Kjánaleg lífsspeki

idea_gurus_wisdom_lasts_1396275Eitthvert heimskulegasta lífspekigullkorn sem ég hef heyrt er hugmyndin um að lifa hvern dag eins og hann væri þinn síðasti.

Ef ég héldi að ég ætti 24 klukkutíma ólifaða, færi ég ekki í vinnunna. Ég myndi ekki verja þeim til að þrífa heima hjá mér, hvað þá að sinna bókhaldinu. Ekki kynnast nýju fólki, læra eitthvað nýtt eða skipuleggja næsta sumar. Ég myndi að sjálfsögðu nýta hverja mínútu með fólkinu sem ég elska mest, borða óhollan mat, nýta yfirdráttarheimildina í botn og 90 mínútum fyrir andlát mitt tæki ég e-pillu eða kókaín eða eitthvað annað sem maður þarf helst að prófa áður en maður deyr.

Dauðinn getur vissulega orðið manni hvatning til að njóta lífsins en ekki ef maður heldur að lífið sé að hlaupa frá manni. Ég held að maður njóti lífsins best ef maður hugsar sem svo að maður muni lifa þó nokkuð lengi enn og að fólkið sem maður leggur rækt við, það sem maður gerir, nemur og nýtur, sé það sem maður sitji uppi með um áttrætt.

Er bókin sem ég er að lesa þess virði að lesa hana aftur í ellinni? Hvaða sjónvarpsefni vil ég sjá aftur eftir nokkra áratugi? Hvaða áhrif hefur líferni mitt núna á heilsu mína og lífsgleði í fjarlægri framtíð? Hvaða arf skil ég eftir handa afkomendum mínum?

Hvaða sögur mun ég segja barnabörnunum og starfsfólkinu á elliheimilinu? Á ég eftir að drepa þau úr leiðindum eða er ég að gera eitthvað sem öðrum gæti hugsanlega þótt áhugavert?

Hvernig fara vinir mínir með líf sitt? Langar mig ennþá að þekkja þá eftir 40 ár? Hafa þeir sem skipta mig máli einhvern áhuga á því að þekkja þá manneskju sem ég verð eftir 40 ár?

Líf mitt er harla gott þessa dagana en ég gæti lesið merkilegri bókmenntir og lagt meiri rækt við þær fáu manneskjur sem mig langar að þekkja eftir 40 ár. Það hvarflar ekki að mér að lifa hvern dag eins og hann sé minn síðasti. Það eru miklu meiri líkur á að ég nái áttræðu en að ég deyi á morgun.


Áður birt 14. mars 2006

Share to Facebook

2 thoughts on “Kjánaleg lífsspeki

Lokað er á athugasemdir.