Íslandi grandað, stútað

Kæra fólk, þið sem hengduð poka með dreifibréfi með fyrirsöginni Íslandi grandað/stútað, á hurðarhún Nornabúðarinnar í nótt eða morgun.

Ég er sammála ykkur. Allt þetta fólk sem þið nefnið er gjörspillt og full ástæða til að grípa til aðgerða til að þvinga það til að axla ábyrgð.

Hitt er svo annað mál að ég og aðrir aðgerðarsinnar á Íslandi erum ekki málaliðar. Það er ekki hægt að leggja inn hjá okkur pantanir, hvorki um það hvernig við mótmælum eða gegn hverjum aðgerðum er beint. Mér þykir undarlegt að fólk sem er ekki að gera rassgat sjálft, skuli telja sig hafa rétt til þess að reyna að segja okkur, sem höfum þó sýnt einhverjar tilhneigingar til andspyrnu, fyrir verkum.

Ef þið viljið vinna með okkur hafið þá endilega samband. Ef þið hafið sjálf skipulagt ofbeldislausar aðgerðir sem þið viljið bjóða okkur að taka þátt í eða þurfið aðstoð við, verður ykkur vel tekið. Ef ykkur langar að mynda eigin aðgerðahóp en vantar upplýsingar eða ráð sem við gætum látið ykkur í té, þá erum við af hjarta reiðubúin til að útvega lesefni og deila reynslu okkar.

En fyrir ala muni, ef þið eruð of löt, of huglaus eða of hugmyndasnauð til að grípa til aðgerða sjálf, hættið þá að reyna að segja öðru fólki hvað það eigi að gera eða hvernig.

Já ég fékk þetta bréf í morgun en þar fyrir utan er fólk stöðugt að hafa samband og spyrja hvort væri ekki ráð að grípa til beinna aðgerða gegn þessum og hinum. Einn hringdi í mig í fyrradag og spurði hvort ég gæti ekki ‘látið vörubílstjóra’ blokkera ákveðna götu, til að hindra að tiltekinn einstaklingur færi til vinnu og gerði þar með meiri óskunda. Ég veit ekki hvernig honum datt í hug að ég hefði eitthvert vald til að ‘láta vörubílstjóra’ gera eitt eða neitt og ekki hafði honum dottið í hug að hafa samband við trukkana sjálfur og biðja þá um samstarf.

Þessar hugmyndir eru allar góðar og gildar og ég myndi styðja flestar þeirra sem ég hef fengið inn a borð til mín. Málið er að við sem höfum staðið í beinum aðgerðum erum ekki ‘atvinnumótmælendur’ heldur erum við í vinnu eða skóla (og nokkrir sem hafa misst vinnuna í atvinnuleit), auk þess sem við eigum fjölskyldur, vini, einkalíf og áhugamál sem þarf líka að sinna. Þar fyrir utan eru mörg okkar höll undir anarkisma en meginhugmyndin í þeirri stjórnmálastefnu er  einstaklingsframtak og virk þátttaka. Það stríðir gegn þeirri hugmynd að lítill hópur taki að sér að halda uppi öllum mótmælaaðgerðum. Við viljum sjá að fleiri taki sig til og geri eitthvað, hvort sem það er að safna undirskriftum, búa til listaverk eða hindra yfirvöld í að ákveða fleiri heimskupör.

Share to Facebook

One thought on “Íslandi grandað, stútað

  1. —————————————————-

    Og ég er ekkert viss um að það sé endilega hugleysi sem er á bak við þessar verkbeiðnir. Við erum bara svo vön því að einhver lítill hópur ráði og ákveði og að hinir hafi í mesta lagi tillögurétt.

    Eva Hauksdóttir, 12.12.2008 kl. 16:00

    ———————————————————————–

    Hvað er í gangi á þinum heimabæ. Undarleg hegðun.

    Frá þessum aðilum þaðer að segja.

    Bara Steini, 12.12.2008 kl. 18:52

Lokað er á athugasemdir.