Hvaða hæfileika þarf forseti að hafa?

Ég get hugsað mér skilvirkara stjórnarfar en lýðræði og ef ég tryði á fyrirbærið „fullkomin manneskja“ þá vildi ég taka upp menntað einræði. Gallinn er sá að jafnvel þótt til kunni að vera manneskja sem engin hætta er á að misnoti slíkt vald hefur sú hin sama sennilega nógu mikla óbeit á fáræði til þess að vera  ófáanleg til að gegna slíkri stöðu. Þessvegna vil ég sem mest lýðræði, enda þótt fólk sé að jafnaði vanhæft, því ég held að vanhæfni margra jafningja sé minna skaðleg en vanhæfni eins yfirboðara.

Þingræði

Þingræði er óskaplega ófullkomið form lýðræðis en líklega þó skársta stjórnarfar sem er við lýði í heiminum í dag. Við vitum öll að hlutverk Alþingis er að setja lög og taka ákvarðanir um skiptingu fjármuna og fleiri mál sem varða velferð almenningis og við vitum hvað stjórnmálaflokkur þarf að hafa til þess að eiga erindi á þing. Hann þarf að hafa stefnu sem kjósandinn telur að henti hagsmunum hans og fólk sem kjósandinn treystir til að framfylgja henni. Við kjósum fólk til þingsetu af því að það er okkar eina leið til að hafa eitthvað um stjórn landins að segja.

En hvað með forsetann? Hvert er hlutverk hans? Hversvegna kjósum við forseta og hvaða eiginleika þarf forseti að hafa?

Hlutverk forseta

Forsetinn er samkvæmt hefðinni, fyrst og fremst opinber skrautfígúra. Hann er formlegur fulltrúi ríkisins sem hefur helst því hlutverki að gegna að taka á móti gestum og mæta á viðburði innlendis og erlendis sem einhverskonar andlit þjóðarinnar. Þetta er ósköp hallærislegt hlutverk. Í raun getur hver sem er mætt í partý og engin sérstök ástæða til að bara ein manneskja geri það. Það má allt eins fá ráðherra, sagnfræðing eða pípulagningamann til að skvera sér í jakkaföt og hrista spaðann á erlendum gestum eða mæta í partý í útlöndum.

Annað hlutverk forseta er að staðfesta lög. Ólafur Ragnar Grímsson hefur fyrstur forseta nýtt réttinn til að synja lögum staðfestingar og afleiðingin af því er sú að málinu er vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta hafa margir bent á og notað sem rök fyrir þeirri skoðun að forseti eigi að standa vörð um lýðræðið með því að leita ális þjóðarinnar á umdeildum málum.

Það er náttúrulega bara bull að forsetinn sé einhverskonar útvörður lýðræðisins. Fínt hjá Óla að segja stundum nei, en ef út í það er farið er forseti ekkert nauðsynlegur til þess að málum sé vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það mætti allt eins setja reglur um að ef tiltekið hlutfall þingmanna hafni lögum þá eigi að leggja þau í mat þjóðarinnar, eða að ef svo og svo margir undirriti áskorun þess efnis þá eigi þjóðaratkvæðagreiðsla að fara fram. Það er örugglega hægt að finna ótal margar og ódýrar leiðir til að auka lýðræðið, aðrar en þær að hafa einhvern svona gaur á launum við að taka geðþóttaákvarðanir um það hvaða mál þjóðin eigi að hafa áhrif á og hver ekki.

Hvaða kröfur gerum við til forseta?

Þegar ég spyr fólk hversvegna það kjósi þann frambjóðanda sem það hefur lýst yfir stuðningi við, eru svörin á eina leið: hann/hún kemur vel fyrir, er vel að sér og hefur ekki móðgað of marga opinberlega. Til viðbótar eru svo talin upp afrek sem vandséð er að gagnist forseta í starfi. Herdís hefur reynslu af akademíunni, Þóra á börn, þessir tveir sem enginn hefur heyrt um áður hafa reynslu úr hinum og þessum störfum og Ástþór… ja þar er allavega kominn náungi sem gefst bara ekki upp.

Einn eiginleiki sem Þóru hefur verið eignaður er sá að hún sé ópólitísk. Það er hún reyndar ekki en auk þess skil ég ekki hversvegna það eru meðmæli með nokkurri manneskju. Hugmyndin er væntanlega sú að forseti eigi að vera nógu mikill miðjumoðari til að segja ekkert sem styggir neinn. Hann má tala um eitthvað sem allir geta sameinast um, svosem frábæra sögu þjóðarinnar, mikilvægi þess að varðveita menningu hennar, stórbrotna náttúru landsins og auðvitað hversu dýrmæt börnin okkar séu. Um allt hitt sem hugsanlega er ágreiningur um, á ópólitískur forseti að halda kjafti. Það að Ólafur hefur neitað að staðfesta lög gerir hann að pólitískum forseta, nú standa væntingar til þess að hugguleg kona dragi úr þessum lýðræðistilburðum sem margir hafa reyndar flokkað sem lýðskrum hjá honum Ólafi.

Hið ópólitíska er pólitískt

Þegar upp er staðið snúast forsetakosningar ekki um nein málefni. Ólafur er búinn að virkja vald forseta til að neita að staðfesta lög. Enginn ætlar að ganga lengra í lýðræðisátt en það. Þetta er semsagt bara svona fegurðarsamkeppni. Og þessvegna mun Þóra vinna. Ekki af því að hún hafi neina sérstaka hæfileika til að gegna embættinu – því þeir eru óþarfir, heldur af því að þau hin hafa ekkert fram yfir hana og hún er sætust. Og sennilega fær um að halda kjafti þótt hún sé pólitísk. Sem auðvitað er pólitísk afstaða út af fyrir sig.

Share to Facebook

5 thoughts on “Hvaða hæfileika þarf forseti að hafa?

  1. Forsetinn þarf að vera sameiningartákn. Það sem sameinar íslendinga umfram allt annað er hatur á hverskonar atvinnustarsemi, þetta hatur er samgróið þjóðinni til mörghundruð ára. Bókmenntir eru handa fáum útvöldum en allir hata bjargálnamenn.

    Eg er ekki að tala um menn eins og eigendur föllnu bankana enda voru það hreinræktaðir þjófar og nutu ástar þjóðar sinnar í hlutfalli við það.

  2. Hvorki Herdís né Þóra virðast vera nægilega afgerandi í málskoti. Það er SKILYRÐIÐ frá mínum sjónarhóli að málskot sé ekki feimnismál eða neyðarhemill. Þess vegna kemur enginn framkominna frambjóðenda til greina nema sitjandi forseti, algerlega burtséð frá fegurð.

  3. Sæl Eva,

    Ég er svo sannarlega í framboði með málefni. Vona að kosningabaráttan geti að einhverju leiti snúist um það að Virkja Bessastaði eins og ég hef kynnt við fyrri framboð. Mun halda áfram nú við þessar kosningar. Vona að fólk sjái á endanum ljósið í myrkrinu. Þú getur kynnt þér mín málefni á vefnum http://www.forsetakosningar.is

    Með kveðju, Ástþór Magnússon

  4. Takk fyrir innleggið Ástþór. Já, þú ert með málefni og m.a.s. alveg ágæt málefni. En þú hlýtur að vera farinn að átta þig á því eftir alla þína reynslu að forsetakosningar snúast ekki um málefni.

Lokað er á athugasemdir.