Íslenskir sundlaugagestir orðnir allt of margir

Einu sinni ók ég gullna hringinn í von um að sjá Gullfoss og Geysi. Það urðu mikil vonbrigði. Á báðum stöðum var allt troðfullt af einhverjum útlendingum sem tróðust fram fyrir mig svo ég sá ekki neitt. Loksins lyfti maðurinn minn mér upp svo ég sá smávegis en þar sem tugir annarra augna voru glápandi á fossinn, fékk ég ekki nema lítinn hluta af upplifuninni í minn hlut.

Á endanum gáfumst við upp og fórum aftur til Reykjavíkur. Við ætluðum að bæta okkur upp vonbrigðin með því að fara í menningarferð á kaffihús svo við röltum niður á Austurvöll í góða veðrinu. Reyndar var svo mikill mannfjöldi að þvælast fyrir okkur að við vorum hálf miður okkar en þar sem kaffihúsaferðir hafa tilheyrt menningu Íslendinga í 15 eða 20 ár, kom ekki til greina að láta einhverja útlendinga rústa þessum merkilega íslenska sið með nærveru sinni, svo við olnboguðum okkur við illan leik alla leið á Hressó.

Á Hressó var allt fullt af einhverjum útlendingum. Við ætluðum að panta kaffi en sumir útlendinganna voru skrýtnir og einhvernveginn skítugir á litinn og töluðu líka saman svo það var enginn friður. Við gátum náttúrulega ekki boðið sjálfum okkur upp á annað eins svo það endaði með því að við fórum bara í sund.

Nú hefði maður kannski haldið að þetta væru orðin nógu mörg og slæm áföll á einum degi en neiónei, í Vesturbæjarlauginni var líka allt troðfullt af einhverju fólki sem var fyrir okkur. Að vísu voru það aðallega Íslendingar svo það var ekki eins sársaukafull reynsla og það að hafa allt morandi í útlendingum en engu að síður mjög pirrandi að hafa allskonar fólk nálægt sér. Kellingarnar fóru ekki einu sinni burt á meðan ég var í sturtu. Það skánaði lítið þegar við komum við í Melabúðinni á heimleiðinni, þar var líka alls konar fólk að þvælast fyrir okkur.

Ferðamenn á Íslandi eru orðnir allt of margir. Það þarf að kenna þessu liði að hætta þessu útstáelsi út um allar koppagrundir. Þessu fólki líður hvort sem er örugglega best heima hjá sér svo það er miklu betra að það sleppi því að koma til Íslands og sendi okkur frekar peninginn í pósti.

Það er líka gjörsamlega óþolandi að fólk þurfi að hafa allskonar lýð nálægt sér í sundi eða bíða í biðröð og þurfa að smeygja sér fram hjá allskonar pakki þegar það verslar í sinni eigin hverfisbúð. Ég vil ekki eiga á hættu að annað fólk sé fyrir mér. Ég legg þessvegna til að teknar verði upp fjöldatakmarkanir á vegum, opnum svæðum og öðrum opinberum stöðum, sem og í sundlaugum, verslunum og öðrum fyrirtækjum sem telja má hluta af menningu Íslendinga.

Share to Facebook