Hreyfing er ofmetin

Þrátt fyrir trúleysi mitt vil ég að lífið þjóni tilgangi. Ég veit betur, en til þess að líða vel, þarfnast ég þeirrar blekkingar að ég skipti máli. Þegar mér mistekst að viðhalda blekkingunni verð ég óhamingjusöm um tíma. Ef óhamingjan endist lengur en viku, bregst aldrei að einhver gefi mér óumbeðið heillaráð og alltaf er ráðið alltaf hið sama; ‘hreyfðu þig meira’. Semsagt, þegar manni finnst valið standa á milli þess að vera Martin Lúter King eða ganga fyrir björg til að hreinsa heiminn af einu ömurlegu múgmenni, þá er nú góð lausn að fara út að skokka.

Ég hef aldrei haft ánægju af því að hreyfa mig. Ég geri það eingöngu vegna þess að getan til þess að hreyfa sig og bera óþægilega þyngd er forsenda ákveðins frelsis og sjálfstæðis og eina leiðin til að viðhalda þeirri getu er sú að reyna á líkamann. Ég sé tilgang í hreyfingu, því lífsgæði mín myndu rýrna til muna ef ég gæti ekki komist hjálparlaust á milli staða og borið innkaupapoka. Ánægjuna sé ég hinsvegar ekki.

Ef ég hef ánægju af gönguferð, þá er það náttúran eða eitthvað annað sem ég sé á leiðinni sem veitir mér ánægjuna, ekki það að setja annan fótinn upp þegar hinn fer niður. Ég hef gaman af magadansi en ekki erfiðinu við hann, heldur því að finna ég búi yfir öllu kynþokkafyllri líkamsburði en þeim sem er mér tamastur. Ánægjan felst ekki í því að spenna vöðvana, heldur fullvissunni um að ég sé ekkert ofurseld því að hlunkast áfram með hornin heilum metra á undan halanum.

Ég hef oft farið í ’átak’ (ekki til að verða hamingjusöm heldur til að seinka því að afturendinn á mér skelli á hælunum þegar ég geng) og stundum orðið gjörsamlega örmagna eftir æfinguna. Aldrei hef ég þó fengið endorfínkikk. Reyndar held ég að þetta endorfínkikkið sé goðsögn. Eitthvað sem sumir upplifa kannski stöku sinnum en er enganveginn hægt að reikna með og að maður verði háður því, því trúi ég ekki. Ef það væri satt myndi fólk stöðugt sækjast eftir daglegri hreyfingu. Reyndin er hinsvegar sú að margir tala um að það sé erfitt að hefja þjálfunarprógramm en aldrei hef ég heyrt neinn tala um að það sé erfitt að hætta.

Rannsóknir sýna að þunglyndissjúklingar hafa oft jafn mikið gagn af því að hreyfa sig og að taka lyf. Jibbýkóla, allir fara að hreyfa sig og enginn þarf þunglyndislyf framar. Enn ein töfralausnin fundin. En sannleikurinn er sá að hugmyndin um mikilvægi hreyfingar er orðin að trúaratriði. Líkamlegir kostir þjálfunar eru augljósir en nú keppist sjálfshjálparhreyfingin sem og líkamsræktartrúfélögin við að telja okkur trú um að hreyfing geri mann hamingjusaman. Og þar liggja mörk trúgirni minnar.

Ef það að reyna á líkamann skipti í alvöru svona miklu máli fyrir andlega líðan, þá þekktist langvarandi óhamingja ekki í samfélögum þar sem flestir vinna erfiðisvinnu. Orð eins og óyndi og hugarvíl hefðu ekki komið inn í tungumálið fyrr en á 20. öldinni. Ef þetta væri rétt, væri hreyfihamlað fólk óhamingjusamara en aðrir en ekkert bendir til að svo sé. Óhamingjusamir íþróttamenn væru ekki til og hamingjusamir langlegusjúklingar ekki heldur.

Er þá ekkert að marka rannsóknir? Jújú, auðvitað. Það er án efa satt að fólk hafi sama gagn af líkamsþjálfun og þunglyndislyfjum. Hinsvegar vitum við ekkert að hve miklu leyti það er hreyfingin sem slík sem hefur þessi áhrif. Ánægjan af íþróttum er ekki síður bundinn við félagsskap, leik og keppni. Ekkert er ólíklegt að mörgum sjúklinganna hafi liðið betur, einfaldlega af því að þeir voru farnir að gera reglulega eitthvað sem þeir höfðu ánægju af. Ánægjan getur allt eins falist í tilbreytingunni við að fara út, því að eiga samspil við aðra eða ná árangri. Það liggur í hlutarins eðli að fólki líður betur þegar það er virkt og gerir eitthvað skemmtilegt og á meðan ekki liggja fyrir rannsóknir sem sýna að það hafi lítil eða engin áhrif á þunglyndi að fara á kóræfingar, læra bókmenntafræði, taka þátt í starfi umhverfishreyfingar eða tefla skák er ekki hægt að fullyrða að hreyfing skipti svona miklu máli fyrir andlega líðan.

Við vitum heldur ekki að hve miklu leyti bætt líðan þeirra sem fara að hreyfa sig tengist því að sjá tilgang í athöfnum sínum. T.d. því að öðlast betra líkamlegt úthald eða einfaldlega þeirri tilfinningu að líta betur út. Flestir leggja mikið upp úr fegurð og grannur og sterkur líkami er eitt af því sem við horfum til þegar við metum útlit okkar. Eitt af því en alls ekki það eina. Á meðan við vitum ekki hvaða áhrif það hefði haft á sambærilegan hóp þunglyndissjúklinga að sinna útliti sínu með því að fara á hárgreiðslu- og snyrtistofur, horfa oftar í spegil, kaupa sér falleg föt o.s.frv. getum við ekki fullyrt að hreyfing geri fólk hamingjusamt.

Það getur m.a.s. vel verið að athyglin og viðurkenningin sem fólk fær fyrir að hreyfa sig, skipti verulegu máli fyrir bataferlið. Þegar ég tek upp reglubundna líkamsrækt eftir langt hlé, fæ ég stöðugt þau skilaboð að ég sé dugleg og öguð. Sýnið mér manneskju sem gleðst ekki við að heyra að hún sé klár, skemmtileg, hæfileikarík eða að ákvörðun hennar um að prjóna 4 klukkutíma tíma á viku beri vott um frábæra framtakssemi og boði henni mikla hamingju. Sýnið mér slíka manneskju og þá skal ég trúa því að það sem geri hamingjulyf óþörf sé hreyfingin fremur en hrósið.

Ég held ekki að lykillinn að hamingjunni sé sá að fá sér fullkomnari sjónvarpsfjarstýringu og gott sjúkrarúm og koma djúpsteikingarpotti fyrir við hliðina á því. Auðvitað þurfum við að hreyfa okkur. En að segja fólki að það verði hamingjusamt af því að hreyfa sig, það gerir lítið úr bæði manneskjunni og hamingjunni. Þú getur allt eins sagt manni að hann verði hamingjusamur af því að sofa, anda eða bursta tennurnar.

Það sem gerir fólk hamingjusamt er að lifa lífi sem því sjálfu finnst skemmtilegt og að hafa á tilfinningunni að tilvera þess skipti máli. Og hamingjusamt fólk burstar yfirleitt tennurnar og hreyfir sig ótilkvatt. Kannski ekki eins mikið og íþróttaálfurinn telur hæfilegt en í alvöru, þekkir þú einhverja hamingjusama manneskju sem reynir aldrei á líkama sinn? Sennilega ekki og á því byggist sú trú að hreyfing leiði til hamingju. Það er þó allt eins líklegt að orsakasamhengið sé öfugt. Nú eða þá að þrátt fyrir fylgnina sé ekkert orsakasamhengi milli líkamsræktar og hamingju.

Svo áður en þú gefur einhverjum góð ráð gegn óhamingju, spurðu þá hvað honum finnist skemmtilegt að gera. Spurðu hvort hann geti fundið tilgang í einhverju aðeins raunhæfra en því að útrýma krabbameini eða hvað það annars er sem hann hefur bitið í sig að sé forsenda þess að líf hans sé einhvers virði. Ef hann hefur brennandi áhuga á íþróttum og útivist, ráðleggðu honum þá endilega að hreyfa sig meira. Ef hann er við að leggjast í kör, komdu honum þá á lappirnar og fáðu hann til að hreyfa sig, af sömu ástæðu og þú myndir reyna að fá svenlausan mann til að hvílast. Ef hann hinsvegar er heilsuhraustur og hefur ekki ánægju af líkamsrækt, komdu þá annaðhvort með betri uppástungu eða láttu hann í friði.

Það er nefnilega óþolandi þegar fólk reynir að uppræta óhamingju með uppástungum um að maður geri sér lífið ennþá leiðara með einhverju sem maður hefur nákvæmlega enga ánægju af. Og hafðu sérstaklega í huga að ráðgjafi sem hefur aldrei stundað reglulega líkamsrækt sjálfur en er samt ekki rassgat óhamingjusamari en íþróttaálfurinn, er ágætur stuðningur við þá kenningu að hreyfing sé stórlega ofmetin.

 

Share to Facebook

One thought on “Hreyfing er ofmetin

  1.  ———————

     Hreyfing er ekki bara að hoppa og skoppa í leikfimi eða á skokki. Hreyfning getur verið að smíða, taka til, láta vel að ástvini sínum, fara í fjallgöngu o.s.fr. Við íþróttaálfarnir megum ekki gleyma að ánægja mín að hlaupa maraþonhlaup getur verið þín kvöl. Því segi ég að hreyfing verður aldrei ofmetinn svo lengi sem þú ert að gera það sem þér finnst skemmtilgt í leiðinni.
    Posted by: Hreyfingarfíkill | 16.03.2011 | 12:26:03

     ———————

    Eins og talað út úr mínu hjarta!

    Posted by: hildigunnur | 16.03.2011 | 12:44:29

     ———————

    Heilsa er skilgreind sem Líkamleg, andleg og félagsleg. Hreyfing hefur klárlega áhrif á líkamlega og félagslega heilsu og þar af leiðandi einhver áhrif á andlega heilsu. Til dæmis: Ef ég fer á magadansæfingu minka ég líkur á ýmiskonar sjúkdómum held mér í sæmilegu formi, hitti fólk sem bætir félagslega heilsu mína og kem heim af æfingu ánægður með hvað ég get hreyft mig fallega og hitti marga skemmtilega einstaklinga.

    Ég vona að ég hafi gefið þér/ykkur aðeins nýja sýn á hreyfingu.

    Kveðja, Guðmundur Stefán Gunnarsson

    Posted by: Guðmundur Stefán Gunnarsson | 16.03.2011 | 13:23:45

     ———————

    Bítla-jóginn Maharishi, hélt því fram að menn hefðu í gegnun aldirnar snúið því við sem þyrfti að gera til að verða uppljómaður (fullkomlega hamingjusamur) vegna þess að þeir hefðu horft á og séð hvernig uppljómaðir meistarar hegðuðu sér og sagt sem svo að til að verða uppljómaður á maður að gera eins og hann gerir, en ekki áttað sig á að allt sem meistarinn gerði, hvernig hann sat, hvernig hann hreyfði sig og hve liðugur hann var og nægjusamur stafaði allt af því að hann var uppljómaður, og hafði orðið það með einfaldri hugleiðslu. Þanngi settu menn líkann á undan huganum í stað þess að raunveruelga leiðin var á hinn veginn.
    Þeir sem horfðu á meistarana sögðu hinsvegar ef ég píni mig til að vera jafn nægjusamur og meistarinn er eða ef ég geri allar líkamsæfingarnarn sem hann gerir svo léttilega eða klæði mig eins og hann gerir eða bý til fjalla eins og hann gerir — þá verð ég líka uppljómaður.
    Þegar sannleikurinn er að þegar þú verður uppljómaður (fullkomlega hamingjusamur) sumt af þessu, allt þetta eða ekkert af því vegna þess að þú kýst það sjálfur fullkomlega frjáls með sjálfum þér.
    Hamingjusamir menn hreyfa sig og þunglyndir ekki, munurinn er ekki hreyfingin heldur þunglyndið.

    Posted by: Gunnar | 16.03.2011 | 13:37:54

     ———————

    Mér finnst skipulögð hreyfing hundleiðinleg. Áðurfyrr stundaði ég hana af og til en er steinhætt því.
    Ég fékk þó einu sinni endorfínkikk þegar ég var að niðurlotum komin og það var magnað. Öll þreyta hvarf og orkan rauk upp úr öllu valdi. Í dag finnst mér gaman að labba, og jafnvel taka strætó, aðallega vegna þess að þá er ég meira í tengslum við mannlífið umhverfis mig og að droppa inn á kaffihús þegar ég er á labbinu er punkturinn yfir i-ið. Hættan við þetta er þó sú að ég dregst að gluggum fataverslana og eyði þá stundum peningum þótt ég hafi ekki efni á því 🙂

    Posted by: Sigríður Halldórsdóttir | 16.03.2011 | 13:48:07

     ———————

    Amen

    Posted by: Brjánn Guðjónsson | 16.03.2011 | 14:02:39

     ———————

    Ég er algerlga sammála þér, en ég sé svo systur mína og mágkonu snúa öllu og öllum á hvolf til að geta hreyft sig nóg daglega og hef alltaf skrifað þetta á einhvers konar fíkn. Reyndar gæti það hreinlega verið líkamsdýrkunaráráttan, sem er engu skárri en endorfínfíknin. Sjálf stunda ég meðvitaða og jafnvel nokkuð markvissa sukkjöfnun og til mig nokkuð góða. Þegar ég er þunglynd, dettur mér allra síst í hug að fara út að skokka, þá er eina ráðið að setja mynd í tækið eða bara breiða yfir hausinn. Og alltaf kemst ég út úr svartnættinu aftur … einn góðan …

    Posted by: Kristín í París | 16.03.2011 | 20:36:24

     ———————

    Ég held m.a.s. að þessi ofurtrú á hreyfingu sem allra meina bót geti haft mjög neikvæða hlið. Þegar þeir sem hafa ekki ánægju af hreyfingu finna fyrir þrýstingi verða þeir ennþá neikvæðari og á endanum förum við að líta hreyfingu sömu augum og vinnu. Illa nauðsyn sem væri best að komast hjá.

    Þegar ég var í kór og leikfélagi spurði fólk hvort það væri ekki gaman. Þegar ég fer í líkamsrækarstöð heyri ég frekar eitthvað á borð við ‘helvítis harkan í þér.’ Við lítum enn á skíði og fótbolta sem leiki en líkamræktarstöðvar og skokk falla orðið undir vinnu fremur en eitthvað sem fólk gerir sér til skemmtunar.

    Posted by: Eva | 16.03.2011 | 21:37:51

     ———————

    Sukkjöfnun er annars gífurlega gott orð og mun ég nota það við sem flest tækifæri á næstu vikum.

    Posted by: Eva | 16.03.2011 | 21:38:55

     ———————

    Auðvitað er það ekki hreyfingin sjálf sem bætir hressir og kætir, nema að því leyti að hún kemur annars stöðnuðu blóði á hreyfingu og hitar vöðvana. Ástæðan fyrir að ég hef aldrei náð að klára nema tvo tíma hámark í formlegri líkamsrækt er einmitt að svoleiðis er svo hund-andskoti leiðinlegt.
    HINS VEGAR er það oft margra meina bót (fyrir mig) að grípa til þess ráðs að syngja ef ég er ofboðslega óhamingjusöm. Syngja eins hátt og innilega og ég get. Það virkar fyrir mig en ég veit ekki með aðra. Kannski eykur söngurinn endorfínið í mér en eitthvað annað hjá öðrum 🙂

    Posted by: Anna María Sverrisdóttir | 17.03.2011 | 9:42:43

Lokað er á athugasemdir.