Hvað er kynslóð?

kynslóðÍ nýlegri færslu skrifaði ég um kynslóð foreldra minna og kallaði hana “verðbólgukynslóðina”. Í sömu færslu talaði ég um að ég tilheyrði “firrtu kynslóðinni”, “kaldastríðskynslóðinni” og “diskókynslóðinni”.

Þótt hugmyndin hafi ekki verið sú að fara djúpt í fræðilegar skilgreiningar (ég hélt að þessi hugtök væru frekar gegnsæ), ætla ég að útskýra þetta ögn nánar því eitthvað virðist hugtakanotkun mín vefjast fyrir Torfa og þótt hann sé sá eini sem hefur sýnt einhver viðbrögð við greininni má ætla að fleiri kunni að hnjóta um þessi heiti.

Nú er það svo að kynslóð spannar ekki ákveðið árabil líkt og sentimetri spannar ákveðið bil á mælistiku. Það er ekki hægt að draga skýr mörk milli kynslóða og segja að Bítlakynslóðin hafi fæðst árið 1945 eða að blómabarnakynslóðinni tilheyri þeir sem eru fæddir á árunum 1950-1955. Þumalputtaregla sem notuð er í félagsfræði er sú að þú tilheyrir sömu kynslóð og þeir sem eru allt að 10 árum yngri en þú og einnig sömu kynslóð og þeir sem eru allt að 10 árum eldri. Samkvæmt því er ekki hægt að segja að Torfi tilheyri <em>annaðhvort </em> Bítlakynslóðinni eða hippakynslóðinni, hvort tveggja stenst og þar sem það er einstaklingsbundið hvaða menningaráhrif hafa mótað persónuleika manns er það væntanlega rétt hjá Torfa að hann tileyri sýrukynslónni. Á sama hátt tilheyri ég diskókynslóðinni þótt margir jafnaldra minna tilheyri pönkkynlóðinni og aðrir jafnaldrar mínir eigi jafnvel samleið með hiphopkynslóðinni.

Þegar við gefum kynslóðum ákveðin heiti er gjarnan gengið út frá því sem helst hefur mótað almennt gildismat og smekk í pólitískum eða menningarlegum efnum. Viðhorf kynslóða mótast að verulegu leyti á unglingsárunum og því er ekki að undra þótt oftast sé talað um ´68 kynslóðina sem það fólk sem var á aldrinum 13-19 ára árið ´68. Það er þó ekkert algilt að miða við unglingsárin, t.d. er “aldamótakynslóðin” fólkið sem fæddist um aldamótin 1900 en ekki þeir sem voru 15 ára það ár, enda er þá ekki verið að vísa í ákveðið menningarfyrirbæri heldur tíma.

Ef við miðum eingöngu við tíma er ekkert sem mælir gegn því að tala um þorra þeirra sem lifðu 20. öldina sem “kaldastríðskynslóð” eins og Torfi stingur upp á. Ég álít það þó ekki heppilegt þar sem viðhorf þeirra sem eru fæddir t.d. um 1920 mótuðust miklu frekar af stríðinu og kreppunni en kalda stríðinu. Ég held að ekkert, hvort sem er í stjórnmálum eða öðru menningarlífi, hafi haft jafn djúpstæð áhrif á lífsýn minnar kynslóðar og kalda stríðið. Ég held líka að aðrir þættir hafi haft meiri áhrif á t.d. hippakynslóðina og þessvegna vel ég minni kynslóð það heiti, fremur en þeim kynslóðum sem á undan komu.

Þegar ég tala um “verðbólgukynslóðina” á ég ekki við unglinga, heldur fólkið sem lenti í verðbólgunni á aldrinum 25-40 ára. Enda þótt kynslóð foreldra minna hafi ekki verið á táningsaldri þegar verðbólgan náði hámarki, setti ástandið varnalegt mark á gildismat og viðhorf hennar í efnahagsmálum. Lífsbarátta fyrri kynslóða varð að lífsgæðakapphlaupi og jafnvel neyslukapphlaupi sem nær kannski hámarki í því að skilja ekki eftir arf handa börnunum sínum. Öfgakennd mynd neyslukapphlaupsins birtist svo hjá minni kynslóð sem lætur ekki nægja að eyða öllu sem hún aflar jafnóðum, heldur gengur skrefinu lengra og lifir á neyslulánum. Firriningin er slík að flest okkar verða ekkert betur sett þótt við fáum arf ofan á öll lánin og það er bara ein ástæða þess að ég tala um okkur sem “firrtu kynslóðina”.

Ég vona að þetta skýri hversvegna kynslóðahugmyndin er svona mikið á reiki hjá mér; hún er það nefnilega líka í félagsfræði og sagnfræði. Enda átti fyrri færsla ekki að vera raunvísindaleg skilgreining á neinni kynslóð heldur umfjöllun um viðhorf.

Share to Facebook