 28.7.2008 kl. 14:38

    ——————————–

    Besta og reyndar eina leiðin til að fá fyrirtæki til að taka upp betri siði er sú að neita þeim um viðskipti. Við teljum mun líklegra til árangurs að Ísland neiti að útvega álfyrirtækjunum rafmagn, en að reyna að ráðast á þau á stöðum þar sem fjölmiðlafrelsi þekkist ekki. Þar fyrir utan þá viljum við ekki hafa það að náttúra Íslands sé eyðilögð og það út af fyrir sig er næg ástæða til að mótmæla virkjunum og áliðnaði hér.

    Starfsfólk missir ekki laun þótt vinna sé trufluð. Það er fyrirtækið sem ber skaðann. Nánar tiltekið fyrirtæki sem stundar massivt arðrán á starfsmönnum sínum.

    Eva Hauksdóttir, 28.7.2008 kl. 16:08

    ——————————–

    Varðandi SAVING ICELAND.

    Athafnir mótmælenda á borð við Saving Iceland eru ómetanlegt framlag til verndunar villtrar náttúru.  Ekki er hægt að búast við að þeir megi að stöðva einstakar framkvæmdir, sem komnar eru af stað, heldur hafa aðgerðir þeirra áhrif á ákvarðanatökur varðandi næstu framkvæmdir.  Hugsjónafólk á borð við Saving Iceland hefur breytt hugarfari landsmanna, þ.m.t. stjórnmálamanna og embættismanna.  Gott hjá þeim.

    Ef ekki væri fyrir þeirra framtak, t.d. við Kárahnjúka, hefði Bitruvirkjun farið í gegn athugasemdalaust.  Og hvað er á teikniborðinu hjá Landsvirkjun?  Þeir eru ekki búnir að afskrifa Þjórsárver, það er víst.  Og þeir eru enn með áform um að beina jökulvatni inn í Langasjó.  Hvernig á að stoppa það öðruvísi en með mótmælum áður en hafist er handa? 

    Yfirgang og virðingarleysi Landsvirkjunar verður að stöðva með því að breyta almenningsálitinu í landinu og láta það heyrast.  Þar eru Saving Iceland brautryðjendur. 

    kjh

    kjarheid (IP-tala skráð) 30.7.2008 kl. 14:48

    ——————————–

    Vá, þvílík móðurást er bara tilbúin að fórna barninu sínu, hvernig gat hún treyst því að sá sem stjórnaði vélinni eða að bilun yrði í vélbúnaði að barninu væri ekki hætta búin.

    Svona fólk á ekki að ala af sér börn.

    Hey, Eva og þetta verð þú með skrifum þínum.

    Ásgerður.

    egvania, 31.7.2008 kl. 14:44

    ——————————–

    Nei, Eva ég skammast mín ekkert fyrir skoðun mína og að auki finnst mér þessi rökfærsla þín svona frekar út í loftið. Barnalegur og heimskulegur flutningur að móðirin er tilbúin að fórna barninu fyrir eigin líf.

    Hvað var það sem mælti á móti því að hún legðist hjá barninu því til varnar?

    egvania, 31.7.2008 kl. 14:58

    ——————————–

    „Hvað var það sem mælti á móti því að hún legðist hjá barninu því til varnar?“

    Eins og fram er komið settist hún niður fyrir framan vinnuvélina með börnin hjá sér.

    Og nú spyr ég þig eins aðra Ásgerður; hvort myndir þú frekar horfa upp á barnið þitt deyja hungurdauða eða taka áhættu á að setja það í hættu til að bjarga því? Er kannski erfitt að svara því?

    Eva Hauksdóttir, 31.7.2008 kl. 16:15

    ——————————–

    Elskurnar, Eva og Ásgerður!
    Þið eruð fastar í frösum og fordómum.
    Ekkert barn var lagt fyrir hjól vinnuvélar.  Auðvitað ekki! Engin móðir fórnar barni sínu á þann hátt.
    Þetta er auðvitað myndlíking, skírskotun í málverk frá frönsku byltingunni eða eitthvað!?.  Hættið þessu móðursýkisrausi og talið af skynsemi um það, sem skiptir máli.
    kjh

    kjh (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 23:09

    ——————————–

    Hvaða frasa og fordóma hef ég á lofti Kjartan?

    Móðirin lagði víst börnin sín fyrir framan vinnuvél, það er engin myndlíking. Hún átti um það að velja að láta þau svelta til bana eða stöðva ýtuna sem átti að ryðja ræktarlandið hennar. Hún gerði það eina sem hún gat gert til að bjarga lífi fjölskyldu sinnar.

    Eva Hauksdóttir, 1.8.2008 kl. 01:40

    ——————————–

    Eva Hauksdóttir;  Kjartan þessi (kjarheid eða kjh (IP-tala skráð)) sjálfskipaður forsvarsmaður SAVING ICELAND er bara að reyna að klóra yfir skítinn sem þú ert búin að ata þennan auma og sjálfhverfa málstað þeirra/ykkar með hvatningum um barnsfórnir, málstaðnum til framdráttar!

    Kveðja, Björn bóndi  ïJð

    Sigurbjörn Friðriksson, 1.8.2008 kl. 11:49

    ——————————–

    Hvar hef ég hvatt til barnsfórna Björn?

    Og enn einu sinni; hvað myndir þú gera í þessari aðstöðu? Merkilegt hvað fólki gengur illa að svara því.

    Eva Hauksdóttir, 1.8.2008 kl. 16:08

    ——————————–

    Eva Hauksdóttir;  Færsla þín (nr. 25) hér fyrir ofan: „Og enn einu sinni; hvað myndir þú gera í þessari aðstöðu? Merkilegt hvað fólki gengur illa að svara því.“

    Í færslu minni í upphafi (nr. 4) svaraði ég ógeðfelldri spurningu þinni (nr. 3) um að fórna barni fyrir málstaðinn (spurning í kjölfar færslu minnar nr. 2) með eftirfarandi hætti (svar mitt):  “ Ég myndi ekki fleygja kornabarninu mínu fyrir valtandi vinnuvél í þeirri von að stjórnandi vinnuvélarinnar hefði stærra hjarta og meiri hlýhug til barnsins en ég sjálfur! “ Þarna varst þú að hvetja til barnsfórna, en ég spurði þig: „Er þetta ekki vísvitandi að gera börn að byssufóðri?“

    Sérðu ekki mun á að gera börn að byssufóðri eða barnsfórn?  Farðu nú að lesa yfir ofangreindar athugasemdir aftur, sérstaklega svörin til þín. 

    Svaraðu svo einni spurningu sem brennur á okkur viðmælendum þínum: „Átt þú barn sjálf, ert þú móðir?“         Sjálfur á ég börn og barnabörn (ef þú skyldir spyrja) og þykist vita um hvað ég er að tala.

    Svo legg ég til að þú leitir þér sálfræðilegrar aðstoðar.  Kv. Björn bóndi  K

    Sigurbjörn Friðriksson, 1.8.2008 kl. 17:26

    ——————————–

    Þú hefur svarað því að þú myndir ekki fleygja (konan fleygði börnunum reyndar ekki í veg fyrir vinnuvél heldur lagði þau á jörðina) kornabarni fyrir vinnuvél. Mér fannst nú á svari þínu eins og þú hreinlega værir ekki búinn að sætta þig við þá staðreynd að þriðji möguleikinn (t.d. að Jesús komi í skýjum himinsins eða að aktivistahreyfing koma vaðandi á staðinn) væri ekki fyrir hendi en nú ítrekar þú þetta svar. Þar sem hér er um afarkosti að ræða ertu þar með að segja að þú myndir frekar kjósa barni hungurdauða en að reyna að bjarga því. Mér finnst það athyglisvert val. Hefur þú séð sveltandi manneskju?

    Með sömu rökum vitum við þá að ef barnið þitt fær sjúkdóm sem mun að öllum líkindum draga það til dauða á kvalafullan hátt, þá munt þú frekar horfa upp á það veslast upp en að senda það í læknisaðgerð sem eru 50% líkur á að misheppnist. Mér finnst það sjúkt og rangt og ég hygg að flestir séu því sammála.

    Það er ekki vísvitandi verið að gera börn að byssufóðri þegar valið stendur á milli öruggs hungurdauða og hugsanlegs morðs. Hér er ekki um fórn að ræða, en hinsvegar mætti líta á það sem fórn til áliðnaðarins að láta fyrirtækin komast upp með að taka lífsbjörgina frá þessum sömu börnum.

    Já, ég á tvo uppkomna syni. Ég hef aldrei séð fram á að þurfa að horfa á þá svelta til bana en hefði sú staða einhverntíma komið upp þegar þeir voru litlir, hefði ég beitt öllum ráðum til að forða því.

    Ef þú ert virkilega búinn að hugsa málið til enda, og hefur komist að þeirri niðurstöðu að þú myndir frekar horfa upp á barn deyja úr hungri en að taka áhættu til að bjarga því, þá eru möguleikarnir tveir:

    a) þú ert að blekkja sjálfan þig vegna einhverrar hallærislegrar skinhelgi eða af því að þú vilt varpa ábyrgðinni af alvöru málsins af fyrirtækjunum og yfir á fórnarlömbin

    b) þú ert nógu sjálflægur til að kjósa barni þínu hungurdauða, fremur en að setja sjálfan þig í siðferðilega klemmu.

    Ef vandamál þitt er sjálfsbelkking gæti sálfræðingur áreiðanlega hjálpað þér. Ef það er sjálflægni á svo alvarlegu stigi, er líklega ekkert hægt að gera annað en að vona að þú fáir aldrei nein völd.

    Eva Hauksdóttir, 1.8.2008 kl. 17:59

    ——————————–

    Eva Hauksdóttir; Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál af eftirfarandi ástæðu;

    Þú virðist vera búin að sannfæra sjálfa þig um að betra sé að drepa eigið barn, en að það gæti mögulega svelt til dauða. 

    Hvernig er þá með foreldrið?  Þarf foreldrið þá ekki að fremja sjálfsmorð? og myrða ættingja sína og félaga til að forða sér og þeim frá hungurdauða?  Þú átt mjög bágt og ég held að þú sért ekki rétta manneskjan til að leggja öðrum lífsreglurnar.

    Kveðja, Björn bóndi.

    Sigurbjörn Friðriksson, 2.8.2008 kl. 19:05

    ——————————–

    Ja hérna, er þessi umræða enn í gangi.  Er það semsagt núna þannig að hún lagðist hjá börnunum sínum fyrir framan vinnuvélarnar.  Sniðugt hvernig þetta breytist eftir henturleika.

    Ef þessi blessaða vinnuvél hefði ekki stoppar þá hefði hún semsagt drepið börnin og sjálfa sig.  Jæja, þau svelta þá ekki á meðan.

    En ég geri ráð fyrir því að fyrst að við erum að ræða um þetta þá hafi vinnuvélin stöðvað og að móðirin sé á lífi í dag.

    Ég geri þá líka ráð fyrir því að þessi aðgerð hennar að leggjast fyrir framan vinnuvélarnar með börnin sín hafi gert það að verkum að núna séu þau södd og sæl, eða hvað?  Hvernig átti þessi aðgerð annars að bjarga þeim?  Birtist matur skyndilega þegar stjórnandi vinnuvélarinnar stöðvaði hana?  Ég geri fastlega ráð fyrir því að þessi aðgerð hennar hafi tafið málið um þann tíma sem tók að grýta henni frá.  Mikil hjálp í því.

    Ef börnin mín væru að svelta þá mundi ég gera allt sem ég gæti til að koma í veg fyrir það.  Ég mundi hins vegar ekki reyna að drepa börnin mín.

    Þessi færsla er fáránleg og að það skuli vera til foreldri sem réttlætir þetta vekur upp ýmsar spurningar um það foreldri.

    Hin Hliðin, 6.8.2008 kl. 22:10

    ——————————–

    Þú myndir semsagt horfa upp á börnin þín deyja hungurdauða, frekar en að gera það eina sem hægt var til að bjarga þeim.

    Eva Hauksdóttir, 7.8.2008 kl. 00:43

    ——————————–

    Ef börnin mín væru að svelta þá mundi ég gera allt sem ég gæti til að koma í veg fyrir það.  Ég mundi hins vegar ekki reyna að drepa börnin mín.

    Hvað við þessa setningu skilst ekki?

    Hvernig bjargar það börnunum að setja þau fyrir framan vinnuvélar?

    Hin Hliðin, 7.8.2008 kl. 08:00

    ——————————–

    Ef þú ert búinn að lesa þennan þráð þá ættirðu að skilja að málið snýst um afarkosti. Þessi kona og aðrir sem fara sömu leið, var ekki að reyna að drepa börnin sín, heldur að bjarga þeim. Þú ert að reyna að velja kost C, þegar aðeins A og B eru í boði. Þú getur ekkert bjargað lífi barnins nema með því að stofna því í voða. Eina leiðin til að koma í veg fyrir hungurdauða smábarna á þessu svæði er matvælaframleiðsla. Það er engin samfélagshjálp í boði og þegar ræktarlandi er eytt, vatn mengað og foreldrarnir drepnir þá deyja smábörn. Mjög einfalt.

    Adivasi fólkið stendur í stöðugri baráttu til að halda einhverjum smáskikum til ræktar og nokkrir mánuðir til eða frá geta skipt sköpum um lífslíkur barna. Með því að ganga í veg fyrir vinnuvélar hefur oft tekist að tefja framkvæmdir en það hefur gerst að stjórnendur vinnuvéla valti yfir fullorðið fólk. Það vill enginn fara þá leið að hætta börnum en það er bara þrautalendingin, ekki bara á Indlandi allsstaðar í heiminum. Af sömu ástæðum pakka öreigar börnum niður í verkfærakistur og senda þau á milli landa í von um að það verði til þess að bjarga lífi þeirra. Og það eru sömu ástæður sem fá fólk til að senda börn í áhættusamar skurðaðgerðir.

    Eva Hauksdóttir, 7.8.2008 kl. 10:37

Lokað er á athugasemdir.