Hvaða erindi eiga Íslendingar í öryggisráðið?

ISGÞegar ég segi að það sé skárra að hafa ranga afstöðu en enga, á ég að sjálfsögðu við einstaklinga en ekki ríkisstjórnir eða opinberar stofnanir.

Þegar einstaklingur er hlutlaus í öllum eða flestum pólitískum málum, bendir það til ábyrgðarleysis, leti og hugleysis. Hann nennir ekki að kynna sér það sem er að gerast í kringum hann, þorir ekki að setja fram skoðanir sem hann gæti þurft að rökstyðja og endurskoða og álítur að hann hafi aðeins réttindi en engar skyldur gagnvart öðru fólki, dýraríkinu og jörðinni sem við lifum á.

Maður sem hefur ranga skoðun er skárri en sá hlutlausi af mörgum ástæðum. Sá sem getur tileinkað sér skoðun, getur líka skipt um skoðun og ef hann situr fastur við sinn keip, er hægt að hrekja rök hans og útskýra hvar hnífurinn stendur í kúnni. Ef ekki væri fyrir andstæðinginn, gæti fólk aldrei tekið upplýsta afstöðu. Auk þess hefur hann gjarnan eitthvað til síns máls sem vert er að skoða, jafnvel þótt manni líki ekki heildarmyndin. Það er hægt að læra mikið af fólki með rangar skoðanir en maður lærir ekki neitt af þeim sem hvorki nennir að hugsa né tjá sig.

Öðru máli gegnir um þjóðir og stofnanir því þær hafa vald sem einstaklingar hafa ekki. Ég vildi að ríkissjórnin okkar tæki einarða afstöðu gegn stríðsrekstri og sæi sóma sinn í því að fordæma kúgun og mannréttindabrot hvar sem er í veröldinni en fyrst þjóð mín er ekki tilbúin til að kjósa yfir sig fólk sem hefur þá afstöðu, þá finnst mér þó skárra að við gerum okkur upp hlutleysi en að styðja ósómann opinskátt.

Utanríkisráðherra landsins, forsætisráðherra og forsetinn sjálfur eru meðal þeirra sem endilega vilja að Íslendingar fái sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Ég hef að vísu ekki heyrt skárri rök fyrir því en þau að þjóðaflóran innan öryggisráðsins ætti að vera sem fjölbreytilegust og að aukið lýðræði stuðli að öryggi (merkileg rök út af fyrir sig þar sem neitunarvald er í fullu gildi innan ráðsins.) Ég er ósammála. Við létum tvo labbakúta komast upp með það á sínum tíma að skrá okkur í stríð gegn þjóð sem við áttum ekkert sökótt við, án samráðs við þjóðina eða einu sinni við alþingi og ég held í ljósi þeirrar reynslu að íslenskur bjáni gæti gert mikinn óskunda ef hann fengi tækifæri til að hafa meiri áhrif á gang heimsmála en við höfum nú þegar.

Þjóð sem aldrei hefur haft manndóm í sér til að halda fram annarri skoðun en stóri bróðir, í nokkru einasta máli, á nákvæmlega ekkert erindi í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Þjóð hverrar utanríkisráðherra hefur ekki döngun í sér til að svara þjóðernishreinsunum með öðru en því að hún hafi ‘þungar áhyggjur’, ætti að vera sjálfri sér samkvæm og láta stóra bróður einráðan enda hlýðum við honum hvort sem er.

Ingibjörg Sólrún, þú veist greinilega ekki hvernig þungar áhyggjur lýsa sér. Áhyggjur eru byrði og þegar fólk hefur þungar áhyggjur af ástandinu í fjarlægum heimshlutum, þá grípur það til samviskufriðandi aðgerða til að varpa þeirri byrði af sér. Venjulega ekki með því að gera allt sem það getur, því við gætum gert svo miklu, miklu meira, en a.m.k. með því að segja ‘skamm’ og taka þar með þá áhættu að einhver gæti verið manni ósammála.

Ef áhyggjur þínar hverfa við það eitt að lýsa yfir þungum áhyggjum, þá eru það ekki áhyggjur af morðum, pyndingum og frelsissviptingu saklausra sem hrjá þig, heldur bara vottur af pirringi yfir því að fólkið sem kaus þig ætlist til þess að þú segir eitthvað. Ef þú hefðir, þó ekki væru nema pínulitlar áhyggjur af framferði kínverskra ráðamanna gagnvart bæði Tíbetum og sinni eigin þjóð, af framgöngu Ísraels gagnvart Palestínumönnum eða af fjöldamorðunum sem stjórnarher Súdana hefur stutt og stjórnað í Darfúr, þá myndir þú allavega láta svo lítið að segja ‘skammist ykkar barasta’. (Við skulum nú ekki einu sinni nefna Írak og Afganistan, þar sem stóri bróðir hefur vaðið um með sláturhnífinn sjálfur.) Ekki svo að skilja að ég hafi nokkra trú á því að þessir yfirgangseggir séu líklegir til að skammast sín en þarfyrir er alger óþarfi að láta þá halda að það sé almenn stemning fyrir því á þessu grjótskeri úti í ballarhafi að fjölþjóðlegt samkomulag um mannhelgi sé vanvirt og sjálfsögðustu mannréttindi fótumtroðin í krafti ofbeldis og hernaðar annarsvegar og sinnuleysis okkar hinsvegar.

Hvaða fjárans erindi ætti þjóð, sem hefur hvorki hug né dug til að segja fjöldamorðingjum að skammast sín að eiga í ráð sem hefur það hlutverk að stuðla að og varðveita heimsfrið og öryggi? Eru einhverjar sérstakar líkur á því að þjóð sem þorir ekki að fordæma viðurstyggðina í eigin nafni, fái öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til að gera það? Eru svona skemmtileg kokteilpartý haldin á vegum öryggisráðsins eða hvað er þetta fólk eiginlega að pæla?

Share to Facebook